Skessuhorn - 23.11.2016, Blaðsíða 42
MIÐVIKUDAGUR 23. NÓVEMBER 201642
Félag eldri borgara í Snæfellsbæ var
með sinn árlega jólabasar í félags-
heimilinu Klifi á sunnudaginn.
Fjöldi gesta lagði leið sína á basar-
inn þar sem til sölu var fjölbreytt
handverk sem félagsmenn höfðu
unnið við á liðnu ári. Voru marg-
ir fallegir hlutir sem skiptu þar um
eigendur. Auk þess var í boði heitt
kaffi, súkkulaði og vöfflur sem gest-
ir kunnu vel að meta.
af
Jólabasar eldri borgara í Snæfellbæ
Þessar myndarlegu dömur rétt gáfu sér tíma til þess að stilla sér upp fyrir myndatöku þrátt fyrir að nóg væri að gera við af-
greiðslustörfin.
Einar Kristjánsson íbúi í Ólafsvík er
sestur í helgan stein en nýtur þess
að vinna smíðar af ýmsum toga. „Ég
hreinlega verð að hafa eitthvað fyr-
ir stafni,“ segir hann. Eftir að hafa
starfað sem sjómaður í um 25 ár og
húsvörður í sundlaug Ólafsvíkur til
fjölda ára, segir hann erfitt að hætta
að vinna og hafa ekkert fyrir stafni.
„Því tók ég upp á því að gera hand-
verk úr tré. Þetta byrjaði rólega, en
nú er ég búinn að gera um 700 hús
og er mikill áhugi fyrir þeim,“ seg-
ir Einar brosandi og sýnir fréttaritara
hluta vinnu sinnar.
„Magnús sonur minn er trésmiður.
Hann sagði mér frá þessari hugmynd
að húsunum, en þau eru að vísu ekki
að það eina sem ég er að gera,“ segir
Einar og bætir við að hann geri skápa
undir lyklakippur, hulstur undir fjar-
stýringar, öskjur með vikursteini og
hraunösku úr Snæfellsjökli. „Og svo
fuglahús. Ég reyni að vera fjölbreytt-
ur í minni sköpun.“
Einar tekur það fram að húsin séu
notuð til að skreyta glugga íbúðar-
húsa og til dæmis séu grænu hús-
in skreytt um jólin, gulu um páskana
og hvítu húsin eru notuð allt árið.
En þetta er ekki eina áhuga málið
hjá Einari. „Ég starfa mikið með fé-
lagi eldri borgara. Við höfum í nógu
að snúast og er þetta mjög góður og
kraftmikill félagsskapur sem við höf-
um hérna. Við spilum bridds, boccia
og svo eru margir sem hafa ýmist
handverk í gangi.“ af
Verð að hafa eitthvað
að fást við
Hér er Einar með hluta af verkum sínum.
„Við erum lengi að heiman, en
komum þó oft í land,“ segir Jón
Gunnar Ingibergsson um borð í
Bjarna Ólafssyni AK-70 en þar hef-
ur hann verið háseti síðan 2003.
„Ég er samt með minnsta starfsald-
urinn um borð,“ segir Jón Gunn-
ar og brosir út í annað. Á skipinu
voru áður sautján starfsmenn, en
þeim hefur fækkað niður í níu eft-
ir að vinnslu á fiskinum var hætt
um borð. Fiskurinn er aðeins kæld-
ur niður og honum landað á Nes-
kaupsstað á þriggja til sjö daga
fresti.
Mikil samkennd á
meðal skipverja
Skipverjar á Bjarna Ólafssyni
þekkja hvern annan mjög vel, kosti
og galla. Jón Gunnar segir að það
einkenni veruna um borð hve þeir
þekkist allir vel. „Þetta er orðið
næstum nánasta fjölskylda, liggur
við.“ Þeir verji saman hér um bil sjö
til átta mánuðum á ári og samveran
er ekki eingöngu í vinnunni, held-
ur einnig utan hennar. Þeir borða
saman, horfa á sjónvarpið saman
og vinna saman. „Stundum höfum
við fengið menn um borð sem eru
kannski að leysa af, reynda sjómenn
og þeir tala alltaf um að það er
aldrei sagt neitt á dekkinu.“ Sam-
skiptin fari fram með augngotum
og höfuðhreyfingum. „Við höfum
oft talað um hvað við erum orðn-
ir pússaðir saman, samhentir. Það
er kannski þess vegna sem við erum
blessunarlega lausir við vinnuslys.“
Jón Gunnar segir að enginn hafi
slasast alvarlega eða illa í mörg ár
um borð í skipinu, þótt smámeiðsli
séu alltaf til staðar.
Jón Gunnar segir að þegar dvöl-
in úti á sjó sé orðin lengri, sé þráð-
urinn orðinn styttri í mönnum. Það
kemur þó ekki að sök, flestir eru
fljótir niður aftur og þar er senni-
lega að þakka samkenndinni á með-
al skipverja. „Það þýðir ekkert að
vera lengi í fýlu úti á sjó,“ segir Jón
Gunnar og hlær aðeins. „Ekki get-
ur maður verið inni í klefa í fýlu í
marga daga, þá ertu bara einn.“
Breytt sýn á
sjómannslífið
Jón Gunnar minnist á hugarfars-
breytingu sem hefur orðið meðal
sjómanna á síðustu árum. Sú menn-
ing sem fylgt hefur sjómönnum að
koma í land og detta í það hef-
ur snarbreyst á síðustu áratugum.
„Það eru ótal leiðir til að drepa sig
úti á sjó. Ef að menn eru ekki í lagi
þegar þeir fara út á sjó, þá eru þeir
hættulegir sjálfum sér og öðrum.
Maður verður bara að vera með öll
skilningarvitin í lagi um borð,“ seg-
ir Jón Gunnar alvarlegur í bragði.
Reynslumikill björg-
unarsveitarmaður
Á milli túra býr Jón Gunnar á Akra-
nesi þar sem hann er fæddur og
uppalinn, þar á hann tvær dætur og
eiginkonu. „Það er alltaf gaman að
koma heim, sérstaklega ef maður
kemur heill heim.“ Það tekur hann
þó allt að tvo daga að komast í rétta
taktinn í landi. „Lífsstíllinn er allt
annar úti á sjó, það er engin regla á
svefni og vinnu.“
Reynslumikill í björg-
unarsveitinni
Jón Gunnar er virkur félagi í Björg-
unarfélagi Akraness og hefur verið
viðriðinn Slysavarnarfélagið Lands-
björgu frá fimmtán ára aldri. Hann
hefur stundað hefðbundin björgun-
arsveitarstörf, átt leitarhund og er
núna í aðgerðarstjórn fyrir Vestur-
land. Hann segir að hann reyni að
vera bakland fyrir yngri björgunar-
sveitarmenn. „Þetta er svona eðli-
leg þróun að maður skiptir göngu-
skónum út fyrir kaffibolla og inni-
skó,“ segir Jón Gunnar og brosir.
Þrátt fyrir að reynslan sem björg-
unarsveitarmaður nýtist vel í að-
gerðastjórninni eru mörg námskeið
sem þarf að sækja til að geta haldið
góðu skipulagi í verkefnum björg-
unnarsveitanna.
Löng leit í niðamyrkri
Jón Gunnar segir að eftirminnileg-
asta verkefnið sem hann hafi tek-
ið þátt í sé leit að rjúpnaskyttu um
miðja nótt á Snæfellsnesi. „Það var
alveg svart, súld og þoka, þannig að
maður bókstaflega sá ekki handa
sinna skil.“ Stór hópur björgunar-
sveitamanna tók átt í leitinni, þar á
meðal Jón Gunnar, félagi hans og
leitarhundurinn hans. „Við kom-
um í myrkri og fórum upp fjall-
ið og vissum í raun aldrei hvern-
ig landslagið var. Ég gæti ekki lýst
þessu svæði í dag þó mér færi borg-
að fyrir það,“ segir hann og bæt-
ir við að þarna hafi hann upplifað
það hvernig það er að vera týnd-
ur. „Maður fór að upplifa þessa til-
finningu, að vantreysta tækjunum.
Stuttu síðar ertu orðinn villtur.“
Sem vel þjálfaðir björgunarsveit-
armenn gátu þeir þó talað sig til,
þvingað sig til að treysta tækjunum
sem voru þeim til aðstoðar.
Á leiðinni niður af fjallinu, eft-
ir leitina komu þeir að á. „Við gát-
um með engu móti séð í hvora átt-
ina hún var að renna og þurftum
að stinga hendinni ofan í ánna til
að finna hvert hún rann,“ segir Jón
Gunnar. Rjúpnaskyttan fannst lát-
in í þessar leit. Hann hafði látist úr
hjartaáfalli. En þótt verkefni inn-
an björgunarsveitanna geti verið
erfið segir Jón Gunnar að það séu
líka gefandi. „Það að sjá fram á að
maður geti hjálpað og geti aðstoð-
að eitthvað. Svo er þetta spenna og
aksjón líka.“ Því fylgi líka spenna að
vera í aðgerðastjórninni. „Að hafa
tvö hundruð manns sem maður ber
ábyrgð á að senda ekki í einhverja
vitleysu, það er ákveðin spenna í
því. Mér finnst þetta mikil áskor-
un,“ segir Jón Gunnar og bætir
við að félagsskapurinn sé góður og
samkenndin mikil.
klj
„Það þýðir ekkert að vera í fýlu úti á sjó“
Rætt við Jón Gunnar Ingibergsson, sjómann og björgunarsveitarmann
Jón Gunnar um borð í Bjarna Ólafssyni
AK 70.
Nýlega var sjósettur bátur hjá Björgunarfélagi Akraness, en Jón Gunnar var einn
af hvatamönnum þess að björgunarfélagið keypti þennan bát og gerði hann upp.