Bjartur og frú Emilía: tímarit um bókmenntir og leiklist - 01.07.1997, Blaðsíða 85
„Hún fór með mig upp," sagði vinkona mín, „og sýndi mér
svefnherbergið sitt. Það var fullt af blómum. Við stóðum í gættinni og
horfðum inn. Hún sagði: „Kynlíf er ekkert vandamál hjá mér.""
*
Þegar sá sem...maðurinn sem hafði verið í herberginu á undan
vinkonu minni, kom í mat, töluðu þau saman í nokkra klukkutíma
eftir að allir aðrir voru farnir frá borðum, um mismunandi skynjun og
skilning. Vinkona mín talaði hægt, í löngum, flóknum setningum með
sundurleitu myndmáli, og hló oft. Maðurinn, sem var vísindamaður,
var hraðmæltur og léttmáll, en sat kyrr. Þau virtust hlusta hvort á
annað.
„Ég á ekki við guð í kristnum skilningi," sagði vinkona mín.
„Það er eigingirni," sagði maðurinn, „sem fær fólk til að óska þess
að lífið hafi víðari skírskotun."
*
Við vinkonurnar unnum eitt sumar við að selja karlmannsnærföt í
stórmarkaði í Footscray. Við vorum í litlu bómullarkjólunum okkar,
bláu sandölunum. Við vorum hamingjusamar þar, við að selja, pakka
inn, hlaupa upp og niður stigana, berja kassavélina, fara út í garð í
hádeginu með strákunum úr búðinni. Ég var hamingjusöm. Yngsti
strákurinn leit á okkur og andvarpaði og sagði: „Ég veit ekki hvora
ykkar ég elska heitar." Dag einn var vinkona mín að afgreiða skarp-
leita konu í sérvöruhorninu. Það heyrðist öskur. Ég leit upp. Vinkona
mín var að strunsa á dyr. Hún var grátandi. Við stóðum öll hreyf-
ingarlaus, í leikrænum stellingum. Konan yppti öxlum. Hún talaði til
dolfallinna búðargestanna:
„Ég sagði ekki nokkurn skapaðan hlut," sagði hún. „Þetta hefur
ekkert með mig að gera."
Ég skildi viðskiptavin minn eftir og hljóp á eftir vinkonu minni.
Hún var neðar í götunni, að skoða í búðarglugga. Hún var hætt að
gráta. Hún fór að segja mér allt af létta...en það skiptir ekki máli
núna. Þetta var á sjöunda áratugnum; áður en kvennabaráttan hófst.
83