Morgunblaðið - 23.11.2018, Side 82

Morgunblaðið - 23.11.2018, Side 82
VIÐTAL Árni Matthíasson arnim@mbl.is Sextíu kíló af sólskini heitir ný skáldsaga Hallgríms Helgasonar sem kom út fyrir stuttu. Bók hefst undir lok nítjándu aldar og nær inn í þá tuttugustu, segir sögu hnokkans Gests Eilífssonar frá Stundarkoti í Segulfirði og um leið sögu íslensks samfélags, alþýðu- samfélags, sem stígur úr bölmóði og basli inn í nýjan heim þegar norskir síldarspekúlantar kenna landsmönnum að salta silfur hafsins. Tvær kveikjur að bókinni Segulfjörður er Siglufjörður, eða svo gott sem, enda segir Hallgrímur að bókin hafi kviknað í heimsókn í Síldarminjasafnið á Siglufirði árið 2012 þegar hann sá þar tvær ljósmyndir af Siglufjarðareyri: „Á annarri myndinni er nánast bara eitt hús og á hinni er stórborg. Það eru kannski þrír áratugir þarna á milli og ég fékk áhuga á því að reyna að fanga hvað gerðist þarna. Upphaflega hug- myndin var að skrifa um síldartímann, en í ferlinu uppgötvaði ég hákarlatímann og tók því ansi langt tilhlaup inn í síldartímann, þannig að síldin kom ekki fyrr en í lok bókar. Þetta kviknaði sem sagt 2012 og svo kvikn- aði þetta líka af frásögn sem ég heyrði fyrir tilviljun af kotbónda sem hét Höskuldur Jóns- son og bjó í Grundarkoti í Héðinsfirði. Sú frá- sögn var skráð af Bólu-Hjálmari um miðja nítjándu öld og upphafssenan í bókinni er komin þaðan. Það eru oft tvær kveikjur að bókum, tvær ídeur sem tvinnast saman, og þessar komu nánast í sömu vikunni. Um sumarið fór ég síðan með dóttur minni á Pæjumótið sem haldið var á Siglufirði. Það er náttúrlega aldrei hægt að fá gistingu þegar mót eru í gangi á landsbyggðinni svo ég neyddist til að taka með tjald sem ég hafði aldrei tjaldað. Þetta var hústjald frá tengdó, hræðilega flókið verkefni sem tók allan dag- inn. Um nóttina gerði síðan svakalegan storm, björgunarsveitin kom, tjaldið rifnaði og ég svaf bara í klukkutíma en dreymdi þá titilinn, vaknaði upp með hann í kollinum. Ég skildi hann ekki alveg, en mér fannst hann góður og reyndi að skilja hvað hann þýddi á meðan ég var að skrifa söguna. Ég held að lesendur geti mátað hann við ýmislegt í bókinni. Þessi tjöldun var því eins og einhver helgi- athöfn, eins og maður hefur heyrt um hjá ind- jánum og öðrum, að þeir taki sér mikinn tíma í að undirbúa ritúalið og fari svo inn í eittvert annarlegt ástand. Þessi tjöldun, verkefni sem tók alls tíu klukkutíma og fimmtán manns komu að, var því eins og undirbúningur að einhverri óræðri helgiathöfn. Síðan fór ég inn í tjaldið og kom út að morgni með titilinn. Þetta sýnir manni að stundum þarf að hafa fyrir hlutunum.“ Blanda af fornu og fersku máli – Málfarið á bókinni er nútímalegt en samt kryddað eldra orðfæri — lagðist þú í rann- sóknir? „Ég held að ég hafi lesið yfir tuttugu bæk- ur um þennan tíma: Í verum og Hákarlalegur og hákarlamenn eftir Theodór Friðriksson, endurminningar Björns Dúasonar og einnig Sæmundar Dúasonar, Virka daga eftir Guð- mund G. Hagalín, bók sem lýsir hákarlatím- anum, bækur Tryggva Emilssonar, endur- minningar Ólafar frá Hlöðum, Tvenna tíma Hólmfríðar Hjaltason, sögu Siglufjarðar, ævi- sögu séra Bjarna og minningar hans sjálfs, síldarbiblíu Birgis Sigurðssonar sem og ljúfa lýsingu Óla Tynes á fyrsta síldardeginum og margt, margt fleira. Það kemur orðfæri úr þessum bókum, orðaforði frá nítjándu öld og byrjun þeirrar tuttugustu. Þá þurfti ég líka að gera hlé á ritun bókarinnar til að þýða Óþelló, kannski hafa áhrif frá þeirri vinnu líka laum- að sér inn. Stundum var ég samt með of nú- tímaleg hugtök og kannaði þá á tímarit.is hvort tiltekið orð hefði verið notað fyrir 1904. En svo leyfi ég mér líka meðvituð frávik frá þessu, þannig að þetta er eins og þú segir blanda af fornu og fersku máli.“ – Maður hefur séð höfunda gera þetta, en svo er eins þeir gleymi sér af því það er svo gaman að leika sér í þessum texta þannig að það verður of mikið af honum. „Nákvæmlega. Allan fyrripart ársins „barði“ ég söguna því látlaust, eins og harð- fisk. Ég var þá að berja rembinginn úr bók- inni. En það er alltaf hættan, að fyrndur texti verði of rembingslegur, sjálfbirgingslegur: Sjáið nú hvað ég kann mikið af gömlum orð- um og get skrifað skemmtilegan stíl! Þetta verður þreytandi fyrir lesandann, þannig að frá 1. janúar og fram á vor vann ég hörðum höndum að því lesa bókina yfir og berja hel- vítis rembinginn úr stílnum. Bókin var nánast tilbúin í upphafi árs nema hvað enn var í henni þessi gorgeir. Það má nesta sig vel með lestri og maður getur sett sig í stellingar en svo verður maður líka að kasta því frá sér og muna að hér þarf fyrst og fremst að segja sögu. Þá þarf að fara dýpra, niður úr stílnum, ef svo má segja. Því hættan er alltaf sú að sagan verði yfirborðs- leg þegar fólk er með of stællegan stíl. Maður getur kannski líkt þessu við kvikmyndagerð; stundum sér maður búningadrama þar sem búið er að ná öllum búningunum hárrétt, en svo eru þeir bara alltof fínir, eins og beint af safninu; það sést svo vel að enginn hefur lifað í þessum búningum og þá þarf að berja þá til, láta fólk svitna í þeim. Finna lífið.“ Kinnaglóð í skemmuskugganum – Þegar fyrsti síldarskammturinn berst til Segulfjarðar og stúlkurnar eru kallaðar í sölt- unina lifna þær við: „… aldrei höfðu þessar stúlkur og vinnukonur verið jafn blómlegar og nú, þar sem þær kinnaglóðu í skemmu- skugganum, lúðusaddar og heitar af þreytu með glænýjar blöðrur í greipinni.“ „Sagan hefst í miklum karlaheimi, móðir og systir söguhetjunnar deyja á fyrstu síðunum, en svo koma konurnar sterkar inn eftir því sem líður á söguna. Og já, þetta var einhver vottur af frelsun fyrir íslenskar konur, held ég, þótt þær hafi fyrir vikið lent í svakalegri þrælavinnu. En allar gamlar síldarstúlkur tala um ævintýrið með glampa í augum, þetta var bara svo gaman. Í bókinni finnst þeim nánast fráleitt að fá borgað fyrir púlið. Þarna fundu íslenskar konur loksins til sín, allt í einu var borin virðing fyrir þeim, þær fengu borgað í akkorði, fyrir hverja tunnu, og þá skipti máli hversu góð þú varst: allt í einu varstu metin að verðleikum, það hlýtur að hafa verið ný tilfinning. Að lokum urðu þeir akþreyttu kvenfætur svo máttarstoðir efna- hagslífsins, undirstaðan í velmegunarvexti þjóðarinnar á síðustu öld.“ Vildi skrifa breiða þjóðarsögu – Hugmyndin kviknaði 2012 en hvenær byrjaðir þú svo á verkinu? „Þetta kraumaði í mér og ég dvaldi svo einn mánuð á Sigló árið 2014, bjó þar í Her- húsinu til að finna fyrir staðnum, og fór á hverjum morgni í kaffi á Síldarminjasafnið og heyrði þar sögur og fékk siglfirska mentalí- tetið í æð. Þar kemur saman örlítil akademía á hverjum morgni, með skáldið Pál Helgason í öndvegi, og þau Örlygur, Steinunn María og Aníta voru mér mjög hjálpleg allan ritunar- tímann og lásu svo yfir fyrir mig. Ég vildi hafa allt rétt. Þau leiðréttu til dæmis fjarð- aráttirnar, sem eru bara tvær: Út fjörð og fram í fjörð. Þá verður mjög söguleg breyting þegar ekki er lengur talað um „í Siglufirði“, heldur „á Siglufirði“. Þá er allt í einu komin drift, þú ert ekki lengur læstur ofan í keri og tómu basli, heldur er komin stassjón og þú ert kominn á annað stig. Munurinn er svip- aður og að vera í eða á vörubíl. Ég vildi skrifa breiða þjóðarsögu í gegnum þennan litla fjörð, segja Íslandssöguna í ein- um firði. Ég vildi sýna þróunina frá mjög erf- iðu lífi og yfir í upphaf síldarævintýrisins sem færir einhverja von inn í þetta staðnaða sam- félag og þá þurfti ég að byrja að lýsa því. Þannig uppgötva ég að Siglufjörður var það sem kallaðist „hákarlaþorp“. Hákarlinn var aðalatvinnugreinin áður en síldin kemur og þær veiðar voru einhver sú mesta vosbúð sem Íslendingum hefur verið boðið upp á. Þetta var í raun eins og styrjöld, fimmtíu prósent af skipunum fórust, mannfórnirnar voru gríðar- legar og kannski vaknaði þorp upp við það að þrjátíu menn voru farnir, og það engir smá- molar, því aðeins kröftugustu karlarnir dugðu á hákarlaskúturnar.“ Sannarlega margradda verk – Þú kemur hingað að hitta mig að morgni beint úr upplestri og varst að lesa upp í gær fram á kvöld. Hvernig horfir bókin við þér þegar þú ert að lesa upp úr henni og hvernig hafa viðtökurnar verið. „Ég er enn að kynnast bókinni, það tekur alltaf einhvern tíma, eftir útgáfu. Af þeim sökum vildi ég ekki lesa hljóðbókina strax, það tekur tímann að finna rétta rödd fyrir hverja persónu og þetta er sannarlega marg- radda verk. Hljóðbókin kemur vonandi á næsta ári. Viðtökurnar hafa verið vonum framar, þetta hófst eiginlega strax á forlaginu, þegar starfsmennirnir fóru að lesa þá gerðist eitt- hvað, þá fór einhver gleði í gang. Það var mikill léttir því ég var auðvitað farinn að stórefast um þetta allt saman. Útlendingar spyrja nú um hvað bókin sé, en ólíkt hinum bókunum þá hef ég átt erfitt með að sjóða þessa niður í góða „lyfturæðu“, kannski vegna þess að hún er svo víð í form- inu. Það eru margar hugmyndir í henni og hún er breið þótt fjörðurinn sé þröngur. Kannski er þetta meiri þjóðarsaga en ég hef verið með áður. Ég hef meira verið með ein- staklinga í forgrunni, fyrstu persónu frásagn- ir, en þessi bók er meira eins og breitt fljót sem flæðir fram, þannig að ég hef ekki ennþá náð að sjóða hana niður í þau frægu „25 words or less“. Nema ég láti bara fjögur duga: Íslandssagan í einum firði.“ Búinn að létta á bátnum – Mér finnst þetta þín besta bók og sama hafa ýmsir gagnrýnendur sagt. Eru sammála því? „Já, ég held ég geti alveg gengist við því. Mér finnst allavega eins og hér komi saman margir tónar, ólíkir hlutir sem ég hef prófað í hinum bókunum, allt frá pjúra kómík í Þetta er allt að koma, yfir í klassískari tón í Höf- undi Íslands, eða samtímareiðina í Roklandi, og jafnvel fantasían úr Herra alheimi sést þarna líka – allir þessir tónar koma saman í þessari bók, einhvern veginn gat ég leyft mér að nota þá alla. Svo var kannski einhver frels- un fylgjandi síðustu skáldsögu, Sjóveikur í München, þar sem ég tók sjálfan mig fyrir og afhjúpaði erfiða hluti í mínu lífi, lagði frá mér þrjátíu ára gamlan farangur. Mér leið því ansi vel þegar ég byrjaði á þessari bók. Ég var bú- inn að létta á bátnum og hann skreið vel fram. Það var í mér ný og létt tilfinning þegar ég hóf að kljást við kílóin.“ Íslandssagan í einum firði  Í nýrri skáldsögu segir Hallgrímur Helgason þjóðarsögu Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Þjóðarsaga Hallgrímur Helgason segir það hafa verið sér ný og létt tilfinning þegar hann hóf að kljást við sólskinskílóin. 82 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 23. NÓVEMBER 2018

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.