Morgunblaðið - 06.10.2016, Blaðsíða 28
28 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 6. OKTÓBER 2016
✝ RagnheiðurGuðjónsdóttir
fæddist í Reykjavík
22. júlí 1975. Hún
varð bráðkvödd á
heimili sínu í Kópa-
vogi 24. september
2016.
Foreldrar hennar
eru hjónin Sigríður
Valdimarsdóttir,
hjúkrunarfræðingur
á hjartadeild Land-
spítala við Hringbraut, fædd
13. maí 1946, og Guðjón Ólafs-
son, fyrrverandi flugstjóri hjá
Icelandair, fæddur 22. júní
sínu í Verzló. Hún fékk fyrst
réttindi sem einkaflugmaður
og lauk svo atvinnuflugmanns-
prófi árið 1996. Þann 9. febr-
úar 1998 var hún ráðin sem
flugmaður til Flugleiða, síðar
Icelandair. Þann 20. maí 2007
varð hún flugstjóri hjá Ice-
landair, þá einungis 31 árs
gömul.
Ragnheiður naut þess að afla
sér menntunar og bæta við sig
þekkingu. Samhliða störfum
sínum í fluginu lærði hún förð-
un og útskrifaðist sem förð-
unarfræðingur árið 1997. Hún
lauk námi í viðskiptafræði frá
Háskólanum í Reykjavík árið
2005. Þegar hún lést hafði hún
lokið einu og hálfu ári í hjúkr-
unarfræði við Háskóla Íslands.
Útför hennar fer fram frá
Bústaðakirkju í dag, 6. október
2016, klukkan 13.
1939. Ragnheiður
lætur eftir sig
soninn Alexander
Berg Ragnheið-
arson sem er
fæddur 14. nóv-
ember 2013.
Ragnheiður hóf
skólagöngu sína í
Fossvogsskóla og
svo í Réttar-
holtsskóla. Hún
lauk stúdents-
prófi frá Verzlunarskóla Ís-
lands árið 1995. Tæplega 18
ára gömul hóf hún flugnám og
stundaði það samhliða námi
Haustlitirnir skarta sínu feg-
ursta þessa dagana í allri sinni
litadýrð. En skyndilega grætur
himininn, vindar blása harkalega
og myrkur hellist yfir. Hún
Raggý er dáin. Að horfa á eftir
frænku minni í blóma lífsins
kveðja svona snöggt er óbæri-
legt.
Ég var svo lánsöm að fá að
vera viðstödd fæðingu Raggýjar
einn fallegan sumarmorgun fyrir
rúmu 41 ári síðan. Hún var einka-
barn foreldra sinna og fékk nafn
móðurömmu sinnar, Dóru Ragn-
heiðar. Hún ólst upp við ástríki
foreldra sinna, litli rauðhærði
glókollurinn, og mynduðust sterk
tengsl við afa Valda og ömmu
Dóru. Hún var forvitin, áköf,
dugleg, samviskusöm og um-
hyggjusöm við alla. Það var mikið
hlegið og leikið þegar öll systk-
inabörnin hittust hjá afa og
ömmu í Norðurbrún. Raggýju
þótti afskaplega vænt um fjöl-
skyldu sína og vildi allt fyrir hana
gera.
Raggý ólst upp í Fossvoginum.
Hún gekk menntaveginn og
reyndist nám auðvelt. Hún lauk
stúdentsprófi frá Verslunarskól-
anum. Á skólaárum sínum eign-
aðist hún góða vini og sú vinátta
hefur haldist öll þessi ár. Á
menntaskólaárum sínum var
ákvörðun tekin um að læra flug,
feta í fótspor föður síns. Þar nýtt-
ust hæfileikar hennar eins og
þrautseigja, einbeitni, þolinmæði
og dugnaður vel. Ég veit til þess
að í starfi var hún afar farsæl en
alltaf var hún hógværðin uppmál-
uð. Hún hafði mikla ánægju af
starfinu. Raggý var mjög fróð-
leiksfús og bætti við námi í við-
skiptafræði sem hún lauk með
sóma. Henni fannst hún ekki geta
gert upp á milli foreldra sinna og
því byrjaði hún að læra hjúkrun-
arfræði líkt og móðir hennar og
hafði lokið tveimur árum í því
námi. Ekki eignaðist Raggý lífs-
förunaut, en stærsta og besta
verkefni hennar var þegar hún
eignaðist gullmolann sinn Alex-
ander árið 2013. Hann var sólar-
geislinn í lífinu og hún lifði fyrir
hann.
Missir okkar fjölskyldunnar er
mikill. Hláturinn, fasið og enda-
lausa góðmennsku í okkar garð
munum við varðveita. Fyrir þig,
elsku Raggý mín, munum við
kveikja ljós og reyna að sjá ljósið
í fjarska og minnast með þökkum
allra samverustundanna og
væntumþykju sem þú hefur veitt
okkur í gegn um lífið.
Þín móðursystir,
Inga.
Raggý frænka mín er dáinn og
ég veit að fátækleg samúðarorð
mín megna lítils gegn þeim harmi
sem Sirrý systir mín og Guðjón
bera þessa dagana. Ég get bara
sagt að ég og dætur mínar Gyða,
Sara og Hrafnhildur, erum harmi
slegin yfir sviplegu fráfalli Rag-
gýjar.
Við erum bara að reyna styðja
hvert annað í gegnum þetta. Við
vorum að gráta saman og rifja
upp allar þær fallegu minningar
sem við höfum um Raggý, hvað
hún var ótrúlega dugleg og
ákveðin í öllu sem hún tók sér
fyrir hendur, hvað hún elskaði
fjölskyldu sína og hvað hún gaf
alltaf af sér ást og kærleik í hvert
skipti sem við hittumst. Hún
Raggý var ein yndislegasta
manneskja sem ég hef borið gæfu
til að kynnast á lífsleiðinni og við
finnum svo innilega til með ykk-
ur. Megi Guð blessa ykkur.
Um undra-geim, í himinveldi háu,
nú hverfur sól og kveður jarðarglaum;
á fegra landi gróa blómin bláu
í bjartri dögg við lífsins helgan straum.
(Benedikt Gröndal)
Guðjón Viðar Valdimarsson.
Því morgni eftir orðinn dag,
enginn gengur vísum að.
Enn erum við minnt á þennan
sannleik. Ung kona svæfir litla
drenginn sinn að kveldi og kyssir
mömmu sína góða nótt. En unga
konan fær ekki að líta nýjan dag
að morgni.
Allt í einu, eins og hendi sé
veifað, eru lífdagar hennar á enda
taldir og eftir stöndum við hin og
skiljum ekki orðinn hlut. Hún
Raggý er horfin okkur. Hér eftir
verður hún ekki þátttakandi í líf-
inu okkar heldur aðeins minning.
Það er erfitt að sætta sig við það.
Elsku Raggý okkar, eins og
við munum hana fyrst 1975, litla
rauðhærða skottan, eina barnið
foreldra sinna, augasteinninn
þeirra. Fallega rauða hárið ein-
kenndi hana alla tíð og var eitt af
því sem tengdi hana við nöfnu
sína, móðurömmuna Dóru Ragn-
heiði. Það er ekki hallað á neinn
þó sagt sé að þær nöfnurnar,
Raggý og amma Dóra, voru mikl-
ar vinkonur og áttu einstaklega
fallegt og kærleiksríkt samband
alla tíð.
Litla skottan Raggý stækkaði
og varð að ungri konu, það sýndi
sig fljótt að hún var ákveðin,
fylgin sér og hæfileikarík. Henni
voru allir vegir færir, en hjartað
var í fluginu og það varð hennar
lífsstarf.
Hún varð einn kvenkyns frum-
kvöðla í stétt atvinnuflugmanna
sem gerði okkur frænkur hennar
mjög stoltar. Það sýndi líka kjark
hennar og áræðni þegar hún
ákvað að verða móðir upp á eigin
spýtur og hún var svo lánsöm að
fá í faðminn sinn yndislegan
dreng, Alexander Berg, auga-
stein og eftirlæti hennar, afans
og ömmunnar.
Já, Raggý var dugleg og klár
en hennar stærsti kostur var
stórt og hlýtt hjarta og það er það
sem við fjölskyldan eigum eftir
að sakna allra mest. Raggý hafði
góð orð um alla, grínaðist, hló
hjartanlegum hrossahlátri. Hún
var fjölskyldukona sem fagnaði
tímamótum hjá litla drengnum
sínum með stórveislum fyrir fjöl-
skyldu og vini. Þær mæðgur,
Raggý og Sirrý, óaðskiljanlegar
og nánar alla tíð, létu sig heldur
ekki vanta í veislur og fjölskyldu-
mót og það var tilhlökkunarefni
að eiga von á þeim í heimsókn,
það var ávísun á hlátur og sprell
fram á rauða nótt. Nú yljar minn-
ing um dýrmæta daga sumarið
2015 þegar þær mæðgur og litli
Alexander komu hingað í sveitina
saman.
Annar áberandi þáttur í fari
Raggýjar var gjafmildi, örlæti og
greiðasemi.
Gjafirnar voru engar smágjaf-
ir þegar hún tók sig til. Stóri
frændi og kona hans sem hún
bauð sísona í afmælisferð til Am-
eríku, litla frænkan sem fékk
óvænt fullan poka af fötum úr
akkúrat réttu búðunum – ilm-
smyrsli og sápur fyrir móður-
systurnar. Allt gladdi okkur og
gleymist ekki, svona var Raggý,
hugsunarsöm og mundi eftir öll-
um.
Og svo heldur lífið áfram. Við
verðum án elskulegrar frænku og
við verðum að læra að lifa með
því. Minningarnar eru bara góðar
og þær veita gleði og yl. Ég vildi
gefa mikið til að finna einu sinni
enn hlýja faðmlagið hennar og
heyra glaðværan hláturinn en ég
veit að það verður ekki. Við sökn-
um hennar sárt en hún lifir áfram
í litla drengnum sínum. Og þegar
hann verður eldri munum við
segja honum frá rauðhærða,
hjartahlýja grallaranum og
dugnaðarforkinum sem var
mamma hans.
Sara Regína
Valdimarsdóttir.
Það er svo erfitt að horfa á eft-
ir svo ungri konu, í blóma lífsins.
Lífið getur verið ósanngjarnt og
sorglegt. Raggý, frænka mín, var
svo ljúf og hjartahlý, blíð og góð,
sú allra klárasta og duglegasta.
Viðskiptafræðingur og flugstjóri,
mamma og dóttir, vinkona og
frænka, allt gerði hún vel og af
sönnum áhuga. Raggý var einka-
barn og mjög náin foreldrum sín-
um. Hún eignaðist Alexander
sinn fyrir tæpum þremur árum
og hefur hann verið þeim öllum
mikill gleðigjafi og hamingju-
moli.
Elsku Raggý frænku verður
sárt saknað.
Guðrún Ólafsdóttir.
Hver minning dýrmæt perla að liðnum
lífsins degi,
hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka
hér.
Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem
gleymist eigi,
og gæfa var það öllum, er fengu að
kynnast þér.
(Ingibjörg Sigurðardóttir)
Elsku Raggý frænka okkar
með stóra hjartað. Gjafmilda og
góða, sem vildi allt fyrir alla gera.
Við munum litlu, fallegu, rauð-
hærðu stelpuna með krúttlegu
bollukinnarnar og prakkarablik í
augum. Flottu unglingsstúlkuna,
ungu, fallegu og metnaðarfullu
konuna sem virtist ekkert
ómögulegt, vildi sífellt læra og
mennta sig og var svo stolt af fjöl-
skyldunni sinni og vinnunni. Við
munum stelpuna sem elskaði
ömmu sína svo heitt og huggum
okkur við að nú vaki þær yfir
okkur saman, þessar endalaust
góðu konur. Hvíl í friði, elsku
frænka. Við munum ávallt vera til
staðar fyrir mömmu þína og
pabba og litla Alexander.
Við kveðjum þig með ólýsan-
legri sorg í hjarta.
María Valdimarsdóttir,
Ólafur R. Jónsson,
Dóra Ragnheiður
Ólafsdóttir,
Sigríður Ólafsdóttir,
Ólafur Már Ólafsson,
Kolbrún Hrund Ólafsdóttir.
Með harm í hjarta skrifa ég
þessa hinstu kveðju til stóru
frænku minnar, hennar Raggýj-
ar. Á einu augnabliki var hún tek-
in úr þessum heimi, frá öllum
þeim mörgu sem elskuðu hana.
Það verður eftir stórt gap, sem
ekki verður aftur fyllt, nema með
góðum minningum um allar þær
stundir sem maður varði með
henni. Raggý, með stóra hjartað,
breiða brosið og hlátrasköllin.
Alltaf var hún svo rausnarleg
með fallegu orðin sín og gjafirnar
og ávallt höfðingi heim að sækja.
Hún vildi ætíð allt fyrir mann
gera og var mér og minni fjöl-
skyldu ómetanleg hjálp í veikind-
um og erfiðleikum á síðasta ári.
Við Raggý hittumst reglulega
síðustu árin, þegar hún kom til
Köben í flugherminn. Hér áttum
við margar góðar stundir, sem
mér þykir svo vænt um og eru nú
ómetanlegar. Ég mun sakna
hennar ótrúlega mikið og trúi
ennþá ekki að þú hafir verið tekin
frá okkur svona snemma.
Elska þig, kæra Raggý. Ein-
hvers staðar á góðum stað eruð
þið amma og afi saman. Og ég
veit að það er eitthvað sem hefði
hlýjað þér um hjartarætur líka.
Valdís Ólafsdóttir.
Glaðvær. Gjafmild. Rauðhærð.
Metnaðargjörn. Dugleg. Tilfinn-
ingabúnt. Snjöll. Klár. Opin. Svo-
lítið kaupóð. Hláturmild. Hlý.
Aðdáunarverð. Blíð. Og elskaði
heitt.
Aldrei lognmolla í kringum
hana hjartans Raggý okkar og
hún var, og verður, svo stór og
mikilvægur partur af móðurfjöl-
skyldunni okkar. Það er ótrúlegt
til þess að hugsa að hún verði
ekki viðstödd í næsta skipti sem
við komum saman. Við eigum öll
eftir að sakna hennar svo mikið.
Það er viðeigandi að seinasta
minningin mín um Raggýjju var
við slíkt tilefni, við brúðkaup
Ingu Dóru systur í sumar. Þar
var hún fremst í flokki, svo inni-
lega glöð fyrir brúðhjónanna
hönd, bjóðandi Eduardo velkom-
inn í fjölskylduna af öllu hjarta.
Það var Raggý.
Hjarta hennar var galopið og
fjölskyldan var henni allt. Fyrir
tilviljun hitti ég hana með mínum
unnusta um borð í Icelandair vél í
febrúar fyrr á þessu ári og án
þess að hafa hugmynd um að
hann væri flugvélanörd af hæstu
gráðu, bauð hún honum að sitja
frammí hjá sér á meðan hún flaug
yfir Boston og lenti svo Boeing
757 vél á JFK flugvelli í New
York. Þá hreinræktuðu hamingju
sem ég sá skína úr andliti hans
við þetta boð hef ég ekki séð fyrr
né síðar, ekki einu sinni þegar ég
játaðist honum tveimur mánuð-
um síðar. Ef að við verðum svo
lánsöm, ég og hann, að eignast
börn í framtíðinni þá veit ég að
hann á eftir að segja þeim þessa
sögu oftar en einu sinni og oftar
en tvisvar. Og við munum hugsa
svo hlýtt til Raggýjar í hvert ein-
asta skipti.
Ég er þakklát fyrir allar
stundirnar okkar saman. Ég er
þakklát fyrir að hafa átt þig að
alla mína ævi.
Og allra mest á ég eftir að
sakna hlátursins þíns, smitandi
og glaðværa.
Dreymi þig ljósið, elsku hjart-
ans Raggý mín, sofðu rótt.
Guðný Ebba Þórarinsdóttir.
Fréttin um lát Ragnheiðar,
eða Raggýjar eins og við þekkt-
um hana, kom eins og reiðarslag
fyrir okkur samstarfsmenn henn-
ar. Það er mjög erfitt að skilja það
þegar ung kona með framtíðina
fyrir sér er hrifin á brott svo
snögglega og burt frá barnungum
syni sínum.
Raggý hóf störf hjá Icelandair
sem flugmaður árið 1998, þá 23
ára gömul. Hún náði að kynnast
innanlandsfluginu áður en hún
færðist yfir í millilandaflug fé-
lagsins og var því komin með
mikla og góða reynslu sem flug-
maður. Eftir 10 ára starf færðist
hún í sæti flugstjóra á B757 og
B767 flugvélum félagsins og
sinnti því starfi þar til hún lést.
Raggý sem hafði ekki langt að
sækja flugáhugann var góður
flugmaður sem sinnti starfi sínu
af miklum faglegum metnaði.
Hún var einstaklega vandvirk og
skipulögð sem kom fram í öllu
sem hún tók sér fyrir hendur. Við
þökkum henni fyrir samstarfið
gegnum árin og frábært starf í
þágu Icelandair.
Raggý var fróðleiksfús með
eindæmum og kláraði auk flugs-
ins viðskiptafræði, förðunarfræði
og lagði stund á hjúkrunarfræði,
svo eitthvað sé nefnt. Eitt hennar
helsta einkenni var hve mikið hún
elskaði fjölskyldu sína og hve
vænt henni þótti um fólkið í
kringum sig og gjafmildi hennar
átti sér oftar en ekki fá takmörk.
Umhyggja hennar fyrir þeim sem
lentu undir eða sótt var á var
einnig eitthvað sem ég varð oftar
en einu sinni vitni að.
Tilhugsunin um að Alexander
fái ekki notið þeirrar ástar og um-
hyggju sem Raggý hafði fram að
bjóða nístir mann inn að hjarta en
ég veit hann er umvafinn góðu
fólki, sérstaklega ömmu sinni og
afa sem nú hugsa um þennan litla
dreng sem gefur þeim styrk og
ást til að halda áfram og takast á
við lífið og þau verkefni sem nú
bíða þeirra. Elsku Alexander,
Sirrý og Guðjón, hugur minn er
hjá ykkur. Færi ég ykkur mínar
innilegustu samúðarkveðjur.
Hilmar B. Baldursson,
flugrekstrarstjóri Ice-
landair.
Með sorg í hjarta en jafnframt
þakklæti fyrir yndisleg kynni
kveðjum við Ragnheiði Guðjóns-
dóttur, hana Raggý okkar. Það er
með öllu óskiljanlegt að ung kona
í blóma lífsins sé tekin á brott frá
litla sólargeislanum sínum, hon-
um Alexander, sem brátt verður
þriggja ára, elskandi foreldrum,
ættingjum og vinum. Orð mega
sín lítils á stundu sem þessari og
það eina sem við getum gert er að
minnast þessarar fallegu konu
sem gaf svo ríkulega. Raggý
snerti hjarta okkar með glaðværð
sinni, góðmennsku og útgeislun
og við munum ætíð sakna hennar.
Við biðjum góðan Guð að um-
vefja, styðja og styrkja Alexand-
er, Sirrý og Guðjón með kærleika
sínum.
Minningin um yndislega konu
lifir.
Þegar raunir þjaka mig,
þróttur andans dvínar,
þegar ég á aðeins þig,
einn með sorgir mínar.
Gef mér kærleik, gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni,
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Gísli frá Uppsölum)
Fyrir hönd vina og samstarfs-
fólks hjartadeildar Landspítal-
ans,
Bylgja Kærnested og Guð-
björg Jóna Guðlaugsdóttir.
Það mun reynast erfitt að fylla
skarð Ragnheiðar Guðjónsdóttur
– þessarar einstöku manneskju
sem við fengum að kynnast sem
nemanda í hjúkrunarfræði í Há-
skóla Íslands.
Ragnheiður var sérstakur
nemandi. Hún var menntaður
flugstjóri og vann sem slíkur.
Samhliða starfi sínu hjá Ice-
landair var hún í námi í hjúkr-
unarfræði með hléum síðustu
ár. Draumur hennar var að
verða hjúkrunarfræðingur og
áformaði hún að ljúka hjúkrun-
arfræðináminu á lengri tíma
meðfram starfi sínu. Hún var
mjög glöð að vera komin aftur í
námið nú í haust eftir barneign-
arleyfi.
Starfsfólk og nemendur
minnast Ragnheiðar sem ein-
staklega yndislegrar mann-
eskju. Hún var hlý, einlæg og
skörp og gaf mikið af sér til
samnemenda og sjúklinga. Ný-
verið sendi hún okkur ljósmynd
af sér sem okkur þótti sérstök.
Myndin var af áhöfn í einu flugi;
hún var flugstjóri og aðstoðar-
flugstjórinn og allir flugliðarnir
voru menntaðir hjúkrunarfræð-
ingar.
Við hugsum til drengsins
hennar Ragnheiðar og fjöl-
skyldunnar allrar og vottum
ykkur okkar dýpstu samúð.
Fyrir hönd nemenda, kenn-
ara og starfsfólks Hjúkrunar-
fræðideildar Háskóla Íslands,
Helga Jónsdóttir,
deildarforseti.
Lífið er ekki alltaf sann-
gjarnt. Að missa nána vinkonu í
blóma lífsins er nístandi sárt.
Við vorum oft búnar að skipu-
leggja lífið, gera plön og ætluð-
um að vera saman í ellinni þar
sem átti að ríkja gleði og ham-
ingja. Svo kemur eitt símtal og
tilveran breytist. Ég vildi ekki
trúa þessu en ég þekkti röddina
vel sem talaði. Heyrði hversu
erfitt var að segja þessi tíðindi
og vissi um leið að ég gat engu
breytt. Þessi ótímabæra kveðja
minnir okkur á að lífið er ekki
sjálfsagt. Við þurfum að njóta
þess á meðan við getum.
Við Raggý kynntumst á ung-
lingsárunum þegar ég flutti við
hliðina á henni. Við horfðum
fyrst hvor á aðra úr fjarlægð en
smullum fljótt saman. Árin í
Réttó og Verzló tóku við með
öllum þeim ævintýrum sem
fylgdu. Hún tveimur mánuðum
eldri en ég og minnti mig reglu-
lega á það. Þegar hún fékk bíl-
prófið, flugprófin og allar gráð-
urnar sem hún bætti á sig þá
veit ég ekki hvor var stoltari ég
eða hún. Ég fékk að vera hennar
fyrsti farþegi sem hún mátti
fljúga með. Okkur fannst frelsið
og lífið vera okkar þegar við
nutum fegurðar landsins úr há-
loftunum. Við höfðum litlar
áhyggjur af foreldrum okkar
sem voru vægast sagt stressuð
yfir vinkonunum sem flugu yfir
landið sem þær rötuðu ekki um
á bíl. Við sigruðum þennan
hjalla og svo marga aðra. Þann-
ig var það einmitt með alla sigr-
ana. Við áttum þá saman og
glöddumst yfir þeim saman.
Raggý naut þess að deila
áföngum lífsins með öðrum og
var boðin og búin að hjálpa. Hún
var gjafmild og ætíð búin að
kaupa vel valdar gjafir með
löngum fyrirvara. Börnin mín
kölluðu hana stundum jóla-
sveininn því þegar hún mætti
var hún iðulega með poka á bak-
inu fullan af spennandi varningi
frá útlöndum.
Hún var alltaf að gleðja aðra
en vænti einskis í staðinn.
Stundum gaf hún of mikið af sér
og gleymdi að hugsa um sjálfa
sig. Gekk of nærri sér í því að
þjóna öðrum og gleðja aðra. Sól-
in skein ekki alltaf jafn skært
hjá vinkonu minni en alltaf birti
til og gleðin, gæskan og góðvild-
in sem einkenndi hana alla tíð
geislaði af henni.
Mikil var hamingjan þegar
von var á litlum gullmola í heim-
inn og ljóst að stærsta óskin
hennar, um að verða móðir, var
að rætast. Alexander Berg, litli
gleðigjafinn og guðsonur minn,
fæddist og gleðin varð okkar
allra. Sirrý og Guðjón gengu inn
í nýtt hlutverk og stóðu þétt við
hlið þeirra beggja. Þessi litli sól-
Ragnheiður
Guðjónsdóttir