Skírnir - 01.09.2003, Blaðsíða 142
368
ÁRNI BERGMANN
SKÍRNIR
rétttrúnaðarkirkjunnar að virkum þætti í menningarbaráttunni,
eins og þetta dæmi sýnir: „Vestræn samtímaskáldsaga hvorki ber
fram né leysir mannleg vandamál... Grundvöllur hugmyndafræði
vestrænnar menningar er sá að sætta sig við allt sem gerist innan
samfélagsins, afneitun þjáningar og sektar og viðleitni til að koma
öllu sem er utan þessa samfélags undir sótthreinsaða staðla þess.
Þegar enginn finnur til lengur, enginn blygðast sín lengur, þá er
listin ekki annað en skemmtun, hvort sem um er að ræða fjölda-
menningu eða list fyrir útvalda".58
Einnig má minna á þá menn sem vona að rússneskar bók-
menntir geti haldið því pólitíska hlutverki að reka erindi þeirra
sem ekki samþykkja það sem valdhafar hafast að á hverjum tíma.
Andófið er réttlæting bókmenntanna, andófið hóf þær til vegs og
virðingar á seinni hluta Sovéttímans og getur tryggt stöðu þeirra
við nýjar aðstæður. „Ef bókmenntir sýna ekki markaðsöflunum
mótþróa þá hafa ekki einu sinni kapítalistar neitt við þær að
gera.“59 Slíkar raddir heyrast helst frá vinstri, en meðal þeirra sem
vilja nýta bókmenntir til pólitískra áhrifa má einnig finna höfunda
og gagnrýnendur sem sakna hins sovétrússneska risaveldis og láta
sig dreyma um endurreisn þess.60
En hvort sem þeir sem til máls taka hafa hugann við þjóð-
arstolt, menningararf, trúarleg viðhorf, pólitískar umbætur eða
stórveldisdrauma, eiga þeir sér samnefnara í þeirri von að rúss-
neskir menntamenn haldi tryggð við mikið og sérstætt hlutverk
sem sögulegar aðstæður hafa dæmt þá til, og að rithöfundar reyn-
ist þeim í verki forystusveit til góðra hluta.
Þeir rithöfundar og aðrir menntamenn sem vísa frá sér öllum
fortíðarsöknuði telja aftur á móti fráleitt að reyna að andæfa þró-
un sem þeir telja eðlilega, óumflýjanlega eða nauðsynlega. Þeir
leggja sig oft fram um að ögra andstæðingum sínum í umræðunni
58 Marija Remizova í Novyj mir 5, 2000, bls. 193.
59 Vinstrisinnaður félagsfræðingur, Boris Kaglaritskij, í bók sinni Restavratsija v
Rossii. Moskvu 2000, bls. 176.
60 T.d. Alexandr Prokhanov, skáldsagnahöfundur og ritstjóri Zavtra, málgagns
herskárra þjóðernissinna, og skáldið Edúard Limonov, fyrrum andófsmaður og
útlagi en nú einn af foringjum svonefndra Þjóðernissinnaðra bolsévika (NBP).