Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2010, Side 26

Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2010, Side 26
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 4. tbl. 86. árg. 201022 Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, sighuld@landspitali.is SJÁLFRÆÐI ALDRAÐRA ÍSLENDINGA Sjálfræði getur reynst flókið í framkvæmd, ekki síst í öldrunarþjónustu. Sigrún Huld Þorgrímsdóttir fer hér yfir hvernig sjálfsákvörðunarréttur aldraðra og réttur þeirra til einkalífs er virtur í raun. Í þessari grein er skoðað hvernig sjálfræði og sjálfsákvörðunarréttur aldraðra birtist í framkvæmd í íslenskri öldrunarþjónustu. Hvernig er háttað ákvörðun um búsetu svo sem varanlega stofnanavist? Hver er sjálfsákvörðunarréttur fólks sem býr á stofnunum fyrir aldraða um hagi sína og daglega tilveru? Skoðuð eru lög og reglugerðir sem lúta að sjálfræði aldraðra, bæði hér á Íslandi og í nágrannalöndum okkar. Einkum er sjónum beint að danskri löggjöf í því sambandi, bæði vegna þess að höfundur hefur kynnst henni í framkvæmd og einnig virðast Danir einna lengst á veg komnir í þessu efni. Sjálfræðishugtakið Hugtakið sjálfræði hljómar ekki sérlega flókið en getur þó reynst það í framkvæmd. Vilhjálmur Árnason heimspekingur skilgreinir það einfaldlega: það að ráða sér sjálfur. Nánar sagt felur það í sér að geta valið út frá sínum aðstæðum: að hafa færni, dómgreind og upplýsingar til að geta valið og að geta tekið mið af eigin gildismati við ákvarðanir (Vilhjálmur Árnason, 2004). Bent hefur verið á að sjálfræði er ekki bara spurning um vilja einstaklingsins heldur félagslegt samhengi – það þarf að vera hægt að framkvæma ákvarðanir um sjálfræði (Struhkamp, 2005; Harbers o.fl., 2002). Augljóst er að ýmiss konar færniskerðing takmarkar valkosti; við slíkar aðstæður er mikilvægt að umhverfi einstaklingsins leggi ekki frekari höft á sjálfræði hans en þau sem skerðingin hefur í för með sér, til dæmis með ýmiss konar stofnanareglum (Struhkamp 2005). Gjarnan hefur verið litið á óskerta skynsemi og dómgreind sem forsendu þess að geta notið sjálfræðis en á síðari árum hefur fjöldi fræðimanna bent á nauðsyn þess að þróa ný viðmið til dæmis vegna aldraðra þegna með heilabilun (Vilhjálmur Árnason, 2004; Dewing, 2002; Kane, 1998). Segja má að þróunin sé frá forræðishyggju fyrri tíma yfir í hugmyndafræði sem stuðlar að meira sjálfræði einstaklingsins. Ekki er um að ræða eina stefnu eða aðferðir á hvorn bóg heldur birtist þessi mismunandi afstaða með margvíslegum hætti. Þannig getur til dæmis hjúkrunarfræðingur ýmist starfað í anda forræðishyggju eða nýju hugmyndanna – jafnvel á sömu vaktinni! Verklagsreglur og venjur stofnana vísa iðulega í báðar þessar áttir – eðlilega, því ekki er um svarthvít skil að ræða. Einstaklingshæfð hjúkrun og persónumiðuð umönnun fyrir fólk með heilabilun eru tvö dæmi af mörgum um „nýju hugmyndirnar“. Gömlu hugmyndirnar sjást víða og má benda á lög um málefni aldraðra (nr. 126/1999), en þar segir í 1. grein að markmið laganna sé að aldraðir eigi völ á heilbrigðis­ og félagslegri þjónustu við hæfi; að aldraðir geti búið heima en eigi kost á stofnanaþjónustu sé þess þörf; og loks að aldraðir njóti jafnréttis og að sjálfsákvörðunarréttur þeirra sé virtur. Það að hafa sérstök lög um þennan þjóðfélagshóp hefur verið gagnrýnt (Ástríður Stefánsdóttir, 2004) og bent á að nær væri að setja sameiginleg lög um alla þegna sem þurfa á sérstakri samfélagsþjónustu að halda – sem stór hluti aldraðra þarf alls ekki. Ef borin eru saman markmið laganna og til dæmis laga um málefni fatlaðra (nr. 59/1992) vekur athygli að áherslan fyrir aldraða er á að sjá þeim fyrir öryggi og umönnun en fyrir fatlaða meira á að þeir njóti jafnréttis á við aðra þjóðfélagshópa. Strax í fyrstu grein er markmiðið skilgreint sem jafnrétti fatlaðra, skilyrði þeirra til eðlilegs lífs og að þeir hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir í gegnum samtök sín. Sambærileg lög í Danmörku eru ekki bundin við aldurshóp heldur taka til þeirra sem hafa skerta færni eða þurfa sérstaka félagslega þjónustu af öðrum ástæðum (Lov om social service nr. 58/ 2007). Andspænis kröfunni um að virða sjálfstæði skjólstæðinga stendur krafan um að vernda velferð hans (beneficence). Í lögunum birtist hún skýrt í því að fyrst af öllu er tekið fram að aldraðir skuli njóta heilbrigðis­ og félagsþjónustu við hæfi – það er samfélagsleg umönnunarskylda. Það að uppfylla þá skyldu getur iðulega stangast á við óskir skjólstæðings um að ráða sér sjálfur. Sigrún Huld Þorgrímsdóttir er hjúkrunarfræðingur, MSc, og hefur starfað við öldrunarhjúkrun frá 1999. Hún starfar nú á heilabilunardeild Landspítala á Landakoti.

x

Tímarit hjúkrunarfræðinga

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tímarit hjúkrunarfræðinga
https://timarit.is/publication/1159

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.