Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2012, Side 58

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.02.2012, Side 58
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 1. tbl. 88. árg. 201254 UMRÆÐA Vinna hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða Rannsóknin leitast við að svara rannsóknarspurningum um hvernig vinnutíma hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða er varið í tengslum við sameiginleg viðfangsefni í hjúkrun og hvaða þættir í nánasta vinnuumhverfi hafa áhrif á vinnuna. Niðurstöður rannsóknarinnar staðfesta að vinna hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða er margþætt og flókin og birtist það einkum í tíðum skiptum milli vinnuflokka og athafna, tíðum rofum á vinnu og tíðum hreyfingum milli staða. Niðurstöður rannsóknarinnar eru í takt við niðurstöður annarra rannsókna um að mestum hluta vinnutíma hjúkrunarfræðinga er varið í óbeina umönnun og tíma sjúkraliða í beina umönnun sjúklinga (Chaboyer o.fl., 2008; Gran­Moravec og Huges, 2005; Potter o.fl., 2005). Niðurstöðunum svipar til niðurstaðna Chaboyer o.fl. (2008) sem gerð var í Ástralíu hvað beina og óbeina umönnun varðar. Það sem er ólíkt með niðurstöðum þessarar rannsóknar og þeirrar áströlsku er að áströlsku hjúkrunarfræðingarnir sinntu deildarvinnu meira en sjúkraliðarnir, en hér er skiptingin jafnari. Vinnuathafnir, sem mældar voru og falla undir flokk deildarvinnu, lúta að ritaravinnu, ræstingu og öðrum störfum sem velta má fyrir sér hvort þurfi hjúkrunarfræðimenntun eða sjúkraliðamenntun til að sinna. Dæmi um vinnuathafnir deildarvinnu, sem mældust títt hjá hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum í þessari rannsókn, eru símsvörun, þrif og frágangur á skoli og undirbúningur rúmstæðis. Þessar niðurstöður benda til að ef til vill megi nýta mannafla í hjúkrun með markvissari og betri hætti. Tæplega fimmtungi vinnutíma hjúkrunarfræðings er að meðaltali varið til lyfjatiltektar og lyfjagjafar. Athygli vekur að einungis tæplega tíunda hluta vinnutíma hjúkrunarfræðinga er varið til skráningar gagna og allnokkru minni hluta hjá sjúkraliðum. Þessar niðurstöður benda til þess að skráning gagna sé ekki fyrirferðarmikil miðað við heildarvinnutíma í hjúkrun. Í almennri umræðu er gjarnan talað um hve mikill tími hjúkrunarfræðinga fari í lyfjaumsýslu og skráningu. Miðað við niðurstöður nýlegrar bandarískrar rannsóknar (Hendrich o.fl., 2008), sem gerð var á 36 sjúkrahúsum með þátttöku 767 hjúkrunarfræðinga á skurðlækninga­ og lyflækningadeildum, fór mun meiri tími í lyfjaumsýslu eða 35,3% samanborið við 16,9% í þessari rannsókn. Svipaður tími fór í skráningu gagna í báðum rannsóknum eða um 17%. Þegar sameiginleg viðfangsefni í hjúkrun eru skoðuð í þessari rannsókn má velta fyrir sér hvort einhverjar af þeim vinnu­ athöfnum, sem hjúkrunarfræðingar sinntu, ættu betur heima hjá sjúkraliðum eða öðru aðstoðarfólki. Á þetta við um alla flokka vinnuathafna, þ.e. beina og óbeina umönnun og deildarvinnu. Jafnframt er mikilvægt að kanna nánar hvort eitthvað af því sem sjúkraliðar sinntu krefst í raun menntunar þeirra. Áhrifaþættir vinnunnar Óvænt samskipti annars starfsmanns er algengasti þátturinn sem hefur áhrif á vinnu bæði hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða og aðstoð við starfsmann er einnig algengur áhrifaþáttur. Spyrja má hvort tíð óvænt samskipti séu óumflýjanleg í hjúkrun á bráðalegudeild eða hvort hugsanlegt sé að móta markvissari farveg fyrir samskipti og draga þannig úr rofi á vinnu hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Í þessu sambandi er áhugavert að rýna í staðal ACCN (2005) um góð samskipti sem mikilvæga forsendu fyrir öryggi sjúklinga og starfsfólks. Bent er á hversu brýnt er að kenna og þjálfa samskipti þannig að öllu starfsfólki sé gert kleift að þjálfa með sér markvissar, skipulagðar og öruggar samskiptaaðferðir. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar virðast þessar ábendingar einnig eiga erindi hér á landi. Uppibyggileg endurskoðun á eðli og umfangi samskipta í starfi er dýrmætt tækifæri til umbóta í hjúkrun og getur bætt velferð sjúklinga og starfsfólks. Viðfangsefnið er mikilvægt fyrir starfsfólk, stjórnendur og kennara. Niðurstöðurnar samrýmast fyrri rannsóknum um tíðar ferðir á milli staða og skipti á athygli frá einu viðfangsefni til annars (Cornell o.fl., 2010; Hendrich o.fl., 2008; Potter o.fl., 2004, 2005; Redding og Robinson, 2009; Tucker og Spear, 2006). Undirstrikar þetta hve hjúkrun á bráðalegudeildum er flókin og gefur innsýn í hversu margt getur haft áhrif á vinnu hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða. Mikilvægt er að skoða með gagnrýnum augum hvort svo tíðar ferðir og skipti á athygli sé óumflýjanleg í hjúkrun á bráðalegudeild eða hvort hér sé tækifæri til að skipuleggja störfin og umhverfið enn betur með tilliti til markvissari nýtingar á þekkingu, færni og tíma starfsfólks. Hluti vandans gæti verið að það er talið til dyggða í hjúkrun að vera á iði (busyness) og að það að gera eitthvað í þeirri merkingu að framkvæma verk er talið háleitara en það að vera með sjúklingi (doing vs being) (Kerfoot, 2006; de Ruiter og Demma, 2011; Thompson o.fl., 2008). Það sem einkenndi vinnu þátttakendanna í þessari rannsókn var fjölverkavinnsla, tíðar tafir og truflanir og tíðar hreyfingar á milli staða. Þessar niðurstöður benda til þess að vinnufyrirkomulagið og hið efnislega umhverfi ýti ekki nægilega vel undir skilvirka og örugga vinnu. Margt í efnislegu umhverfi sjúkrahúsa getur haft áhrif á vinnuna, svo sem langir gangar og staðsetning birgða (Guðrún Bryndís Karlsdóttir o.fl., 2008; Rechel o.fl., 2009). Þær deildir, sem rannsóknin var framkvæmd á, eru allar í gömlu húsnæði með löngum göngum sem orðnir eru börn síns tíma. Staðsetning stoðrýma er gjarnan dreifð og jafnvel við enda ganganna. Erfitt er að breyta grunnmynd húsnæðis en ef til vill má bæta staðsetningu og aðgengi að birgðum og tækjum og spara þannig tíma og fé. Athygli vekur að þrátt fyrir tíð rof á vinnu, tíð skipti á milli viðfangsefna, athafna og staða þóttu þátttakendum viðkomandi vaktir rólegar og viðráðanlegar og að þeim hafi verið kleift að ljúka öllu nauðsynlegu á vaktinni. Sögðu þeir ekkert sérstakt hafa truflað vinnu þeirra á vaktinni. Þess ber að geta að þátttakendur voru allir reyndir starfsmenn, deildir vel mannaðar og flestir sjúklingar þátttakenda höfðu dvalið á deildinni í að minnsta kosti 5 daga þegar rannsóknin fór fram. Velta má fyrir sér hvernig myndin liti út hjá hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum með minni starfsreynslu, þar sem mönnun væri ófullnægjandi eða þar sem margir sjúklingar væru nýkomnir á deild. Líklegt má telja að í slíkum tilvikum væri erfiðara fyrir starfsfólk að takast á við verkefni sín og tryggja öryggi og gæði þjónustunnar.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.