SSFblaðið - Dec 2015, Page 18

SSFblaðið - Dec 2015, Page 18
18 ÁRIN 1995-2000 Tími hlutafélagavæðingar Strax um haustið árið 1995 byrjaði hlutafélagavæðing (hf.- væðing) ríkisbankanna, Landsbanka og Búnaðarbanka, þegar nefnd um hf.- væðingu var kosin á Alþingi. Stjórn SÍB sendi nefndinni og viðskiptaráðherra strax ósk um að vera þátttakendur í öllu undirbúningsferlinu þar sem slík breyting á rekstri bankanna hefði veruleg áhrif á réttindi og stöðu starfsmanna. Friðbert segir að höfuðáherslan hafi verið á að tryggja öll réttindi sem þá þegar voru áunnin innan ríkisbankakerfisins, eins og lífeyrisréttindi, veikindarétt, orlof, tryggingar, vinnutíma og margt fleira. „Mikilvægast af öllu var að tryggja það að allir starfsmenn yrðu áfram í einu sameinuðu og sterku stéttarfélagi, en ekki sundraðir í mörg félög ýmist innan BHM eða félaga verslunar- og verkamanna. Með mikilli baráttu og vinnu með nefnd Alþingis tókst að tryggja þessa stöðu allra félagsmanna og átti formaður nefndar Alþingis, Geir Haarde, stóran þátt í að það tókst, þrátt fyrir mikla andstöðu ýmissa þingmanna innan eigin flokks, en þó sérstaklega andstöðu þingmanna í Framsókn.“ Strax árið 2000 var byrjað að selja hluti úr bönkunum tveimur, en loforð ríkisstjórnar var að selja ekki fyrr en að 5 árum liðnum frá hf.- væðingunni. Á sama tíma og unnið var að frumvarpi um hf. væðinguna á Alþingi var sett í gang nefnd innan Landsbankans sem hafði það hlutverk að breyta lífeyrisréttindum starfsmanna og afnema bakábyrgð bankans í gamla hlutfallsdeildarkerfi Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans. Friðbert segir að stjórn SÍB hafi ekki fengið að vita af þessari vinnu fyrr en í byrjun árs 1997, en bendir á að stéttarfélagið sé ekki beinn aðili að stjórn lífeyrissjóðsins, heldur eru það sjóðfélagar sjálfir sem kjósa fulltrúa sína í stjórn sjóðsins beinni kosningu á ársfundi. Árið 1997 voru mikil átök um þessar breytingar á lífeyrissjóðnum, sérstaklega vegna afnáms bakábyrgðar bankanna og annarra aðildarfyrirtækja að sjóðnum. Samningur um nýtt lífeyriskerfi þar sem 10% iðgjald færi til hefðbundins samtryggingarlífeyrissjóðs og 7% (eftir 3 ár) í séreignarsjóð að vali starfsmanna mæltist hins vegar vel fyrir hjá flestum sjóðfélögum. Gamla kerfinu var breytt, bakábyrgðinni aflétt af fyrirtækjunum en skuld þeirra fyrir liðinn tíma greidd inn og hærra iðgjald (18,4%) greitt inn í sjóðinn frá ársbyrjun 1998. Að baki iðgjaldinu og inngreiðslunni voru ákveðnar forsendur, reiknaðar af tryggingarstærðfræðingi og byggt á reynslu áranna á undan breytingunni. „Strax árið 2004 var ljóst að þessar forsendur hefðu ekki staðist og hefur staðið yfir barátta, og stendur enn, til að fá aukið framlag fyrirtækjanna til að standa undir raunverulegum forsendum þannig að unnt sé að reka sjóðinn og standa við réttindin sem hann lofaði sjóðfélögum 1997 og löngu fyrir þann tíma.“ Hann vonast til þess að sjóðfélagar og fyrirtækin nái samningum um lausn á þessu vandamáli. Eftirlaunasjóði starfsmanna Búnaðarbankans var einnig breytt á sama hátt 1997, en með ákvörðun um fjárfestingar sem teknar voru 2003 tókst þeim sjóði að bjarga sér algjörlega frá tapi eigna í efnahagshruninu 2008 og hann segir sjóðinn standa vel í dag. Styrktarsjóður SÍB Í kjarasamningum SÍB 1997 var mikilvægu baráttumáli komið í höfn, Styrktarsjóður SÍB (sjúkrasjóður) var stofnaður og samþykkt að fjármálafyrirtækin greiddu inn 0,3% af föstum mánaðarlaunum inn í sjóðinn. „Það hamlaði nokkuð starfi SÍB að eiga ekki slíkan styrktarsjóð, sem getur aðstoðað félagsmenn vegna langvarandi veikinda og stuðlað að heilsueflingu og forvörnum ýmsum eins og rannsóknum og sálfræðiaðstoð. Í dag fær sjóðurinn framlög frá bönkunum sem nemur 0,5% af launum og það hækkar árið 2017 í 0,7% af launum og verður sjóðurinn þá sjálfbær, en undanfarin ár hefur félagssjóður SSF styrkt hann árlega með framlagi. Margir halda að þessi sjóður hafi alltaf verið til en hann greiddi í fyrsta skipti út styrki árið 2000“ segir Friðbert. Rúmlega 50% félagsmanna sækja styrki úr þessum sjóði á hverju ári í um 5000 umsóknum. Menntunarsjóður SÍB Í kjarasamningum árið 1999 náði SÍB öðru markmiði, „þá var Menntunarsjóður stofnaður og byrjaði hann að greiða námsstyrki til félagsmanna árið 2001. Menntunarsjóður SSF er einn sá öflugasti á landinu og skipta styrkir til félagsmanna miklu máli þegar félagsmenn ákveða að efla sig og bæta við sig námi og þekkingu.“ Um 700 félagsmenn sækja um styrki á hverju ári. ÁRIN 2000-2006 Sameining Landsbankans og Búnaðarbankans stöðvuð Friðbert segir að árið 2000 hafi hafist með miklum látum í bankaheiminum. Ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks ákvað að sameina ríkisbankana tvo, Landsbankann og Búnaðarbankann, „þeir væru þá með mun seljanlegri vöru heldur en að selja bankana tvo í sitthvoru lagi. En sem betur fer stoppaði Samkeppnisráð, eins og það hét þá, þessa fyrirætlan ríkisstjórnar og lagði fram ítarlega skýrslu um að slík samþjöppun væri allt of mikil og hlutdeild sameinaðs banka langt umfram það sem samkeppnislög leyfa. Samkeppnisráð mat það svo að sameinaður banki yrði með 55-60% hlutdeild á öllum mörkuðum fjármála bæði í þjónustu við fyrirtæki og einstaklinga. Slík samþjöppun leiddi til yfirburða stöðu á bankamarkaði sem enginn annar aðili gæti keppt við.“ Á þessum tíma voru einnig starfandi Íslandsbanki og 24 sparisjóðir um allt land. Fásinna að sameina Landsbanka og Íslandsbanka í dag Friðbert telur að sömu sjónarmið og ríktu við sameiningarhugmyndir Landsbanka og Búnaðarbanka eigi ennþá við í dag. „Allt tal um sameiningu Landsbanka og Íslandsbanka er fásinna og tímaeyðsla. Slíkur sameinaður banki væri með um og yfir 75% markaðshlutdeild á öllum sviðum fjármálaþjónustu, hvort sem litið er til viðskiptabankaþjónustu eða fjárfestingabankaþjónustu. Ef Samkeppniseftirlitið myndu leyfa slíkt þá er rökrétt niðurstaða að leggja þá stofnun alfarið niður á Íslandi því aðgangur að fjármagni og fjármálaþjónusta stýrir öllu öðru athafnalífi“. Sala Landsbankans og Búnaðarbankans „Á árunum 2000-2002 var nokkur samdráttur í fjármálakerfinu vegna þess að tæknibólan (.com) sprakk, hlutabréf lækkuðu mikið í verði og bakslag varð á flestum sviðum fjármála (meðal annars tap hjá íslenskum lífeyrissjóðum). En markaðurinn var fljótur að ná sér og strax 2002 fer ríkið að leita eftir hugsanlegum kaupendum Landsbanka og Búnaðarbanka. Allir vita hvernig það endaði, flokkarnir skiptu bönkunum á milli sín og seldu tveimur hópum bankana tvo. Um áramótin 2003/2004 voru bankarnir því að fullu einkavæddir og síðar keypti Kaupþing (og aðilar þeim tengdir) Búnaðarbankann. Ég ætla ekki að fara yfir þá sögu, hún er margsögð og sitt sýnist hverjum, oftar en ekki í nokkru samræmi við stjórnmálaskoðanir hvers og eins“ segir Friðbert sem telur að það sé ástæða til þess að fara varlega í sölu bankanna nú og að jafnvel sé heppilegast að ríkið haldi Landsbankanum áfram í ríkiseigu. Barist fyrir tilvist SÍB Kjarasamningar SÍB byggðu á „lögum um kjarasamninga starfsmanna

x

SSFblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: SSFblaðið
https://timarit.is/publication/980

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.