Fréttatíminn - 18.12.2015, Blaðsíða 44
É g ólst upp bæði við mikla fjölmenningu og mikla tónlist,“ segir Margrét Pálsdóttir, kórstjóri og málfræðingur, sem stofnaði í fyrravetur kór fisk-vinnslufólks í Grindavík en í honum eru Pólverjar,
Íslendingar, Taílendingar og Serbar.
„Til tíu ára aldurs bjó ég í Keflavík og þar var auðvitað
Kaninn og ein besta vinkona mín var bandarísk svo ég
vandist enskunni snemma. Sem ung stúlka söng ég mikið
og fannst gaman að koma fram og syngja fyrir aðra. Ég man
vel þegar ég söng í fyrsta skipti opinberlega einsöng fyrir
fullu húsi þegar ég var sjö ára, á skólaskemmtun í Kross-
inum í Njarðvík,“ segir Margrét sem flutti tíu ára gömul til
Grindavíkur. „Í Grindavík bjuggum við í verbúð þar sem
með okkur bjó fólk frá Færeyjum, Grænlandi, Englandi
og Júgóslavíu. Þarna bjuggum við öll saman og ég heill-
aðist fljótlega af færeysku því mér fannst hún svo ægilega
skemmtileg og þarna lærði ég líka mín fyrstu orð í
júgóslavnesku.“
Aldrei verið hrædd við nýjungar
„Pabbi var sjómaður og hann fór í langar siglingar
en kom oft heim með þýskar plötur sem varð til þess
að ég heillaðist algjörlega af þýskunni og ákvað
snemma að ég skyldi fara í nám til Þýskalands
beint eftir stúdenstpróf,“ segir Margrét en örlögin
höguðu því þannig að Þýskalandsförin beið síðari
tíma. „Ég fór á sjóinn beint eftir Menntaskólann
i Reykjavík, var háseti á þorskanetum og kokkur
á síld, og missti af innrituninni í kennaraháskóla í
Heidelberg. En það varð til þess að ég sá auglýsta stöðu í
litlum sveitaskóla austur í Flóa, sótti um og fékk starfið svo
þannig byrjaði ég að kenna,“ segir Margrét sem kenndi þar
hin ýmsu fög auk þess að byrja að kenna söng í fyrsta sinn.
„Mér finnst ægilega gaman að takast á við ný verkefni og
hef aldrei verið haldin þörf fyrir að gera hlutina þannig að
þeir séu fullkomnir. Það hefur aldrei neitt stoppað mig í að
prófa nýja hluti og sumir myndu segja að það væri galli en
þannig er ég bara. Ég settist bara við píanóið og spilaði og
söng og krakkarnir sungu með.“
Draumurinn um Þýskaland varð að veruleika
Eftir kennsluna fyrir austan fór Margrét í Kennaraháskól-
ann þaðan sem leið hennar lá í málvísindadeild Háskóla
Íslands. Eftir útskrift kenndi hún svo framsögn í Leiklistar-
skólanum. „Þarna var ég að kenna og nota tungumálið auk
þess að vera umkringd leiklist og skemmtilegu fólki. Ég
naut mín mjög vel en eftir sjö ár fannst mér þeim kafla vera
lokið. Ég var farin að vinna mikið sjálfstætt við framsagnar-
kennslu fyrir ýmsar stofnanir,“ segir Margrét sem var þó
ekki lengi að finna sér nýtt starf sem fullnægði ástríðu
hennar fyrir tungumálinu, sem málfarsráðunautur Ríkisút-
varpsins.
„Ég var komin í fullt starf hjá Ríkisútvarpinu og leið mjög
vel þar þegar ég sá auglýst starf íslenskukennara við nor-
rænu deildina við háskólann í Kiel. Ég fékk hjartslátt þegar
ég sá auglýsinguna því mig hafði alltaf dreymt um að fara til
Þýskalands og ég gat ekki annað en sótt um. Það var erfitt
að taka þessa ákvörðun en ég ákvað að láta ævintýraþörfina
ráða og hef aldrei séð eftir því. Ég var nýfráskilin á þessum
tíma með sex ára gamla dóttur en barnsfaðir minn studdi
mig í þessari ákvörðun því hann vissi að það hafði verið
draumur minn frá því ég var stelpa að flytja til Þýskalands.
Þegar til Kielar var komið fékk ég alveg frjálsar hendur við
kennsluna og ákvað að sjálfsögðu að nota tónlistina. Þetta
var alveg yndislegt og þarna sá ég svo vel hvað tónlist hent-
ar vel til að kenna tungumál,“ segir Margrét sem stofnaði að
sjálfsögðu kór íslenskunema í háskólanum. „Það fór að
sogast að mér hópur fólks sem hafði áhuga á tónlist
eða var jafnvel menntað í tónlist og fyrr en varði
var kominn fjórradda kór. Við gerðum ýmis-
legt saman, ferðuðumst til Íslands og sungum
og komum líka fram í þýska sjónvarpinu, það
fannst okkur mikill heiður.“
Tón-
list og
tungumál sam-
einar okkur
„Þegar ég flutti aftur heim
tímdi ég ekki að fara aftur
í fasta vinnu,“ segir Mar-
grét sem flutti heim árið
2003 eftir fimm ára dvöl í
Kiel. „Mig langaði bara til
að vera alveg frjáls og hef
verið með framsagnarnám-
skeið og unnið við þýðingar.
Og svo dreif ég mig loksins í söngnám og byrjaði líka sjálf
í kór.“ Það var svo í fyrravetur sem Vísir í Grindavík bað
Margréti um að leiða samsöng á jólahlaðborði og það varð
til þess að kór fiskvinnslufólks í Grindavík, Vísiskórinn, var
stofnaður.
„Ég mætti á kaffistofuna og náði að plata eitthvað af fólki
á æfingu. Í upphafi voru þetta Pólverjar og Íslendingar en
svo bættust við Taílendingar og Serbar. Pólverjarnir kenndu
okkur pólsk jólalög og við kenndum þeim þau íslensku. Svo
komumst við að því að mörg jólalög eru þekkt víða um heim
og við þau eru til textar á ýmsum tungumálum og því fannst
okkur við í rauninni eiga þau saman. Við enduðum svo á því
að syngja fimm jólalög á þessu hlaðborði, á pólsku, íslensku,
serbnesku og taílensku. Mér fannst svo yndislegt að sjá
þarna verkstjóra og undirmenn, sem töluðu hver sitt tungu-
málið, og skildu illa hverjir aðra, sameinast þarna í söng.
Það að læra nokkur orð úr tungumáli annarra auðveldar
samskipti og bara það að heyra einhvern sem kann ekki ís-
lensku segja góðan dag, takk eða halló, lætur okkur líða vel.
Við eigum að bera þá virðingu fyrir því fólki sem býr með
okkur að læra nokkur orð í tungumáli þess. Þannig sýn-
um við að við erum öll eins,“ segir Margrét sem hefur
eytt hálfri ævinni í að nema og kenna bæði tónlist og
tungumál. „Tónlist og tungumál eiga það sameigin-
legt að tengja okkur saman og það sést svo vel í
gegnum bæði tónlist og tungumál hvað við
eigum margt sameiginlegt. Við eigum
að vera duglegri við að rækta það.“
Halla Harðardóttir
halla@frettatiminn.is
Stofnaði
kór fisk-
vinnslufólks
í Grindavík
Margréti Pálsdóttur, kórstjóra, söngkonu og mál-
fræðingi, er margt til lista lagt. Hún ólst upp í verbúð
í Grindavík umkringd fjölda tungumála, hefur stundað
sjóinn, kennt söng í sveit, stofnaði kór í Kiel og
verið málfarsráðunautur RÚV, svo nokkuð sé nefnt.
Í fyrravetur stofnaði hún fjölþjóðlegan kór fisk-
vinnslufólks í Grindavík til að rækta það sem helst tengir
okkur mannfólkið saman, tónlistina og tungumálið.
Í Vísiskórnum frá Grindavík syngja Íslendingar, Pólverjar, Serbar og
Taílendingar saman lög frá hinum ýmsu löndum undir stjórn Margrétar.
Margrét Pálsdóttir segist ekki vera hrædd við nýj-
ungar. „Ég fór á sjóinn beint eftir Menntaskólann
i Reykjavík, var háseti á þorskanetum og kokkur
á síld, og missti af innrituninni í kennaraháskóla í
Heidelberg. En það varð til þess að ég sá auglýsta
stöðu í litlum sveitaskóla austur í Flóa, sótti um og
fékk starfið svo þannig byrjaði ég að kenna.“
44 viðtal Helgin 18.-20. desember 2015