Skessuhorn - 23.11.2016, Blaðsíða 4
MIÐVIKUDAGUR 23. NÓVEMBER 20164
Haldið í heimahagana
Í tvennum skilningi get ég með góðri samvisku sagst vera í vímu. Fyrir það
fyrsta komu vaskir dúklagningarmenn á fimmtudaginn í skrifstofuhúsnæðið
sem Skessuhorn hefur til umráða og teppalögðu stigaganginn. Gerðu það
svona líka ljómandi vel þannig að nú er aðkoman að skrifstofunni allt önnur
og miklu snyrtilegri. Teppalögn af þessu tagi fylgi þó grimmsterkt og rok-
gjarnt tveggja þátta lím sem einkennt hefur andrúmsloftið liðna daga. Ég
er því gufuruglaðri en vanalega og myndu margir segja að ekki hefði verið
á bætandi. Hins vegar get ég með góðri samvisku sagt vera í vímu eftir að
hafa lesið um nokkra tugi af ungu og athafnasömu fólki sem rætt er við í
Aðventublaði Skessuhorns. Í aðdraganda þessa blaðs leituðum við sem fyrr
uppi fólk sem er að gera áhugaverða hluti í starfi eða leik. Sjálfum finnst
mér það hafa tekist prýðilega, allavega fylltist ég bjartsýni við lesturinn.
Af og til heyrir maður raddir á þá lund að eldra fólk hafi áhyggjur af
þeirri kynslóð sem er að taka við keflinu. Að næsta kynslóð sé illa að sér í
ýmsu sem þeim eldri þykir ekki einungis sjálfsagt heldur algjörlega nauð-
synlegt. Unga fólkið kunni ekki að meta matinn sem okkur þykir bestur,
hefur ekki smekk fyrir þeirri tónlist sem við unnum svo heitt eða tali eitt-
hvað öðruvísi en þeir eldri gera. Allt tel ég þetta byggt á misskilningi, jafn-
vel fordómum, en í besta falli á ótta við að við þeir eldri eru ekki að ná að
tileinka sér á sama hraða þær breytingar sem eru að verða á samfélaginu.
Ég held nefnilega að staðreyndin sé sú að ungt fólk er að meðaltali betur að
sér um fleira en við vorum á þeirra aldri. Ég gæti nefnt svo ótalmargt sem
dæmi. Ungt fólk er miklu hæfara en við í tungumálum og getur með tækni,
sem ekki var til þegar við uxum úr grasi, tileinkað sér þekkingu óháð landa-
mærum. Að vera talandi og skrifandi á ensku um tíu ára aldur var allavega
mjög fjarstæðukennt þegar ég var á þeim aldri. Þá var kannski byrjað að
kenna dönsku í tíu ára bekk og ensku tveimur árum síðar. Svo má rifja
það upp að unga fólkið í dag er af svokallaðri lyklabarnakynslóð og þurfti
snemma á lífsleiðinni að beita sjálfshjálp og jók því sjálfstæðið fyrr en hin-
ir eldri höfðu þurft.
Kynslóðin sem nú er á þeim aldri að vera í framhaldsnámi eða að hefja
gönguna á vinnumarkaðinum er sú fyrsta sem elst upp við opið Internet og
nútíma miðlun upplýsinga. Þetta er kynslóð sem veit betur en við hvað er
að gerast úti í hinum stóra heimi og stendur mikið til á sama um margt það
sem okkur fannst fyrir fáum áratugum skipta öllu máli. Það er ekki vegna
þess að unga fólkið er á nokkurn hátt ver gefið en þeir eldri, öðru nær. Lífs-
gildi þess og skoðanir mótast hins vegar af umhverfinu og tíðarandanum
og í þeirra tilfelli er umhverfið orðið svo miklu, miklu stærra. Unga fólkið
kann hins vegar alveg að meta það sem fyrir það er gert. Það leitast líkt og
eldri kynslóðir við að rækta það sem því finnst skynsamlegt.
Við sem búum á Vesturlandi eigum að vera stolt af því að unga fólkið okk-
ar er að sækjast eftir að leita á ný í heimahagana. Þótt það afli sér menntun-
ar annarsstaðar og hafi hlaupið af sér hornin úti í hinum stóra heimi, þá er
það að koma aftur. Það er gleðilegt ekki síst vegna þess að þá höfum við þau
eldri þrátt fyrir allt verið að gera eitthvað rétt. Um síðustu helgi hjálpaði
ég til dæmis ungri fjölskyldu að flytja aftur á heimahagana og er stoltur af
því að þau tóku þá ákvörðun. Auðvitað er miklu betra að búa hérna! Þá get
ég nefnt sem dæmi að í blaðinu í dag er rætt við nokkra Lunddælinga sem
eru hluti hóps sem er að stuðla að gríðarlegri nýliðun íbúa í dalnum. Unga
fólkið kemur heim að námi loknu og ættliðaskipti eru að verða á meira en
öðrum hverjum bæ. Frábærar fréttir! Verum stolt af þessu og bjóðum unga
fólkið velkomið. Landshlutinn getur ekki fengið betri meðmæli en einmitt
þau að hingað vilji þeir flytja sem þekkja staðhættina og gæðin og vita því
að hverju þeir eru að ganga.
Magnús Magnússon.
Mikill hugur er í vestlenskum hesta-
mönnum fyrir komandi ár ef marka
má dagskrá sem þegar liggur fyrir.
Á næsta ári er fjórðungsmótsár og
stefnt á að halda mótið í Borgar-
nesi um mánaðamótin júní og júlí.
Þá er nú þegar búið að ákveða dag-
setningar fyrir fyrstu mót ársins, en
þau byrja í febrúar. Fyrstu mótin
verða í KB mótaröðinni og Meist-
aradeild Vesturlands. Í KB móta-
röðinni verður keppt 11. febrúar, 4.
mars og 1. apríl, en í Meistaradeild
Vesturlands verður keppt 3. febrú-
ar,17. febrúar, 3. mars, 17. mars og
31. mars. Sýning vestlenskra hesta-
manna verður svo í Reiðhöllinni
Faxaborg í Borgarnesi 29. apríl.
iss
Viðburðaríkt ár framundan hjá
vestlenskum hestamönnum
Gleðin við völd. Ljósm. iss.
Skólabíll fór útaf í hálku um nón-
bil síðastliðinn fimmtudag og mátti
engu muna að rútan ylti á hliðina,
eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi
mynd. Bílstjórinn var einn í bíln-
um þegar óhappið varð og komst
ómeiddur út. Hann var á leiðinni að
sækja börn í Heiðarskóla til heim-
keyrslu. Bíllinn er vel dekkjaður en
aðstæður á Leirársveitarvegi voru
slíkar að vegurinn var vart fær fyrir
hálku. Glæra svell var á milli kanta.
Þær aðstæður hafa að sögn íbúa í
sveitinni verið algengar á þessum
vegi á undanförnum árum og telja
ýmsir að bæta þurfi hálkuvörn á
honum ekki síst í ljósi staðsetningar
grunnskólans. mm
Skólabíll vóg salt á vegarbrún
Illugi Gunnarsson, mennta- og
menningarmálaráðherra veitti Sig-
urði Pálssyni rithöfundi Verðlaun
Jónasar Hallgrímssonar 2016 við
hátíðlega athöfn á degi íslenskrar
tungu. Þá veitti ráðherra Ævari vís-
indamanni, Ævari Þór Benedikts-
syni, sérstaka viðurkenningu. Ævar
Þór er landsþekktur fyrir hugsjóna-
starf í þágu barna og unglinga, t.d.
vísindaþætti í útvarpi og sjónvarpi og
lestrarátak í skólum. Þannig er hvatn-
ing til skapandi hugsunar og bóklest-
urs áberandi þáttur í starfi hans.
Í anda vísindaþáttanna eru vísinda-
bækur Ævars, t.d. Umhverfis Ísland
í 30 tilraunum, þar sem lesendurn-
ir sjálfir fá tilraunaverkefni í hend-
ur. „Lestrarátak Ævars er mikil-
væg hvatning til eflingar lesskilnings
grunnskólanemenda. Þennan þátt í
starfi hans má tengja útgefnum verk-
um hans sjálfs, t.d. bókunum Þín eig-
in þjóðsaga og Þín eigin goðsaga, þar
sem farnar eru óhefðbundnar leið-
ir til að efla sköpunargleði barna og
styrkja tilfinningu þeirra fyrir máli
og stíl. Það var samdóma álit nefnd-
arinnar að Ævar Þór Benediktsson
hafi unnið afar mikilvægt starf í þágu
móðurmálsins og skapandi hugsun-
ar meðal barna og unglinga,“ segir í
umsögn dómnefndar.
mm
Að gefnu tilefni vill Matvælastofn-
un koma á framfæri athugasemd-
um við grein sem birtist í Frétta-
tímanum síðastliðinn föstudag,
í frétt sem ber heitið: „Gott um
helgina: Tína krækling.“ Matvæla-
stofnun varar við tínslu kræklings
í Hvalfirði þar sem fyrirliggjandi
niðurstöður á sjósýnum úr firð-
inum benda til að DSP eitur eða
niðurgangseitur geti verið yfir
viðmiðunarmörkum. „Mæling-
ar á þörungaeitri eru í bígerð og
er niðurstaðan væntanleg í næstu
viku. Eiturþörungar hafa verið við-
varandi í Hvalfirði í allt sumar og
þótt rofað hafi til á síðustu vikum
er staðan ennþá slæm og síðustu
sýni um og yfir viðmiðunarmörk-
um. Kræklingur er herramanns-
matur og án efa er það skemmti-
legt að tína krækling með fjöl-
skyldunni, en fólk ætti að afla sér
upplýsinga á heimasíðu Matvæla-
stofnunar hvernig staðan er með
eiturþörunga í sjó og þörungaeitur
í skelinni áður haldið er af stað,“
segir í tilkynningu frá Matvæla-
stofnun.
mm
Vara við tínslu á kræklingi
Ævar Þór verðlaunaður fyrir
lestrarátak barna
Kirkjubraut 54-56 - Akranesi - Sími: 433 5500 - www.skessuhorn.is
Skessuhorn kemur út alla miðvikudaga. Skilafrestur auglýsinga er kl. 14.00 á þriðjudögum.
Auglýsendum er bent á að panta auglýsingapláss tímanlega. Skráningarfrestur smá-
auglýsinga er til 12.00 á þriðjudögum.
Blaðið er gefið út í 3.800 eintökum og selt til áskrifenda og í lausasölu.
Áskriftarverð er 2.835 krónur með vsk. á mánuði. Elli- og örorkulífeyrisþegar greiða
kr. 2.457. Rafræn áskrift kostar 2.226 kr. Rafræn áskrift til elli- og örorkulífeyrisþega er 2.058 kr.
Áskrifendur blaðs fá 50% afslátt af verði rafrænnar áskriftar. Verð í lausasölu er 750 kr.
SKRIFSTOFA BLAÐSINS ER OPIN KL. 9-16 VIRKA DAGA
Útgefandi: Skessuhorn ehf. skessuhorn@skessuhorn.is
Ritstjórn:
Magnús Magnússon, ritstjóri s. 894 8998 magnus@skessuhorn.is
Guðný Ruth Þorfinnsdóttir gudny@skessuhorn.is
Kristján Gauti Karlsson kgauti@skessuhorn.is
Auk þeirra skráðu efni í Aðventublaðið:
Heiðar Lind Hansson, Katrín Lilja Jónsdóttir og fréttaritarar Skessuhorns.
Auglýsingar og dreifing:
Lísbet Sigurðardóttir lisbet@skessuhorn.is
Umbrot og hönnun:
Tinna Ósk Grímarsdóttir tinna@skessuhorn.is
Þórarinn Ingi Tómasson toti@skessuhorn.is
Bókhald og innheimta:
Guðbjörg Ólafsdóttir bokhald@skessuhorn.is
Prentun: Landsprent ehf.
Leiðari