SSFblaðið - des. 2015, Blaðsíða 31
31
byggðasToFnun er sTaðseTT á sauðárkróki en sToFnunin er í eigu
íslenska ríkisins. Hjá Byggðastofnun starfa 24 starfsmenn með mjög
víðtæka menntun og reynslu. Stofnunin skiptist upp í þrjú svið;
þróunar-, rekstrar-, lögfræði- og fyrirtækjasvið. Fyrirtækjasviðið er
lánastarfsemi stofnunarinnar og á því sviði starfa auk forstöðumanns,
þrír lánasérfræðingar og ritari. Undirrituð tók við starfi sem
forstöðumaður sviðsins og staðgengill forstjóra haustið 2012 en
hafði þá verið lánasérfræðingur hjá stofnuninni frá því í desember
2007. Byggðastofnun var sett á laggirnar með lögum árið 1985 og
fagnar því 30 ára afmæli um þessar mundir. Þrátt fyrir háan aldur
stofnunarinnar hefur kona aldrei fyrr gegnt yfirmannsstöðu hjá
stofnuninni. Bent hefur verið á það í rannsóknum að byggðamál
hafi í gegnum tíðina verið frekar karllægur málaflokkur en það er
sem betur fer að breytast. Um starfsemi Byggðastofnunar gilda sér
lög , þau sem í gildi eru nú eru frá 1999 með síðari breytingum.
Að auki starfar stofnunin eftir ýmsum öðrum lögum, meðal annars
lögum um fjármálafyrirtæki.
Hlutverk Byggðastofnunar eins og það er skilgreint í lögum er:
„að efla byggð og atvinnulíf með sérstakri áherslu á jöfnun
tækifæra allra landsmanna til atvinnu og búsetu. Í samræmi
við hlutverk sitt undirbýr, skipuleggur og fjármagnar stofnunin
verkefni og veitir lán með það að markmiði að treysta byggð,
efla atvinnu og stuðla að nýsköpun í atvinnulífi. Fjármögnun
verkefna skal eftir föngum vera í samstarfi við aðra“.
Einn meginþátturinn í starfi Byggðastofnunar er að leitast við að
tryggja litlum og meðalstórum fyrirtækjum utan höfuðborgarsvæðisins
aðgang að lánsfé á sambærilegum kjörum og fyrirtæki á þéttbýlli
svæðum njóta. Lánastarfsemi á svæðum sem búa við neikvæðan
hagsvöxt eða eru utan vaxtarsvæða er í eðli sínu áhættusöm og með
því að ríkið komi inn á markaðinn á þennan hátt er komið í veg
fyrir markaðsbresti sem óhjákvæmilega geta orðið á þessum svæðum.
Færa má fyrir því sterk rök að lán á hagstæðum kjörum gegn veðum
í fasteignum og atvinnutækjum sé skynsamlegri, sanngjarnari og
ódýrari leið en beinir styrkir til eflingar atvinnulífs. Stuðningur
ríkisins við slíka lánastarfsemi skilar sér margfalt til baka í öflugra
atvinnulífi og skattgreiðslum fyrirtækja sem njóta lánafyrirgreiðslu
stofnunarinnar, starfsmanna þeirra og afleiddrar starfsemi um
land allt. Byggðastofnun er ekki í samkeppni við viðskiptabanka
og sparisjóði heldur er það mjög algengt að stofnunin komi að því
að fjármagna verkefni með öðrum og samstarfið hefur verið mjög
gott í gegnum tíðina.
Um starfsemi Byggðastofnunar sem fjármálastofnunar gilda allar
sömu reglur og um önnur fjármálafyrirtæki og þarf stofnunin að
uppfylla sömu lámarks kröfur um eiginfjárhlutfall og skila sömu
skýrslum til eftirlitsstofnana. Að auki erum við í góðu sambandi
við ráðuneyti og aðrar opinberar stofnanir, atvinnuþróunarfélög í
landsbyggðunum og viðskiptabanka og sparisjóði. Við fylgjumst
með því sem er að gerast hjá systurstofnunum okkar í löndunum
í kringum okkur, því sem er að gerast í byggðaþróun og þar sem
fyrirtækjasviðið er fámennt þurfa allir að vera vel að sér í öllum
hlutum s.s. hvað er að gerast í landbúnaði, sjávarútvegi, fiskeldi,
sveitarstjórnarmálum, íbúaþróun og atvinnulífi almennt um
allt land. Sérhæfing á einu sviði er ekki til en lánasérfræðingar
skipta landinu á milli sín að einhverju leyti og þannig myndast
ákveðin sérfræðiþekking á viðkomandi svæði. Að auki erum við
töluvert á ferð um landið til að hitta viðskiptavini, fylgjast með
framgangi verkefna og sækja fundi og ráðstefnur sem snúa að því
sem við erum að gera. Á síðasta ári var lögð mikil vinna í gerð
áhættustefnu og áhættureglna fyrir stofnunina sem samþykkt var
af stjórn stofnunarinnar í byrjun þessa árs. Vinna við mælingar
samkvæmt stefnunni hófst á árinu ásamt gerð skýrslu um innra
mat á eiginfjárþörf (ICAAP). Byggðastofnun hefur undanfarin þrjú
ár verið að útvíkka þjónustu sína og prófa nýjar nálganir varðandi
byggðastuðning eins og t.d. verkefnið „Brothættar byggðir“ sem
snýr að byggðum með langvarandi fólksfækkun. Settar hafa verið
fram nýjungar varðandi lánsfjármögnun s.s. vegna kynslóðaskipta
í landbúnaði sem nú hefur verið útvíkkað í framkvæmdalán í
landbúnaði og svo á þessu ári stuðningur við atvinnurekstur kvenna.
Þessar nýjungar í þjónustu stofnunarinnar hafa mælst vel fyrir og
verið mikið að gera á fyrirtækjasviðinu í greiningum lánsbeiðna
undanfarið ár.
Elín Gróa Karlsdóttir,
forstöðumaður fyrirtækjasviðs Byggðastofnunar
Ágrip af CV:
• Starfsmaður Búnaðarbanka Íslands á árunum 1988 – 2002
• Starfsmaður á fjármálaskrifstofu Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar
og fjármálastjóri á Þjónustu- og rekstrarsviði borgarinnar á
árunum 2003 – 2007.
• Viðskiptafræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2003
• Diplóma í Hagnýtum Jafnréttisfræðum frá Háskóla Íslands 2011
• Er að ljúka mastersnámi í Opinberri stjórnsýslu frá Háskóla
Íslands.
Byggðastofnun í 30 ár