Skólavarðan


Skólavarðan - 01.12.2015, Side 48

Skólavarðan - 01.12.2015, Side 48
48 DESEMBER 2015 Vinnuumhverfi fjölmargra stétta hefur gjörbreyst á undanförnum áratugum við það að stór hluti verkefna er nú unninn í gegnum tölvur og netið. Vinnuumhverfið er að stórum hluta stafrænt og tölvukerfið stjórnar því hvernig vinnudagurinn gengur. Þessi nýi veruleiki hefur í för með sér annars konar álag en áður þekkt- ist. Þetta á svo sannarlega við um kennara, skólastjórnendur og aðra starfsmenn í skólum. Það er því full ástæða til að fara að huga að þessum þætti vinnuumhverfis. Hver kannast ekki við að hafa setið og beðið eftir að netið opnaðist? Eða að vera búinn að slá inn heilt verkefni eða skýrslu þegar tölvan frýs eða netið hrynur? Eða að koma að tölvunni sinni í lamasessi eftir nýjustu uppfærslu á kerfinu? Þegar kerfið hrynur Stafrænt vinnuumhverfi er veruleiki mjög margra í dag og ef tölvukerfi virka ekki getur það haft veruleg áhrif á afköst, sem aftur hefur áhrif á starfsfólk og starfsánægju. Þannig getur lélegt netsamband tafið fyrir allri skráningu, hvað þá ef kerfið hrynur í miðjum klíðum þegar við erum að vinna að mikilvægu verkefni eða erum stödd í kennslustund með stóran hóp nemenda sem verður verklaus, þá eru góð ráð dýr. Það gefur augaleið að þetta getur leitt til aukinnar streitu. En fleira en streita getur verið afleiðing af því að starfsmenn verða að laga sig að tölvunum en ekki öfugt. Starfsmenn taka t.d. oft á sig sökina og telja sig ekki valda starfinu og eldri starfsmenn verða stundum fyrir því að vera taldir verr hæfir í starfi þar sem þeir geti ekki haldið í við tölvuþróunina þó í raun sé kerfinu um að kenna en ekki starfsfólkinu. Í október síðastliðnum kom út í Svíþjóð aukin og endurbætt útgáfa af bókinni „Jävla skitsystem“ eftir Jonas Söderström. Titill bókarinnar vísar til sænskra blótsyrða sem hafa hrotið af vörum þeirra Svía sem dag- lega starfa í umhverfi þar sem notast er við tölvur. Bókin, sem kom fyrst út árið 2010, fjallar um áhrif tölvukerfa á starfsumhverfi og var fyrsta bókin á sænsku um það málefni. Hún seldist mjög fljótt upp og hefur höfundur, sem er sérfræðingur og ráðgjafi á sviði upplýsingatækni og stafrænnar miðlunar, nú endurbætt hana til muna. Átta svið stafrænna annmarka Höfundurinn, Jonas Söderström, segir að bókin sé skrifuð fyrir alla sem nota tölvur í starfi sínu og fyrir trúnaðarmenn á vinnustöðum og ekki síst þá sem starfa við að setja upp og hanna tölvukerfi. Höfundur greinir það sem kalla má stafræna annmarka vinnuumhverfis í átta svið og kemur með uppástungur um hvernig hægt sé að bregðast við til að bæta vinnuumhverfið. Meðal þess sem hann telur valda vandræðum er hversu lítið sé um staðla milli kerfa og hversu ósveigjanleg þau séu. Gamlar og nýjar útgáfur noti ekki sömu merkingar og „tali“ ekki saman. Einnig sé stöðugt áreiti á öllum tímum sólarhrings streituvaldandi, sem og viðbótarverkefni vegna aukinna möguleika í notkun auk eftirlits með störfum sem fylgi. Til að bregðast við og bæta vinnuumhverfið verði starfsfólk að taka sjálft ábyrgð og standa saman. Nauðsynlegt sé að skilgreina vel hvað það sé sem valdi vanda áður en leitað er til yfirmanna með beiðnir um úrbætur. Starfsfólk verði að vera óhrætt við að spyrja óþægilegra spurninga og fara fram á að fá leiðsögn og kennslu í nýju tölvuumhverfi. Loks minnir hann á að einnig sé nauðsyn að láta vita af því sem vel gengur. Skoðun hans er sú að góð tölvu- tækni sé skýr og auki afköst og starfs- ánægju. Reyndin sé hins vegar oftar sú að þau tölvukerfi sem við búum við einkennist af hinu gagnstæða. Tölvukerfin stjórni því hvernig vinnan gangi og það leiði til álags. Niðurstaðan sé því að streita vaxi og starfsánægja minnki, sem aftur geti leitt til heilsubrests. Það er vitað að mikil streita fylgir starfi kennara og álag vegna tölvukerfa er enn einn þáttur sem getur aukið hana. Því er ekki seinna vænna að fara að gefa þessum þætti vinnuumhverfis gaum. „HELVÍTIS SKÍTAKERFIN“ Ásdís Ingólfsdóttir formaður vinnuumhverfis- nefndar KÍ Stafrænt vinnu- umhverfi er veruleiki mjög margra í dag og ef tölvukerfi virka ekki getur það haft veruleg áhrif á afköst, sem aftur hefur áhrif á starfsfólk og starfs- ánægju.

x

Skólavarðan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.