Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist - 01.07.1997, Side 16
gamalt sárið, þar vex ekki hár. Hann óttast ekkert á yfirborði jarðar
eða undir því. Hann ræðst á uxa jafnt sem flær. Honum er uppsigað
við aðra hunda - nema kengúruhunda - og leggur sérstaka fæð á vini
og ættingja fjölskyldunnar. Þeir koma þó sjaldan í heimsókn. Stöku
sinnum vingast hann við ókunnuga. Honum er í nöp við snáka og
hefur drepið þá marga, en einhvern tíma verður hann bitinn og
drepst; flestir snákahundar enda þannig.
Öðru hverju leggur óbyggðakonan frá sér prjónana og horfir, og
hlustar, og hugsar. Hún hugsar um eitt og annað sem á daga hennar
hefur drifið, það er fátt annað að hugsa um.
Regnið kemur grasinu til, og þá minnist hún þess þegar hún
barðist við sléttuelda í fjarveru manns síns. Grasið var vel sprottið, og
skraufþurrt, og eldurinn virtist ætla að brenna ofan af henni. Hún fór
í gamlar buxur af manni sínum og barði niður logana með grænni
grein, þangað til stórir dropar af sótsvörtum svita spruttu fram á enni
hennar og láku í taumum niður skítuga handleggina. Tommy, sem
sjálfur barðist hetjulega við hlið móður sinnar, þótti fyndið að sjá
hana í buxum, en skelfingu lostið ungbarnið öskraði af öllum mætti á
mömmu sína. Eldurinn hefði haft betur ef fjóra kappsama óbyggða-
menn hefði ekki borið að á elleftu stundu. Það ríkti algjör ringulreið -
þegar hún tók upp barnið lét það öllum illum látum, hélt að hún væri
„svartur maður", og Krókódíll, sem tók meira mark á barninu en
sjálfum sér, réðst til atlögu, og (þar sem hann var kominn af léttasta
skeiði og orðinn heyrnarsljór) var svo æstur að hann bar ekki kennsl á
rödd eiganda síns fyrst í stað, heldur hékk í molskinnsfötunum
þangað til Tommy brá söðulól um kverkarnar á honum. Leiði hunds-
ins yfir mistökunum, og þörf hans fyrir að láta hann í ljós, endur-
speglaðist á afgerandi hátt í rytjulegri rófunni og tólf tomma glotti.
Þetta var dýrðardagur fyrir strákana; dagur sem lengi yrði í minnum
hafðum og sögur færu af.
Henni verður hugsað til þess þegar hún barðist við flóð ein síns
liðs. Hún stóð tímunum saman í steypiregninu, og gróf yfirfallsrás til
að bjarga stíflunni hinum megin lækjar. En varð að lúta í lægra haldi.
Sumt er óbyggðakonunni um megn. Morguninn eftir var stíflan brost-
in, og hjarta hennar brast næstum því líka, því henni varð hugsað
hvernig manni hennar yrði innanbrjósts þegar hann kæmi heim og
14