Hugur og hönd


Hugur og hönd - 01.06.2004, Blaðsíða 11

Hugur og hönd - 01.06.2004, Blaðsíða 11
Þórarinsstaðahringurinn I Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum er til sölu silfurhringur sem hefur vakið nokkra athygli ferðamanna og áhuga- manna um fornt handverk. Hringur þessi er eftirlíking fingurhrings sem fannst við uppgröft á Þórarinsstöðum í Seyðisfirði árið 1999 og er hann smíði feðganna Hlyns Halldórssonar og Fjölnis Hlynssonar á Miðhúsum. Skartgripir og ýmsar aðrar eftirlíkingar gamalla muna eru oft vinsæl söluvara á söfnum erlendis. Hér á landi hefur Þjóð- minjasafnið m.a. látið framleiða silfurnæl- ur sem hafa verið seldar bæði í safninu sjálfu, á meðan það var enn opið almenn- ingi, en einnig í minjagripaverslunum. Eftirlíking hringsins frá Þórarinsstöðum er því viðbót við þessa flóru og er ef til vill áhugaverðari fyrir nútíma ferðamann en nælurnar, því að hringar af ýmsu tagi hafa verið mikið í tísku undanfarin ár. Þórarinsstaðahringurinn fannst í grafreit við stafkirkju sem talið er að sé frá fyrstu árum kristins siðar á Islandi. I heiðnum sið var algengt að láta haugfé í kuml, venjulega persónulega muni hins látna, en ekki var heldur óalgengt í kristnum sið að láta einhverja muni fylgja hinum framliðna. Þá var þó oftast aðeins um einn hlut að ræða. Þar sem ekkert annað en þessi hringur fannst í gröfmni á Þórarinsstöðum má vel hugsa sér að hér sé komið uppáhaldsskraut þess er lá í gröfmni. Einföld en hentug aðferð Þórarinsstaðahringurinn er búinn til á þann hátt að sívalur teinn er beygður í hring og tengdur saman með hnýtingu sem myndar einfalt skraut. Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur og fv. minjavörður sem var í forsvari fyrir upp- greftinum á Þórarinsstöðum, segir að þess konar hnýting hafi almennt verið notuð við smíði ýmissa skartgripa á síð- ari hluta víkingaldar (þ.e. 950-1000) um alla norðanverða Evrópu. Það sem gerir þennan hring svo merki- legan er ef til vill sú staðreynd að fingur- hringir voru tiltölulega fátíðir sem skart á Silfurhringurinn, sem smíSaður er á Miðhúsum og seldur í Minjasafhi Austurlands, er í nákvœmlega eins leðurpyngju ogfyrirmynd hansfannst á Þórarinsstöðum. víkingaöld, segir Steinunn. Baugar sem menn báru um háls sér og arma voru mun al- gengari. Auk hringsins frá Þórarinsstöðum hefur aðeins einn annar fingurhringur frá víkingaöld varðveist hér á landi en sá fannst í Mið- neshreppi á Suðurnesjum. Einnig er það merkilegt að hringurinn frá Þórar- insstöðum er smíðaður með sama hætti og armbaug- urinn í silfursjóðnum fræga sem fannst á Miðhúsum ár- ið 1980. Hvort sú var kveikjan eða eitthvað ann- að, þá tókst samvinna á milli Minjasafns Austur- lands og völundarsmiðanna á Miðhúsum og átti Stein- unn minjavörður frum- kvæði að því. A Miðhúsum reka hjónin Edda Björnsdóttir og Hlynur Halldórsson Listasmiðjuna Eik ásamt syni sínum Fjölni og er þar aðallega unnið að útskurði, bæði í tré, horn og bein. Fjölnir segir að Þórarinsstaðahringurinn sé eigin- lega „aukageta“ hjá þeim feðgum og hvorugur þeirra hafi formlega lært silfur- smíði. Faðir hans, Hlynur, er lærður hús- gagnasmiður, en auk þess hafi hann lært útskurð hjá föður sínum, Halldóri heitn- um Sigurðssyni, handavinnukennara og húsasmið á staðnum. Fjölnir, sem er því þriðja kynslóð handverksfólks á Miðhús- um, er sjálfur menntaður í Listaháskóla Islands, þar sem hann útskrifaðist úr skúlp- túrdeild árið 2001. Segja má að aðferðin við smíði Þór- arinsstaðahringsins sé bæði einföld og hentug. Hún krefst ekki mjög mikillar fagkunnáttu, en menn þurfa að vera lagnir, „kunna að vinna með höndunum á sér“, segir Fjölnir. Ef stækka þarf eða minnka hringinn, á bara að rekja hann upp aftur og beygja í formið að nýju. A víkingaöld voru silfurteinar einnig oft notaðir sem gjaldmiðill. Ef borga átti eitt- hvað þá var einfaldlega brotinn nægilega stór bútur af teininum og hann vigtaður. Að nútímamanni læðist því sá grunur að ef til vill hafi einhver hagnýt hugsun verið á bak við einfaldleikann í hönnuninni. Hvað væri auðveldara en að rekja hnútinn sundur, klippa bút af baugnum og hnýta svo aftur? Baugurinn gæti verið jafnstór og áður en hnúturinn aðeins minni. Marjatta Isberg Ljósmynd: Binni Heimildir og ítarefni: Steinunn Kristjánsdóttir (2000). Timburkirkja og grafreitur úr frumkristni. Áfangaskýrsla fornleifarannsókna á Þórarinsstöðum í Seyð- isfirði sumarið 1999. Skýrslur Minjasafhs Austurlands XI. Inga Rósa Þórðardóttir (1996). I þjóðlegri sköpun. Inga Rósa Þórðardóttir ræðir við hjónin Hlyn Kristin Halldórsson og Eddu Kristínu Björnsdóttur á Miðhúsum. Heima er bezt 1996 (9), bls. 317-325. HUGUR OG HÖND 2004 1 1

x

Hugur og hönd

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Hugur og hönd
https://timarit.is/publication/1414

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.