Dagblaðið Vísir - DV - 30.12.2016, Blaðsíða 85
Áramótablað 30. desember 201666 Íþróttaannáll
Þegar draumarnir rættust
n EM í Frakklandi stendur upp úr
n Stelpurnar slá í gegn í golfi og
sundi n Íslenskir þjálfarar sigursælir
Ísland komið á knattspyrnukortið Eftir gott jafntefli við Portúgal í fyrsta leik, þar sem Crist-
iano Ronaldo gerði lítið úr íslenska liðinu eftir leikinn, biðu Ungverjar liðsins í leik tvö. Þeim leik lyktaði einnig með jafntefli en að þessu sinni
voru vonbrigðin okkar megin. Þriðji og síðasti leikurinn í riðlinum var gegn Austurríki og þar var Arnór Ingvi Traustason hetjan. Hann tryggði
Íslandi sæti í 16-liða úrslitum á EM í knattspyrnu – með dramatísku marki á lokasekúndu leiksins. Fyrir vikið varð andstæðingurinn í 16-liða
úrslitum England; Wayne Rooney og félagar. Mótið var þegar orðið að stóru ævintýri. Eftir martraðarkennda byrjun, þar sem Rooney skoraði
úr vítaspyrnu fyrir England, svöruðu strákarnir fyrir sig með tveimur mörkum á skömmum tíma. Englendingar vissu vart sitt rjúkandi ráð og eru
enn þann dag í dag klórandi sér í kollinum yfir því hvernig þetta gat gerst. Strákarnir okkar unnu hug og hjörtu knattspyrnuáhugamanna um
allan heim og íslenskir stuðningsmenn, sem fylktu liði til Frakklands, unnu alla á sitt band. Engu skipti þótt liðið tapaði illa gegn heimamönn-
um í 8 liða úrslitum því frammistaða þeirra – EM 2016 – mun lifa með þjóðinni um ókomin ár. Ísland er komið á knattspyrnukortið.
Sunddrottning í stuði Hrafnhildur Lúthersdóttir vann til
þrennra verðlauna á Evrópumótinu í 50 metra laug sem fram fór London í maí. Hún vann
tvö silfur og eitt brons. Hún vann silfurverðlaun í 50 og 100 metra bringusundi og brons í
200 metra sundi. Hún varð fyrsta íslenska konan til að vinna til verðlauna á stórmóti í 50
metra laug. Hrafnhildur keppti á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst en hafnaði í 6. sæti í 100
metra bringusundi. Þá komst Eygló Ósk Gústafsdóttir í úrslitasundið í 200 metra baksundi
á Ólympíuleikunum í Ríó.
Ný þjóðhetja Íslendingar eignuðust nýja þjóðhetju rétt fyrir jól þegar
kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir varð önnur konan í íslenskri golfsögu til að tryggja
sér fullan keppnisrétt á Evrópumótaröð kvenna. Og það á fyrsta ári sínu sem atvinnu-
maður. Hún komst í gegnum öll þrjú stig úrtökumótsins og hafnaði í öðru sæti á lokaúr-
tökumótinu en 20 efstu tryggðu sér keppnisrétt á LPGA á næsta tímabili sem hefst í janúar
á Bahamaeyjum. Þá tryggði Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr GL, sér þátttökurétt
á sterkustu mótaröð Evrópu, LET-mótaröðinni, þegar hún endaði í öðru sæti á lokaúr-
tökumóti sem fram fór í Marokkó.
Stelpurnar á fullu
gasi Stelpurnar okkar gefa strákun-
um ekkert eftir og tryggðu sér í september
þátttökurétt á Evrópumótinu í knattspyrnu
sem fram fer í Hollandi 2017. Þetta er þriðja
skiptið í röð sem stelpurnar komast á EM.
Tap Íslands í lokaleiknum gegn Skotlandi, á
Laugardalsvelli þann 20. september, breytti
engu þar um en liðið hafði fram að því ekki
fengið á sig mark í keppninni. Toppsætið var
tryggt og Ísland leikur í riðli með Frakklandi,
Sviss og Austurríki næsta sumar.
Reynsluboltarnir
kvöddu Það gekk á ýmsu hjá
handboltalandsliði karla á árinu. Liðið fór
í janúar á sitt síðasta stórmót undir stjórn
Arons Kristjánssonar og byrjaði á sigri gegn
Norðmönnum. Grátlegu tapi gegn Hvít-
Rússum var fylgt eftir með arfaslökum leik
gegn Króötum. Staðan var 19-10 í hálfleik og
Ísland hafnaði í 13. sæti á EM. Geir Sveinsson
tók við af Aroni og strákarnir mættu
Portúgal í umspili um sæti á HM í Frakklandi
2017. Eftir æsispennandi einvígi í júní hafði
Ísland betur. Það sem upp úr stendur er að
2016 er árið sem reynsluboltarnir hættu í
landsliðinu. Alexander Petersson, Róbert
Gunnarsson og Snorri Steinn Guðjónsson,
sem dregið hafa vagninn í sóknarleik
landsliðsins um árabil, kvöddu allir sem einn
í haust. Nýir tímar taka við og maður kemur í
manns stað – við höfum alltaf Guðjón Val.
Aftur á EM Ísland tryggði sér
þátttökurétt í lokakeppni Evrópumóts karla
í körfubolta, þegar liðið vann Belgíu í síð-
ustu umferð undankeppninnar sem fram fór
í Laugardalshöll þann 18. september. Strák-
unum, sem tóku þátt í sínu fyrsta stórmóti í
körfubolta í fyrra, tókst þannig að komast í
lokakeppnina tvö ár í röð. Þetta tókst liðinu
þrátt fyrir að besti leikmaður Íslands um
árabil, Jón Arnór Stefánsson, hafi glímt við
meiðsli meira og minna alla undankeppn-
ina. Ungir leikmenn á borð við Hauk Helga
Pálsson og Martin Hermannsson stigu upp
og skiluðu mikilvægu framlagi. Þeirra er
framtíðin.
Gullsleginn Þórir
Annar íslenskur handknattleiksþjálfari
minnti á sig undir lok árs, Þórir Hergeirs-
son, þegar hann stýrði norsku stúlkunum
til sigurs á EM í handbolta kvenna. Þetta
voru sjöttu gullverðlaun Þóris sem þjálfari
Noregs á stórmótum í handbolta.
Efnispiltar í
körfunni Íslenska drengja-
landsliðið í körfubolta, skipað leikmönn-
um 18 ára og yngri, varð Norðurlanda-
meistari í körfubolta í sumar eftir öruggan
sigur á Finnum í úrslitaleik, 101-72.
Íslenskur ólympíumeistari Guðmundur Guðmundsson
varð ólympíumeistari í handknattleik þegar hann stýrði liði sínu, Dönum, til gullverðlauna í
Ríó. Guðmundur mátti þola býsna mikla gagnrýni á tíma sínum með liðið og eftir mótið kom
í ljós að Ulrik Wilbek, fyrrverandi landsliðsþjálfari og starfsmaður danska sambandsins,
hafði reynt að grafa undan Guðmundi þegar mótið stóð sem hæst. Guðmundur mun stýra
Dönum á sínu síðasta stórmóti í janúar en framhaldið er óráðið.
Snilli Dags Dagur Sigurðsson gerði Þjóðverja óvænt að Evrópumeisturum
í handbolta í byrjun árs. Dagur sýndi hvað eftir annað snilli sína á mótinu, en mikil meiðsli
hrjáðu þýska liðið. Dagur hitti Angelu Merkel og vakti almennt mikla athygli fyrir afrek
sitt. Dagur stýrði liðinu til bronsverðlauna á Ólympíuleikunum í Ríó en kom svo öllum að
óvörum þegar hann tilkynnti að hann myndi í sumar taka við japanska landsliðinu.
Kraftar í kögglum Kraftlyftingamenn áttu gott ár. Þannig varð
Fanney Hauksdóttir úr Gróttu heimsmeistari í klassískri bekkpressu en hún lyfti 105 kílóum
í -63 kílógramma flokki. Þá varð Júlían J. K. Jóhannsson tvöfaldur heimsmeistari unglinga í
kraftlyftingum, í +120 kílógramma flokki.