SSFblaðið - Dec 2015, Page 5

SSFblaðið - Dec 2015, Page 5
5 Fjórði áraTugurinn var mikið vakningarTímabil í íslensku þjóðlíFi. Gróska ríkti á menningarsviðinu og efnahagur landsins tók að reisa við í kjölfar heimskreppunnar. Samfara aukinni velmegun bast launafólk fastari böndum og sótti fram til aukinna réttinda. Íslenskir bankamenn voru þar engin undantekning. Það var í þessum frjóa jarðvegi sem Samband íslenskra bankamanna skaut rótum í ársbyrjun 1935. Stofnunin átti sér nokkurn aðdraganda því forráðamenn starfsmannafélags Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands komu saman til tveggja funda haustið 1934. Sjálfur stofnfundurinn var svo haldinn 30. janúar 1935. Forseti var kjörinn Haraldur Johannessen og með honum í stjórn þeir Franz E. Andersen, Baldur Sveinsson, Einvarður Hallvarðsson og Elís Halldórsson. Stofnfélagar voru 75 starfsmenn Landsbankans og 53 starfsmenn Útvegsbankans. Hafist handa Rúmlega viku eftir stofnfundinn kom nýkjörin stjórn saman til síns fyrsta fundar. Þar var nánari verkaskipting ákveðin og markmið sett. Var m.a. fastmælum bundið að birta frétt um stofnun sambandsins í útvarpinu og að fara þess á leit við starfsmannafélögin að þau greiði eina krónu af hverjum félagsmanni upp í starfskostnað SÍB. Einnig hófust menn handa um undirbúning árshátíðar er haldin skyldi um vorið og hugað að stofnun blaðs bankamanna. Bankablaðið sá dagsins ljós í júlí 1935. Í ávarpi sambandsstjórnar á forsíðu segir m.a.: „Þetta fyrsta blað, sem gefið er út til reynslu, verður ekki selt heldur sent öllum sambandsfélögum ókeypis. Um það, hvort blaðið kemur út eftirleiðis eða hve oft, er ekki hægt að segja að svo stöddu. Það fer eftir undirtektum og áhuga sambandsfélaga. En stjórn sambandsins væntir þess, að allir, sem hlut eiga að máli, bregðist þannig við að hægt verði að halda útgáfunni áfram. Til þess að svo megi verða, þarf hver og einn að leggja fram sinn skerf.“ Í þessu fyrsta tölublaði kemur einnig fram að nafnið Bankablaðið hafi einungis verið valið til bráðabirgða og þess farið á leit við bankamenn að þeir sendi inn tillögur að framtíðarnafni. Ekki verður séð hvort bankamenn hafi almennt svarað því kalli en hitt vitum við að þetta nafn festist við blaðið til langframa. Bakari eða bankamaður? Strax á fyrsta sumri hins nýstofnaða sambands bankamanna kom til kasta þess þegar bakari nokkur á Ísafirði var ráðinn í starf gjaldkera Útvegsbankans þar, en gengið framhjá öðrum umsækjanda, Adolfi Björnssyni, manni sem hafði góða menntun og reynslu af bankastörfum. Þess má geta að bakarinn var framámaður í stjórnmálaflokki einum, bæjarfulltrúi með meiru. Um sömu mundir var stöðu útibússtjóra Útvegsbankans á Akureyri ráðstafað gegn vilja starfsmannafélags bankans sem mælti eindregið með Svanbirni Frímannssyni, sem þá var gjaldkeri bankans á Akureyri. Af þessu tilefni birtist grein í Bankablaðinu undir dulnefninu ACBA. Þar segir m.a.: „...barst Félagi starfsmanna Útvegsbanka Íslands h.f. einnig nokkurs konar gjöf frá Útvegsbankanum eða réttara sagt „ofanígjöf“ þar sem um veitingu gjaldkerastöðunnar á Ísafirði er að ræða. Bankastjórar þessa banka, eða að minnsta kosti tveir þeirra, hafa tvímælalaust staðfest, að ekki sé nokkurs virði að menn séu að eyða tíma og fé til að þroska og þjálfa sig til bankastarfs. Slíkt sé tóm endileysa. Þeir menn séu miklu færari, sem t.d. stæli puttana við prentverk, þjálfi andann við brauðhnoð eða skerpi „útsjónuna á skipsfjöl eða því um líkt.“ Rígur milli bankamanna Strax á fyrstu árunum varð vart nokkurs konar togstreitu milli sambandsmannafélaga Útvegsbankans og Landsbankans. Hamlaði þetta nokkuð starfsemi SÍB því öll meiri háttar mál þess náðu ekki fram að ganga nema fundir starfsmannafélaga bankanna samþykktu þau. Gilti þetta t.d. um eftirlaunasjóðsmál og hugmyndir um stofnun sjúkratrygginga bankamanna, en hvort tveggja vafðist nokkuð fyrir mönnum. Á fyrsta reglulega aðalfundi SÍB sem haldinn var 17. febrúar 1936 kom til ágreinings um kjör meðstjórnenda. Forseti, Haraldur Johannessen, hafði einróma verið endurkjörinn en hann hafði gefið kost á sér með því skilyrði að fyrri stjórn sæti áfram. Þegar kom að kosningu meðstjórnenda komu fram tveir listar. Lýsti Haraldur því þá yfir að hann tæki ekki kjöri. Var fundi slitið við svo búið en framboðsfundir boðaðir viku síðar. Þar var Einvarður Hallvarðsson kosinn forseti og með honum í stjórn þeir F.A. Andersen, Elías Halldórsson, Haukur Þorleifsson og Björn Björnsson. Á þessum sama fundi var Starfsmannafélag Búnaðarbanka Íslands boðið velkomið í SÍB. ÚR FRJÓUM JARÐVEGI – 1935-1945 – Forsíða 4. tbl. fyrsta árgangs banka- blaðsins. Fyrsti formaður samtakanna; Haraldur Johannessen.

x

SSFblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: SSFblaðið
https://timarit.is/publication/980

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.