Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2012, Blaðsíða 35
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 88. árg. 2012 31
Það þarf ekki að segja ykkur hvað þið búið yfir dýrmætri reynslu
og ekki heldur að margar hendur vinna létt verk. Ég, sem
þessar línur rita, hef fylgst með nokkrum hjúkrunarfræðingum
sem leggja fram sjálfboðavinnu sína hjá Rauða krossinum,
Hjálparstarfi kirkjunnar og fleiri hjálparstofnunum. Ég hef séð
hversu störf þessara einstaklinga gefa mikið af sér, bæði fyrir
þann sem þiggur og þá sem gefa, hef séð hvað þess háttar
starf er virkilega verðmætur þáttur í lífi margra einstaklinga.
Þá kem ég mér beint að erindinu: Ég held að margar stofnanir
og deildir sjúkrahúsa myndu fagna því mjög að fá liðstyrk við
sérstakar og stundum afar erfiðar kringumstæður. Ég tek sem
dæmi að oft þurfa aðstandendur fatlaðra og langveikra barna
að dvelja vikum og mánuðum saman á sjúkrastofnunum með
börnin sín og þá reynir óendanlega mikið á foreldra og nánustu
aðstandendur þessara barna. Ef nú einhver „viðbótarmamma“,
amma, afi eða pabbi, sem hefði hjúkrunarfræðimenntun,
væri til í að leggja lóð sín á vogarskálina í þessum málum, gæti
það létt mjög undir hjá mörgum fjölskyldum sem eru að sligast
undan erfiði og þunga dagsins.
Ágætu kollegar.
Nú erum við, ef til vill, nokkuð margir hjúkrunarfræðingarnir
sem eigum einhverjar lausar stundir og höfum því áhuga á að
bæta við okkur örlitlu sjálfboðastarfi. Í von um að svo sé þá
langar mig, með stuðningi Elsu Friðfinnsdóttur formanns, að
stofna til smásamverustundar eða fundar með ykkur sem
kynnuð að hafa áhuga á einhverju líku þessu, nú þegar sól er
að hækka á lofti.
Við ykkur sem finnst eitthvert vit í þessu, þó ekki væri nema
að spjalla um möguleika í þessa veru og án skuldbindinga:
Meldið ykkur endilega á hjukrun@hjukrun.is eða bara hringið í
Guðrúnu Andreu hjá félaginu okkar í síma 540 6400.
Við sjáum hvað setur.
Með baráttukveðju,
Ingibjörg Pálmadóttir, Akranesi
Nokkrum dögum seinna, um svipað
leyti dags, baðaði sólin Esjuna og húsin
í Laugarási gullnu ljósi. Sólin átti þá
enn hálftíma eftir ofan sjóndeildarhrings
þannig að skuggi lá að mestu leyti yfir
borginni.