Skírnir - 01.09.2003, Page 126
352
ÁRNIBERGMANN
SKÍRNIR
þessi samúð hefði e.t.v. verið of mikil og skilmálalaus. Það hafði
nægt að rithöfundur lenti í banni eða útlegð, þá hlaut hann að vera
snillingur. Nú mátti gefa allt út og þá fannst mörgum sem þeir
hefðu miklað fyrir sér ágæti bæði merkra útlaga eins og
Solzhenytsins og heimamanna í Samizdat. I annan stað höfðu hin-
ir „mórölsku raunsæismenn" notið virðingar fyrir að segja margt
þarft, t.d. um illa meðferð á rússneskri náttúru og óforgengileika
siðrænna gilda. En nú, þegar af þeim voru allar hömlur, reyndust
ýmsir þeirra (t.d. Astafjev, Belov, Raspútin) ekki aðeins háðir
nokkuð fegraðri mynd af lífsháttum og viðhorfum rússnesks
bændafólks (eins og Tolstoj hafði verið öld fyrr). Trúin á fornar
rússneskar dyggðir gat hjá þeim snúist upp í heiftúðlega þjóð-
rembu með grimmri tortryggni í garð menntastétta og borgar-
menningar og furðulegu ístöðuleysi gagnvart kenningum um eilíft
samsæri „framandi afla“ - Vesturlanda, gyðinga, frímúrara og
fleiri, um að skaða Rússland og koma því á kné.25
Rithöfundar voru enn ekki komnir að því að gefa upp á bátinn
afskipti af stórmálum - og af málfrelsinu spratt að sjálfsögðu ekki
upp meðal þeirra samstaða einhvers konar heldur mögnuðust deil-
ur þeirra í milli sem áttu sér gamlar rætur: um framtíð Rússlands og
hina sérrússnesku leið í sögunni. Fyrst eftir hrun Sovétríkjanna
varð helst í tísku að apa allt eftir Vesturlöndum, en vegna þess hve
hrikaleg áhrif markaðsvæðing og einkavæðing höfðu á kjör al-
mennings risu fljótt og hátt raddir sem töldu það brýna nauðsyn að
hafna utanaðkomandi áhrifum og slá skjaldborg um allt sem rúss-
neskt var. En rithöfundar og aðrir menntamenn drógu hver annan
niður í þessum átökum vegna þess hve augljóst var að allar deilur
einkenndust af kredduofsa og eitruðu klíkuhatri og menn játuðu
hver af öðrum að það skorti siðaða umræðuhefð í landinu. Ekki
bættu úr skák grátbrosleg hneyksli sem risu af átökum um forystu
í rithöfundasamtökum, yfirráð yfir eignum þeirra sem og yfir
tímaritum og útgáfufyrirtækjum sem verið var að einkavæða.26
25 Rosalind Marsh, „The Death of Soviet Literature: Can Russian Literature
Survive?“, Europe-Asia Studies 45, 1, 1993, bls. 117-122; Brudny, bls. 199-204;
Svobodnoje slovo, bls. 4-55.
26 Marsh, bls. 125-128.