Morgunblaðið - 21.06.2018, Blaðsíða 20
20 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 21. JÚNÍ 2018
BAKSVIÐ
Helgi Bjarnason
helgi@mbl.is
„Kæra á þessum tímapunkti hefur nú
þegar haft miklar fjárhagslegar af-
leiðingar fyrir HS Orku og sett allt
verkefnið í hættu. Verkefni sem mun
bæta orkuöryggi á svæðinu og efla ör-
yggisviðbúnað á Suðurlandi og há-
lendinu. Verkefni sem sátt hefur verið
um í sveitarstjórn, meðal landeigenda
og hafði farið án mikilla athugasemda
í gegnum umhverfismat og skipulags-
ferli,“ segir Ásgeir Margeirsson, for-
stjóri HS Orku, um stöðu áforma um
Brúarvirkjun í efrihluta Tungufljóts.
Fyrirtækið hefur í mörg ár undir-
búið Brúarvirkjun í Biskupstungum
en hún á að verða 9,9 MW rennslis-
virkjun. Hefur félagið átt um það gott
samstarf við landeigendur sem eru
Skógrækt ríkisins vegna jarðarinnar
Haukadals og bændur á bænum Brú.
Samið um mótvægisaðgerðir
Vegna þess að virkjunin er undir 10
MW afli þarf hún ekki að fara í um-
hverfismat. HS Orka ákvað eigi að
síður í upphafi að fara þá leið, í þeim
tilgangi að vanda til verka við und-
irbúning, opna aðkomu fyrir alla
hagsmunaaðila og bregðast við þeim
athugasemdum sem fram gætu kom-
ið.
Niðurstaða umhverfismats var sú
að framkvæmdin myndi hafa talsvert
neikvæð áhrif vegna þess að eyða
þurfi birkiskógi á um fjórum hektur-
um lands og raska votlendi. Einnig
voru talsvert neikvæð áhrif á ásýnd
frá frístundabyggð á bökkum Tungu-
fljóts.
HS Orka brást strax við þeim atrið-
um sem hægt var. Samdi við Skóg-
ræktina um að rækta birkiskóg í stað-
inn fyrir trén sem þurfa að víkja og
um að endurheimta votlendi. Þá var
samið við Náttúrufræðistofnun um
vöktun á straumöndum.
Fyrsta skóflustungan tekin
Umhverfismat og skipulagsferli
hefur tekið langan tíma og var kynnt
opinberlega á ýmsum stigum en eng-
ar efnislegar athugasemdir komu
fram. HS Orka hefur því undirbúið
framkvæmdir í góðri trú og aflað
allra nauðsynlegra leyfa. Meðal ann-
ars hefur Orkustofnun gefið út virkj-
analeyfi og Heilbrigðiseftirlit Suður-
lands starfsleyfi.
Síðasta leyfið er framkvæmdaleyfi
sem sveitarfélagið Bláskógabyggð
gefur út. Fyrirtækið fékk leyfi fyrir
undirbúningsframkvæmdum
snemma vors á síðasta ári, án athuga-
semda, og er þeim framkvæmdum
lokið að mestu. Ásgeir segir að þar
sem ekki voru gerðar athugasemdir
við framkvæmdaleyfi undirbúnings-
framkvæmda hafi HS Orka metið
stöðuna þannig að almenn sátt væri
um framkvæmdina og hóf útboðsferli
innkaupa og mannvirkjagerðar.
HS Orka sótti um leyfi til fram-
kvæmda í byrjun september og sam-
þykkti sveitarstjórn það í október.
Kayakklúbburinn og Landvernd og
Náttúruverndarsamtök Suðurlands
sameiginlega kærðu útgáfu leyfisins.
Sveitarstjórn ákvað þá að afturkalla
leyfið, bæta úr þeim ágöllum í máls-
meðferð sem bent var á, og gaf leyfið
út að nýju í byrjun febrúar síðastlið-
ins. Úrskurðarnefnd umhverfis- og
auðlindamála vísaði frá kærum á
fyrra framkvæmdaleyfið þar sem það
hafði verið afturkallað.
Þegar seinna leyfið hafði verið gef-
ið út hófust framkvæmdir með því að
Sigurður Ingi Jóhannsson, sam-
göngu- og sveitarstjórnarráðherra,
tók fyrstu skóflustungu að byggingu
virkjunarinnar. Frétt um þann at-
burð í Morgunblaðinu varð til þess að
Landvernd og Náttúruverndarsam-
tök Suðurlands kærðu sameiginlega
útgáfu seinna framkvæmdaleyfisins
og kröfðust þess jafnframt að fram-
kvæmdir yrðu stöðvaðar.
Sakna rannsókna
Samtökin krefjast ógildingar fram-
kvæmdaleyfisins, meðal annars
vegna þess að ekki hafi verið sýnt
fram á að brýnir almannahagsmunir
krefjist framkvæmdarinnar, eins og
þurfi að gera þegar náttúruminjum
sem njóta verndar, eins og birkiskóg-
um og votlendi, er eytt. Þá telja sam-
tökin að Bláskógabyggð hafi brotið
rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar
með því að fullnægja ekki rannsókn-
arskyldu á mögulegum áhrifum fram-
kvæmdarinnar á eitt helsta vatnsból
sveitarfélagsins. Telja þau að jarð-
fræðirannsóknir séu afar takmarkað-
ar, meðal annars um hugsanleg áhrif
á grunnvatnskerfi Geysissvæðisins.
Þá telja þau framkvæmdina vera í al-
gerrri andstöðu við ákvæði gjafabréfs
Kristian Kirk sem ánafnaði Skóg-
rækt ríkisins jörðina Haukadal til
friðunar og skógræktar. Óleyfilegt sé
að eyða fimm hekturum af birkiskógi
þar.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og
auðlindamála taldi ekki ástæðu til að
stöðva framkvæmdir en efnisatriði
kærunnar eru enn til umfjöllunar hjá
nefndinni.
Það kemur Ásgeiri Margeirssyni
spánskt fyrir sjónir að náttúruvernd-
arsamtökin færi það fram sem rök
fyrir kröfu um stöðvun framkvæmda
að það hefði komið þeim á óvart að
framkvæmdir væru hafnar. Bendir á
í því sambandi að samtökin hafi kært
fyrra framkvæmdaleyfið nokkrum
vikum fyrr og útboð framkvæmd-
anna hefðu verið auglýst opinberlega.
Landvernd hafi einnig vitað um um-
hverfismatið en kosið að tjá sig ekki
um það.
Þá telur hann að þau rök fyrir
ógildingu framkvæmdaleyfisins að
rannsóknir skorti bendi til að kær-
endur hafi ekki kynnt sér þann fjölda
rannsókna og gagna frá ótal sérfræð-
ingum sem liggi til grundvallar út-
gáfu framkvæmdaleyfisins. Öll gögn
málsins séu aðgengileg. „Erfitt er að
meta hvað liggur að baki þessari
kæru en fagmennska er ekki fyrsta
orðið sem kemur upp í hugann,“ segir
Ásgeir.
Gegn grunnsjónarmiðum
Ásgeir telur að þetta ferli og al-
menn umgjörð framkvæmda sé um-
hugsunarefni. „Það er undarlegt að
hægt sé að kæra framkvæmd með til-
heyrandi kostnaði fyrir fram-
kvæmdaraðila, án haldbærs rök-
stuðnings. Ekki virðist heldur vera
gerð sú lágmarkskrafa til kærenda að
þeir kynni sér fyrirliggjandi gögn
sem unnin hafa verið á undirbúnings-
tímanum. Langt og ítarlegt ferli er í
skipulagslögum og lögum um mat á
umhverfisáhrifum framkvæmda til
að hagsmunaaðilar geti komið með
athugasemdir á undirbúningstíman-
um. Sú aðferð að hreyfa ekki neinum
andmælum á kynningarstigi gefur til
kynna að viðkomandi aðilar séu sam-
þykkir ferlinu eða framkvæmdunum.
Það að koma með kærur á lokastigi
mats- og skipulagsferlis, fram-
kvæmdaleyfið, gengur gegn grunn-
sjónarmiðum um kynningu og sam-
ráð sem lögin byggjast á,“ segir
Ásgeir og telur ljóst að þessu fyrir-
komulagi þurfi að breyta.
HS Orka hefur haldið áfram und-
irbúningi. Framkvæmdaleyfi er í
fullu gildi svo og önnur leyfi sem þarf
til verksins. Fyrirtækið skoðar nú
hvort framkvæmdum skuli haldið
áfram þótt um það ríki fjárhagsleg
óvissa vegna kærunnar.
Kærur á lokastigi valda usla
Kærur vegna framkvæmdaleyfis sveitarfélagsins valda töfum á Brúarvirkjun þótt öll leyfi séu í höfn
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, segir að ferill málsins sýni að breyta þurfi fyrirkomulaginu
Tungufljót Brúarvirkjun er tiltölulega lítil rennslisvirkjun í efri hluta Tungufljóts í Biskupstungum, á milli jarðanna Haukadals og Brúar. Rafmagnið verð-
ur leitt í Reykholt og getur því nýst garðyrkjubændum og öðrum stórnotendum á svæðinu. Það er talið auka afhendingaröryggi raforku á svæðinu.
Framkvæmdir Sigurður Ingi Jóhannsson ráðherra tók fyrstu skóflustung-
una. Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, kynnir verkefnið.
Ármúla 24 - s. 585 2800
ÚRVAL ÚTILJÓSA