Bændablaðið - 24.05.2017, Side 6

Bændablaðið - 24.05.2017, Side 6
6 Bændablaðið | Miðvikudagur 24. maí 2017 Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum á landinu og á öll lögbýli landsins. Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.200 með vsk. (innheimt í tvennu lagi). Ársáskrift fyrir eldri borgarar kostar 5.100 með vsk. Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279 Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar − SKOÐUN Stöðugt berast fregnir af dapurri reynslu fólks í samskiptum við stjórnkerfið og íslenskar stofnanir. Enn daprara er að hugsa til þess hversu kerfið á erfitt með að bregðast við þeim vanda sem upp kemur. Það er hægt að bera víða niður þegar kemur að árekstrum fólks við, að því er virðist, ósveigjanlegt kerfi. Nýlegt dæmi er enn ein rassskellingin sem Hæstiréttur Íslands fær og nú frá sjálfum mannréttindadómstól Evrópu (FMD) vegna misgjörða gagnvart blaðamönnum. Þetta er sjötta rassskellingin sem íslenska dómkerfið fær á tíu árum vegna furðulegrar dómaframkvæmdar. Í tíu ár virðist dómskerfið ekkert aðhafast til að reyna að koma skikk á málin. Fleiri mál má nefna þar sem erlendir dómstólar hafa reitt pískinn á loft til að rassskella íslenska dómstóla. Má þar til dæmis geta hins fræga kvótadóms eða Valdimarsdóms Hæstaréttar í máli Valdimars Jóhannessonar árið 1998. Niðurstaðan þar var í raun að allir Íslendingar ættu ekki jafnan rétt á að fá veiðileyfi á Íslandsmiðum. Þar kom líka greinilega fram að dómstólar telji sér ekki ætlað að endurskoða mat löggjafans á því hvað teljist til í þágu almannaheilla og hvað ekki. Með öðrum orðum, dómararnir vísa til lagatextans sem samþykkur var af þingmönnum á Alþingi. Þeim dómi var slengt aftur í andlit Hæstaréttar eins og blautri tusku af ekki ómerkara apparati en Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að kvótakerfið brjóti mannréttindi, það sé ósanngjarnt og mismuni þegnum landsins. Kannski er ósanngjarnt að kenna dómstólunum og þeim sem þar starfa eingöngu um dómaframkvæmdina. Líklega telur þetta fólk, sem er af holdi og blóði eins og við öll hin, að það sé einungis að framfylgja lögum. Reyndar hefur það verið áréttað í dómum. Fyrir leikmann er erfitt að átta sig á því, en ef svo er hlýtur vandinn að liggja hjá Alþingi og þeim sem skrifa lögin hverju sinni. Af hverju er ekki hægt að orða lög þannig að ekki sé hægt að snúa út úr þeim á alla kanta? Af hverju sjóða menn saman texta fyrir lagasmíð sem er svo loðinn og með alls konar orðaleppum að allt venjulegt fólk á í stórvandræðum með að skilja hann? Ekki nóg með það, heldur virðist það vera staðreynd að löglærðir menn með hæstu gráður geta bara alls ekki verið sammála um hvað raunverulega stendur í lögunum. Það er merkilegt að í Grágás, Gamla sáttmála og Jónsbók skuli vera skiljanlegri og óumdeildari texti en hámenntuðum lögspekingum hefur auðnast að sjóða saman á síðari tímum. Í merki íslensku lögreglunnar er fallega orðuð setning á skrautlegri sex arma stjörnu. Utan um sverð og skjöld í miðju merkisins stendur: „Með lögum skal land byggja.“ Þar er tilvitnun í orð sem höfð voru eftir lögspekingnum Njáli á Bergþórshvoli fyrir margt löngu, er hann átti að hafa sagt: „Með lögum skal land vort byggja, en með ólögum eigi eyða.“ Sagt er að Íslendingar hafi reynt að hafa þau orð í heiðri allt frá upphafi landnáms. Það má þó segja að eftir höfðinu dansi limirnir. Ef löggjafarvaldinu tekst ekki að setja saman einfaldan og skiljanlegan lagatexta sem viðmiðunarreglur borgaranna, hvernig í ósköpunum eiga borgararnir þá að fara að lögum? Það er ekki hægt að trúa því að það sé ætlun neins þingmanns að samþykkja slíkt orðasamsull á stofnanamáli sem enginn skilur að það styðji helst það sem Njáll vildi koma í veg fyrir. Nefnilega að með ólögum eyði menn byggð í landinu. /HKr. Með ólögum eyða ÍSLAND ER LAND ÞITT Mynd / HKr. Breytingar hafa þegar orðið í smásölu- verslun á Íslandi með opnun ameríska verslunarfyrirtækisins Costco í Garðabæ. Eldsneytisverð fyrirtækisins er talsvert lægra en annars staðar, þó að íbúar hinna dreifðu byggða hafi vissulega takmarkaða möguleika á að nýta sér það. Verðlag á öðrum vörum virðist í sumum tilvikum vera verulega lægra líka, þótt það eigi eftir að koma betur í ljós. Bændur vonast eftir því að fyrirtækið leggi áherslu á íslenskar landbúnaðarvörur eins og kostur er og selji þær á sanngjörnu verði til neytenda. Bændasamtökin gáfu út skýrslu á síðasta ári um matvælaverð á Íslandi og í Evrópu. Þar var farið yfir stöðu þeirra mála með ítarlegum hætti og meðal annars kom fram það mat samtakanna að það væri hægt að ná árangri við að lækka verð á matvörum á Íslandi. Til þess þyrfti að auka samkeppni á dagvörumarkaði og tryggja að ágóði af breytingum á ýmsum gjöldum og álögum skili sér til neytenda. Sama á við um það þegar árangur næst í hagræðingu í landbúnaði – þá eiga neytendur og bændur að njóta hans en ekki einvörðungu verslunin. Í skýrslunni kom fram að lækkun gjalda, hagstæð þróun á gengi íslensku krónunnar og lægra innkaupaverð hefði ekki skilað sér með eðlilegum hætti með lægra verði til neytenda. Ágóðinn hefði að mestu runnið til fyrirtækja í verslunarrekstri. Síðan skýrslan kom út hefur gengið styrkst enn meira, reyndar svo mjög að það er farið að valda útflutningsfyrirtækjum verulegum vandkvæðum, þar á meðal útflutningi á landbúnaðarvörum. En Costco er boðið velkomið á íslenskan markað og bændur vonast, eins og áður segir, eftir því að fyrirtækið geri íslenskri landbúnaðarframleiðslu hátt undir höfði. Baráttan gegn sýklalyfjaónæmi Í liðinni viku var haldin ráðstefna á vegum Matvælastofnunar um baráttuna gegn sýklalyfjaónæmi. Þar var kynnt skýrsla starfshóps heilbrigðisráðherra um málið. Ráðstefnan og skýrslan fjölluðu bæði um notkun manna og dýra á sýklalyfjum. Notkunin er fremur há hérlendis í mönnum en í lágmarki í dýrum. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að útbreiðsla sýklalyfjaofnæmis er ein helsta heilbrigðisógn sem steðjar að mönnum í dag. Þetta er mat stofnana eins og Alþjóðaheilbrigðistofnunarinnar (WHO), Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) og fleiri. Ónæmi getur borist með afurðum, en fleiri atriði skipta þar máli og fullt eins mikilvægt að fylgja þeim eftir. Það þarf að fylgjast betur með bæði innlendum og erlendum afurðum og bæta þarf hreinlætisaðstöðu fyrir ferðamenn. Almennt þarf að standa betur að gagnasöfnun og birtingu gagna er varða sýklalyfjaónæmi og áhrif þess. Síðast en ekki síst þurfa stjórnvöld að setja sér skýra stefnu í málaflokknum. Taka má undir allar þær 10 tillögur sem skýrsluhöfundar leggja til og ástæða er til þess að hvetja stjórnvöld til að hrinda þeim í framkvæmd. Fimmta hvert kjötkíló sem selt er hérlendis er innflutt Um það er ekki deilt að notkun sýklalyfja í landbúnaði er lítil hér, en það ber lítið á upplýsingum um magn sýklalyfja í innfluttu kjöti. Neytendur fá engar slíkar upplýsingar, sem þeir ættu þó skilyrðislaust að fá. Það mætti byrja á því að upplýsa um lyfjanotkun við framleiðslu þeirra 5.000 tonna af kjöti sem nú þegar eru flutt inn. Það er ekki víst að allir geri sér grein fyrir því að fimmta hvert kjötkíló sem selt er hérlendis er innflutt, sé miðað við árið í fyrra. En þetta er ekki flókið reikningsdæmi. Ef að sýklalyfjanotkun er með því minnsta sem þekkist, þá eykst magn hennar í matvælum ef flutt er inn vara annars staðar frá. Ástæða er til að hvetja neytendur til að spyrja ávallt eftir uppruna ef ekki er gerð skýr grein fyrir honum. Karl G. Kristinsson og Vilhjálmur Svansson hafa gert skýra grein fyrir áhættunni við innflutning á ferskum matvælum á fjölmennum fundum sem Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra, hefur staðið fyrir. Áhættan er veruleg og framleiðslan hérlendis býr yfir verðmætri sérstöðu vegna lítillar lyfjanotkunar. Það er vandalaust að glata henni, en við þurfum ekki að gera það ef við gleymum ekki að hugsa til hennar þegar við erum að versla. Samtök innflutningsfyrirtækja leika tveimur skjöldum Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, sem er ákaflega öflugur talsmaður þeirra innflutningsfyrirtækja sem hann starfar fyrir, fór í viðtal í tengslum við ráðstefnuna þar sem hann gerði lítið úr hættunni sem fylgir innflutningi og boðaði skýrslu frá félaginu um málið. Það er þeirra hagsmunabarátta. Barátta samtaka innflutningsfyrirtækja er gjarnan sett fram á grunni þeirra hugmynda að það þurfi meira frelsi, en þau eru samt ekki yfir það hafin að leggjast gegn því ef það hentar. Fróðlegt er að rýna í umsagnir boðbera frelsis annars vegar um frumvarp um búvörusamninga og hins vegar um opinber innkaup sem lagðar voru fram á svipuðum tíma í fyrrahaust. Ráðist var harkalega gegn búvörusamningum á grundvelli þess að markaðurinn fengi ekki að ráða öllu. Þegar kom að innkaupum hins opinbera átti það ekki við að sama skapi. Því máli var ætlað að opna leið fyrir Ríkiskaup til að taka þátt í útboðum með innkaupastofnunum annarra landa. Þá brá svo við að allir talsmenn aukins frelsis sneru við blaðinu. Ríkið væri gríðarstór kaupandi á innanlandsmarkaði og það gæti valdið miklu tjóni ef keypt yrði beint af erlendum birgjum. Hér á landi væri lítill og viðkvæmur markaður. Þekking gæti tapast, þjónustustig lækkað og lágt verð gæti leitt til aukins kostnaðar til lengri tíma litið. Taka þyrfti tillit til þess – og það var gert við afgreiðslu málsins. Innkaupum ríkisins voru settar meiri skorður en til stóð í upphafi. Landbúnaðarframleiðslan hefur ekki viljað beygja sig undir óhefta markaðshyggju. Markaðurinn ræður þó miklu – bara ekki öllu. Bændur gera ekki athugasemdir við að tekið sé tillit til innlendra hagsmuna þegar það á við, en væri ekki skynsamlegra að vera samkvæmari sjálfum sér? Ef það á að vera samkeppni þá þarf hún að vera sanngjörn og ná yfir alla, en ekki bara suma. Það er ekkert að því að nýta aðrar aðferðir ef þær skila árangri. Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands sindri@bondi.is Amerískur verslunarrisi nemur land Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 − Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Guðrún Hulda Pálsdóttir – ghp@bondi.is – Auglýsingastjóri: Ásgerður María Hólmbertsdóttir amh@bondi.is – Sími: 563 0303 – Netfang auglýsinga: augl@bondi.is – Vefur blaðsins: www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Frágangur fyrir prentun: Anna Kristín Ólafsdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.