Skírnir - 01.09.2003, Blaðsíða 117
SKÍRNIR
BÓKMENNTIR í LÍFSHÁSKA
343
stundir urðu svör skálda og bókmenntamanna í Rússlandi æ meir
á þann veg að bókmenntir væru einmitt til þess kjörnar að bæta
heiminn og rithöíundum ætlað einkum það hlutverk í tilverunni
að „kenna mönnum að lifa“.5
Sú þróun tengist sérstöðu rússneskra menntamanna. I Rúss-
landi einvaldra keisara, ritskoðunar og ánauðugra bænda kemur
upp sterk krafa á hendur þeim sem búa yfir afli þekkingarinnar
um að þeir taki að sér að bæta heiminn, enda varla öðrum til að
dreifa. Orðið intelligentsia var í rússneskri menningu ekki bundið
við þá eina sem höfðu hlotið æðri menntun. Sá fékk nafnbótina
menntamaður, intelligent, sem sá út fyrir þrönga sérhagsmuni
sjálfs sín og eigin hóps, og hafði því meiri áhyggjur af almanna-
heill, af velferð alls samfélagsins. Um leið var gerð til hans sú krafa
að hann væri reiðubúinn til að leggja margt á sig, fórna eigin hag,
til að flýta fyrir fögru mannlífi og réttlátu. Menntamennirnir
gerðu svo fagurbókmenntirnar að sinni Biblíu: þeir tóku trú á
bókmenntir og listir sem tæki til að móta almenningsálit og koma
fögrum hugsjónum á framfæri við alþýðu. Bæði vegna þess að
óskhyggja þeirra sá í bókmenntum sterkt siðferðilegt afl og vegna
þess að í samfélagi sem bjó við mjög skert málfrelsi var einna helst
hægt að snúa á ritskoðunina með því að láta persónur í skáldskap
takast á um þær spurningar sem mest brunnu á mönnum.6 Um
1860 telja róttækir menn eins og Nikolaj Tsjernyshevskij að „okk-
ur Rússum eru bókmenntir gífurlega mikilvægar og þýðingar-
meiri en nokkurri annarri þjóð.“7 Og þessi literator, sem endaði
ævi sína í Síbiríu, stofnaði ekki leynilegan pólitískan flokk heldur
skrifaði skáldsögu um „nýjar manneskjur" sem gera að veruleika
hans eigin drauma um líf í sameign og jafnrétti kynjanna. Þessi
5 Orðalag Levs Tolstojs í lokaorðum frægrar greinar hans um Shakespeare frá
1903, „O Sheikspire i o drame".
6 Boris M. Paramonov, „Historical Culture", Dmitri N. Shalin, „Intellectual
Culture", Russian Culture at the Crossroads. Boulder, Colorado 1996, bls.
51-53; Richard Pipes, Rossija pri starom rezhime. Cambridge, Mass. 1981, bls.
334-337; „Púti-perepútja rússkoj intelligentsii", Svohodnoje slovo. Almanakh
1999. Moskvu 2000.
7 N. G. Tsjernyshevskij, Izbrannyje estetitsjeskije proizvedenija. Moskvu 1978,
bls. 174.