Skírnir - 01.04.2008, Blaðsíða 4
Frá rit stjór a
Fyrir nokkrum árum var varla um annað meira rætt í íslenskum listheimi
en „stóra málverkafölsunarmálið“. Það kom mörgum á óvart þegar sak -
borningar voru sýknaðir í Hæstarétti og eflaust hafa sumir spurt sig hvort
rannsóknum á fölsununum hafi verið ábótavant. Þeir sem einna mest
unnu að þeim, Viktor Smári Sæmundsson forvörður og Sigurður Jakobs -
son efna fræðingur, gera nú — í fyrsta sinn á prenti — grein fyrir að -
ferðum sínum og niðurstöðum hér í Skírni. Af því tilefni birtir Skírnir
fyrir sitt leyti í fyrsta sinn litörk, svo lesendur geti betur glöggvað sig á
skýringar mynd unum.
Auk þess má finna í Skírni hugleiðingu Páls Skúlasonar um menningu
og markað sem sýnist tímabær nú þegar hin taumlausa markaðshyggja,
sem Páll kallar svo, er að láta undan síga. Í þessu hefti er líka margvíslegt
bókmenntaefni: Í ár eru liðin 100 ár frá fæðingu Steins Steinarr, og fimm -
tíu ár frá andláti hans. Kristín Þórarinsdóttir skrifar ítarlega um Tímann
og vatnið og byggir m.a. á óbirtu efni úr fórum frænku sinnar og ekkju
Steins, Ásthildar Björnsdóttur. Jón Karl Helgason birtir ritgerð um Viki -
vaka, sérstæðasta verk Gunnars Gunnarssonar, og Ásta Kristín Bene -
diktsdóttir skrifar um Dægurvísu Jakobínu Sigurðardóttur út frá kenn -
ingum hugrænnar bókmenntafræði. Í ritröð Skírnis, þar sem skáld skrifa
um skáld, ritar Sigurður A. Magnússon um Níkos Kazantzakis. Gunnar
Karlsson blandar sér í umræðu um póstmódernisma með greininni
„Sagnfræði og sannleikur“, og Gísli Sigurðsson skrifar hugleiðingu um
samband ritunar og munnlegrar hefðar út frá sögunni um Guðmund ríka.
Í Skírnismálum má lesa andsvar Stefáns Snævarr við grein Jóns
Sigurðssonar í síðasta hefti um hnattvæðinguna og að beiðni ritstjóra
skrifa Auðunn Arnórsson og Jóhanna Kristjónsdóttir hvort sína hugleið -
inguna um Ísland og íslam, í tilefni af útgáfu nýrra bóka. Bókmennta -
þáttur Skírnis er helgaður Matthíasi Johannessen sem birtir þar fimm ný
ljóð, en ritdóma skrifa þau Einar Már Jónsson, um nýja útgáfu Sverris
sögu, og Beth Kephart, um Aldingarð Ólafs Jóhanns Ólafssonar.
Myndlistarmaður Skírnis er Hreinn Friðfinnsson, sem Eva Heisler
skrifar um, og hann er einnig höfundur kápumyndarinnar.
Góða skemmt un!
Halldór Guðmundsson