Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.2012, Page 10
Tímarit hjúkrunarfræðinga – 4. tbl. 88. árg. 20126
Elsa B. Friðfinnsdóttir, elsa@hjukrun.is
LÖG UM HEILBRIGÐISSTARFSMENN
OG REGLUGERÐ UM
HJÚKRUNARFRÆÐINGA
Lög um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 voru samþykkt á
Alþingi í maí sl. Með þessum nýju lögum eru allar 33 löggiltu
heilbrigðisstéttirnar felldar undir ein lög. Hjúkrunarlög og
önnur sérlög um einstakar stéttir falla niður við gildistöku laga
um heilbrigðisstarfsmenn, 1. janúar 2013.
Undirbúningur rammalöggjafar um heil
brigðis starfsmenn hefur staðið yfir í mörg
ár. Félag íslenskra hjúkrunar fræðinga
(FÍH) og Læknafélag Íslands hafa
ætíð lagst gegn setningu rammalaga
um heilbrigðisstarfsmenn og að sérlög
um hjúkrunarfræðinga og lækna falli
brott. FÍH hefur meðal annars vísað í
lagalega sérstöðu stéttarinnar í lögum
um heilbrigðisþjónustu. Þar er skýrt
kveðið á um faglega ábyrgð deildarstjóra
hjúkrunar innan heilbrigðisstofnana á
hjúkrunarþjónustu og á sambærilegan
hátt er kveðið á um ábyrgð lækna (10.
gr.). Ekki er kveðið á um ábyrgð annarra
heilbrigðisstétta á sama hátt í lögunum.
Megintilgangurinn með hinum nýju lögum
er sagður vera að samræma og einfalda
gildandi ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn
og tryggja betur gæði heilbrigðisþjónustu
og öryggi sjúklinga með því að skilgreina
kröfur til heilbrigðisstarfsmanna. Nokkur
mikilsverð nýmæli eru í lögunum. Þar
er til dæmis kveðið á um að heilbrigðis
starfsmaður skuli virða faglegar tak
markanir sínar og vísa sjúklingi til annars
heilbrigðisstarfsmanns þegar við á. Þetta
á við um alla heilbrigðisstarfsmenn.
Einnig að starfssvið heilbrigðisstétta verði
ákveðið á grundvelli þekkingar og hæfni
með tilliti til hagsmuna sjúklinga.
Í lögum um heilbrigðisstarfsmenn segir
að ráðherra skuli, í samráði við landlækni,
viðkomandi fagfélag og menntastofnun
hér á landi, setja reglugerðir sem kveða
á um þau skilyrði sem þarf að uppfylla
til að fá starfsleyfi og mega starfa hér á
landi. Ráðherra er einnig heimilt að setja
reglugerðir sem kveða á um skilyrði fyrir
veitingu sérfræðileyfa, að höfðu samráði
við sömu aðila.
Drög að reglugerð um menntun, réttindi
og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði
til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi
hafa verið til umsagnar í FÍH. Um faglegar
kröfur og ábyrgð hjúkrunarfræðinga segir
í drögunum:
• Hjúkrunarfræðingur skal sýna sjúklingi
virðingu og sinna störfum sínum af
árvekni og trúmennsku og í samræmi
við þær faglegu kröfur sem gerðar eru
á hverjum tíma.
• Hjúkrunarfræðingi ber að þekkja
skyldur sínar og virða siðareglur,
viðhalda þekkingu og faglegri færni og
tileinka sér nýjungar er varða starfið.
• Hjúkrunarfræðingur skal þekkja lög og
reglugerðir sem gilda um heilbrigðis
starfs menn og heilbrigðis þjónustu og
önnur lög og stjórn valds fyrirmæli eftir
því sem við á.
• Hjúkrunarfræðingur ber ábyrgð á for
vörnum, hjúkrunarfræðilegri greiningu
og með ferð þeirra sjúklinga sem til
hans leita og hann hefur umsjón með.
• Hjúkrunarfræðingur skal virða faglegar
takmarkanir sínar og leita eftir
aðstoð eða vísa sjúklingi til annars
heilbrigðisstarfsmanns eftir því sem
nauðsynlegt er, svo sem ef hann telur
sig ekki geta veitt sjúklingi viðeigandi
heilbrigðisþjónustu.
Meðal þeirra breytingatillagna sem
FÍH gerði við reglugerðardrögin var að
skýra ábyrgðarsvið hjúkrunarfræðinga
enn frekar með því að bæta við 4.
málsgreinina:
“Hjúkrunarfræðingur ber ábyrgð á
forvörnum, hjúkrunarfræðilegri greiningu
og meðferð þeirra sjúklinga sem til
hans leita og hann hefur umsjón með,
auk faglegrar stjórnunar hjúkrunar í
heilbrigðisþjónustu.”
Umsögn FÍH um reglugerðardrögin er
aðgengileg á vefsvæði félagsins hjukrun.
is undir liðnum útgefið efni.
Lög um heilbrigðisstarfsmenn og
reglugerð um hjúkrunarfræðinga
skilgreina þær menntunarkröfur sem
gera þarf til hjúkrunarfræðinga og
sérfræðinga í hjúkrun hér á landi. Lögin
og reglugerðin afmarka einnig réttindi
og skyldur hjúkrunarfræðinga og því er
nauðsynlegt að hjúkrunarfræðingar kynni
sér málin vel.
Elsa B. Friðfinnsdóttir
er formaður
Félags íslenskra
hjúkrunarfræðinga.