Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist - 01.07.1997, Blaðsíða 40
„Því hinn alrnáttugi miskunnsami Guð hefir tekið til sín sál hennar... “
las herra Brickle.
Þar sem ekki lá ljóst fyrir hverjum bæri að kasta rekunum gerði Gill
matvörukaupmaður það. Þau heyrðu handfyllina smella á kistu-
lokinu.
Þá streymdu tárin sem aldrei fyrr úr hreistrugum augunum á
Ossie. Út úr myrkrinu. Út úr myrkrinu hafði Daise kallað: Hvað er að
sjá, Ossie, gráttu ekki. Ég fékk sinadrátt, svaraði hann. Hann engdist
af kvölum. Sinadrátt? sagði hún syfjulega. Eða ímyndarðu þér það? Ef
það eru ekki sinadrættirnir, þá er það eitthvað annað. Það mátti vel
vera. Hann tæki Daise trúanlega. Hann var ekkert gáfumenni eftir að
hann fékk heilahimnubólguna. Heyrðu mig nú, sagði Daise, komdu
hingað inn, upp í rúmið hjá mér, ég skal hlýja þér, Os, í hvelli. I
myrkrinu hlustaði hann á sjálfan sig sjúga upp í nefið. Oo, Daise, mér
mundi ekki, sagði hann, mér mundi ekki rísa, ekki einu sinni þótt þú
gæfir mér lukkupottinn, sagði hann. Hún hafði mjög hægt um sig þá.
Hann lá og taldi æðaslög myrkursins. Ekki þannig, sagði hún - hún
hló ekki að honum eins og hann hafði hálfpartinn búist við - auk
þess, sagði hún, gerist það í rauninni aðeins einu sinni á ævinni.
Þannig. Og undireins var hann farinn að kljúfa myrkrið, hlunkaðist
og skjögraði til hennar. Hann hafði aldrei kynnst annarri eins nær-
gætni. Því Daise var ekki hrædd. Hún renndi hendinni gegnum hárið
á honum, án afláts eins og seytlandi vatn. Hún sefaði sinadrættina úr
fótum hans. Þangað til þau voru farin að anda í takt. Móktu. Svo reið
strákurinn Ossie Coogan aftur niður af fjallinu, mélasmellirnir ómuðu
um loftin blá og svitalykt lagði undan söðlinum, þar sem hann reið í
áttina að fljótinu mikla. Hann vaggaði og flaut með straumhörðu,
endalausu fljótinu, dýfði munninum ofan í brúnt og svalt vatnið, það
hefði verið þess virði að drukkna.
Ossie hafði vaknað einu sinni um nóttina, óttaðist að þau hefðu
fjarlægst. En Daise hélt honum enn við brjóst sér. Ef hann hefði nú
verið öðruvísi. Það fór kipringur um kverkarnar á Ossie. En þá hefði
Daise kannski brugðist öðruvísi við. Svo hann hjúfraði sig upp að
hlýju myrkrinu, og aftur var tekið á móti honum.
„Ef mann langar nógu mikið til þess, þá getur maður gert hvað
sem er," staðhæfði Meg Hogben.
38