Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2012, Blaðsíða 39
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 88. árg. 2012 35
Áróðursmynd frá breska hernum. Dauði Edithar
Cavell var notaður til þess að hvetja menn til að
skrá sig í herinn.
Kirkjugluggi í Swardeston,
heimabæ Edithar Cavell.
það algjör bylting frá upphafi skólans
1907 þegar þeir voru þrír. Sama ár var
ákveðið að byggja nýtt hús yfir skólann
og átti þar að vera gistirými fyrir 50
hjúkrunarnema. Hins vegar kom enn
helmingur nemanna frá útlöndum. Við
hverja útskrift fjölgaði smám saman
veraldlegum hjúkrunarfræðingum en
margir Belgar voru ekki alveg tilbúnir til
að hugsa sér hjúkrunarkonur sem voru
ekki nunnur.
Sumarið 1914 var Edith í sumarfríi heima
á Bretlandi. Hér breytist ævisagan í æsis
pennandi frásögn af atburðunum í Evrópu
eftir morðið á Franz Ferdinand í Sarajevo.
Inn á milli er sagt frá rólegu lífi Edithar
og lesandann er farið að gruna að Edith
muni lenda í vandræðum ef hún snýr
aftur til Brussel. Við sjóndeildarhringinn
eru að myndast stór ský sem eiga eftir
að hafa skelfilegar afleiðingar fyrir Edith
og milljónir manna.
Enginn hefði orðið hissa ef Edith hefði
ákveðið að vera um kyrrt í Bretlandi en
henni datt það ekki í hug heldur flýtti sér
að pakka saman föggum sínum. Hún sá
fyrir sér að brátt yrði mikil þörf fyrir hjúkrun
og hún átti hér möguleika á að gera það
sem Florence Nightingale hafði gert í
Krímstríðinu og aðrir hjúkrunarfræðingar í
Búastríðinu 1905. Henni tókst að komast
yfir Ermarsund með einu af síðustu
skipunum og kom til Brussel daginn áður
en stríðið skall á 4. ágúst.
Diana Souhami rekur þróunina á fyrstu
mánuðum stríðsins í smáatriðum, stundum
einum of nákvæmlega miðað við að bókin
er ævisaga hjúkrunarfræðings. Í leiðinni
fær lesandinn alls konar upplýsingar, til
dæmis að í fyrri heimsstyrjöldinni dóu
milljón hestar og 250.000 múlasnar frá
Bretlandi á vígvöllunum á meginlandinu.
Markmið höfundar er væntanlega að
sýna hversu mikið blóðbað þetta stríð
var og búa okkur undir það sem koma
skal í bókinni.
Margar borgir í Belgíu voru eyðilagðar á
fyrstu dögum stríðsins en Brussel var lýst
opin borg og Þjóðverjar gátu þrammað
inn í borgina mótstöðulaust. Til að byrja
með komu fáir særðir til borgarinnar og
furðurólegt var á sjúkrahúsinu þar sem
hjúkrunarskóli Edithar var staðsettur. Þeir
sem komu voru flestir Þjóðverjar.
Sókn Þjóðverja inn í Belgíu gekk mjög
hratt og breski herinn, sem hafði komið
Belgum til aðstoðar, mátti sín lítils.
Margir breskir hermenn, oft særðir, urðu
viðskila við herdeildir sínar og höfðust við
í skógarkofum og fjósum. Fjöldi Belga tók
þá upp á sína arma og aðstoðaði þessi
týndu börn, eins og þeir voru kallaðir.
Menn mynduðu leynihópa sem smám
saman tengdust. Edith Cavell dróst einnig
inn í þessi samtök. Dag einn í nóvember
1914 börðu tveir breskir hermenn á
dyr hjúkrunarskólans. Edith tók þá að
sér og eftir það varð ekki aftur snúið.
Hjúkrunarskólinn var orðinn að einu af
skjólshúsunum á flóttaleiðinni til Hollands.
Hjúkrunarkonan starfaði nú á laun. Þegar
mest var voru um 80 breskir hermenn í
umsjón Edithar og nýir streymdu að nánast
daglega. En eftirgrennslan Þjóðverja efldist
dag frá degi. Jafnvel þó að fáni Rauða
krossins blakti fyrir utan sjúkrahúsið var
það alkunna að nokkrar hjúkrunarkonurnar
voru breskar og það vakti athygli Þjóðverja.
Hjúkrunarkonurnar voru stöðvaðar úti á
götu og leitað var að fötum og skilríkjum
sem Þjóðverjar héldu að þær ætluðu
hugsanlega að færa breskum hermönnum.
Þegar leitað var á sjúkrahúsinu fóru allir
hermennirnir út í garð eða í laus sjúkrarúm
og Edith bjó til nöfn og sjúkrasögur til þess
að blekkja Þjóðverjana. Edith var vöruð við
því að hún þyrfti að láta vita af breskum
hermönnum. Hún gæti hjúkrað þeim en
um leið og hægt var ættu þeir að fara í
fangabúðir.
Í bókinni er sagt ítarlega frá stríðinu og
störfum Edithar og fjölda annarra við að
aðstoða hermenn að ná heilsu og komast
út úr Belgíu. En svo kemur að því, í byrjun
ágúst 1915, að leynimakkið dugar ekki
lengur. Leitað er í íbúð hennar og þó
að hún hafi brennt öll gögn um breska
hermenn finnst einkabréf sent frá Bretlandi.
Hún er þá handtekin og sett í fangelsi.
Diana Souhami lýsir aðstæðum í
fangelsinu og hvernig Edith var yfirheyrð
aftur og aftur. Hún reyndi að segja sem
minnst en trú hennar bannaði henni að
neita þegar leynilögreglumennirnir báðu
hana að staðfesta það sem þeir höfðu
fundið út á annan hátt. Yfirheyrsluskýrslan
var skrifuð á þýsku sem Edith skildi
ekki og var hún augljóslega færð í
stílinn. Á næstu dögum voru margir
í andspyrnuhring hennar handteknir.
Hún var látin dúsa í fangelsi þangað til
réttarhöldin fóru fram í byrjun október.
Þar var hún dæmd til dauða ásamt
fjórum öðrum. Tugir annara voru dæmdir
í langa fangelsisvist. Hún var svo tekin af
lífi snemma morguns 12. október 1915.
Bók Diönu Souhami er meira en ævisaga
þó að sú saga sé nóg til þess að
gera bókina áhugaverða. Lýsingarnar á
aðstæðum í Bretlandi á ofanverðri 19.
öld, á fyrri heimsstyrjöldinni og á and
spyrnuhreyfingunni í Belgíu gera hana
enn áhugaverðari. Ekki síst er bókin
lofsöngur til hjúkrunarfræðings sem sinnti
kalli sínu og týndi lífinu fyrir það að hjálpa
náunganum.