Bændablaðið - 02.11.2017, Side 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 2. nóvember 2017
Fyrirkomulag rjúpnaveiða 2017:
Sami fjöldi veiðidaga en
leyft að veiða fleiri fugla
– Veiðimönnum hefur fjölgað
Rjúpnaveiðitímabilið hófst 27.
október. Leyfðar eru veiðar í
tólf daga, sem skiptast á fjórar
helgar til 19. nóvember, á alls 57
þúsund fuglum samkvæmt mati
Náttúrufræðistofnunar.
Miðað er við þrjá daga frá föstudegi
til sunnudags þessar fjórar helgar.
Ef miðað er við fjölda veiðimanna
í fyrra koma 5–6 fuglar í hlut hvers og
eins. Það eru 17 þúsund fleiri fuglar
en leyft var að veiða í fyrra, en að
öðru leyti er sama fyrirkomulag á milli
áranna. Rjúpnaveiðimönnum hefur
heldur fjölgað.
Sölubann áfram
Í tilkynningu umhverfis- og
auðlindaráðuneytis um fyrirkomulag
rjúpnaveiða 2017 kemur fram að
sölubann sé á rjúpum og er það
sama fyrirkomulag og verið hefur á
undanförnum árum. Umhverfisstofnun
er gert að fylgja sölubanni eftir. Hvatt
er til þess að hófsemi sé í fyrirrúmi og
miðað sé við að hver og einn veiði
ekki fleiri en fimm til sex fugla.
Hvatt til góðrar umgengni
Veiðimenn eru sérstaklega beðnir um
að gera hvað þeir geta til að særa ekki
fugl umfram það sem þeir veiða sem
hægt sé að forðast meðal annars með
því að ljúka veiðum áður en rökkvar.
Veiðimenn eru hvattir til
góðrar umgengni um landið, en
veiðiverndarsvæði er á Suðvesturlandi
líkt og undanfarin ár. /smh
Á Írlandi, í Frakklandi og í
Bretlandi er hafin þriggja ára
herferð til að fá ungt fólk á
aldrinum 25 til 30 ára til að borða
lambakjöt. Samtals verður veitt
10 milljónum evra, eða sem svarar
um 1,2 milljörðum íslenskra
króna, í verkefnið að því er segir
í frétt Global Meat.
Verkefnið var kynnt 23. október
og er rekið af írska matvælaráðinu
Bord Bia, Interbev í Frakklandi
og Agriculture & Horticulture
Development Board í Bretlandi
(AHDB). Alls koma 8,3 milljónir
evra úr sameiginlegri fjármögnun á
vegum ESB og 300 milljónir koma
frá Bord Bia á Írlandi og AHDB í
Bretlandi.
Noreen Lanigan hjá Bord
Bia segir að sem umtalsverðar
kindakjötsframleiðsluþjóðir, þá
hafi verið ákveðið að taka saman
höndum til að auka neyslu á
kindakjöti. Er það ekki síst gert til að
stöðva samdrátt í lambakjötsneyslu
sem þar hefur átt sér stað.
Líka marðmiðið að tryggja
byggð í dreifbýlinu
Lanigan er framkvæmdastjóri
Bord Bia í Frakklandi, Belgíu og í
Lúxemborg. Segir hún að markmiðið
sé að auka lambakjötsneyslu ungra
neytenda á aldrinum 25 til 35 ára um
10% á þrem árum. Er þetta jafnframt
hluti af því markmiði að fá fólk til að
meta lambakjöt sem hversdagsfæðu
og meta nauðsyn þess að halda uppi
byggð í sauðfjárræktarhéruðum
viðkomandi landa. Þá er líka ætlun
að auka hlutdeild lambakjöts á
matseðlum þjóðanna.
Virðist þetta verkefni vera mjög
í takt við það sem Markaðsráð
kindakjöts á Íslandi og Icelandic
lamb hefur verið að vinna að
á undanförnum misserum með
góðum árangri.
Ætlunin að stórauka sölu
lambakjöts
Margvíslegar uppákomur verða
samfara þessu markaðsátaki
lambakjöts á Írlandi í Frakklandi
og í Bretlandi. Nýtt verður stafræn
tækni og samfélagsmiðlar til að
koma skilaboðum á framfæri sem
og stórar auglýsingar utanhúss.
Boðið verður upp á margvíslegar
matvælakynningar, vinnufundi þar
sem sérfræðingar verða fengnir til
að fræða fólk um kosti lambakjöts.
Admin Quinney, sem situr
í nauta- og lambakjötsráði
AHDB, segir að ætlunin sé að
hver milljón evra sem sett sé í
verkefnið tryggi viðskipti með
lambakjöt upp á 10 milljónir evra,
eða tífalda upphæðina sem lögð
er til. „Þetta eru merkilegar fréttir
og mjög mikilvægt verkefni fyrir
framleiðendur. Þetta sýnir í verki
þann mikla árangur sem hægt er að
ná í nánu samstarfi við okkar vini
í Evrópu, sama hvað Brexit líður.
Þetta er mjög verðmætt samstarf
í þeirri viðleitni að kynna hversu
heilsusamlegt og næringaríkt
lambakjötið er. /Global Meat/HKr.
Írar, Frakkar og Bretar í sameiginlega herferð um sölu á lambakjöti:
Vilja auka lambakjötsneyslu og tryggja
byggð í sauðfjárræktarhéruðum
FRÉTTIR
Írar, Bretar og Frakkar verja 10 milljónum evra ásamt ESB í sérstaka þriggja
ára herferð til að auka sölu á lambakjöti. Mynd / Global Meat
Matvælastofnun veitir nýliðastyrki í landbúnaði í fyrsta sinn:
Fimm nýliðar fengu hæstu styrkina
– Hámarksupphæð fyrir hvern og einn níu milljónir króna
Matvælastofnun ve i t t i
ný liðunar styrki í landbúnaði
13. október síðastliðinn. Um
nýjan styrkjaflokk er að ræða
sem kom inn í búvörusamninga
ríkis og bænda sem tóku gildi 1.
janúar 2017. Heildarstyrkupphæð
til úthlutunar var nálægt 130
milljónum króna og fengu 24 aðilar
styrk af þeim 40 sem sóttu um.
Jón Baldur Lorange,
framkvæmdastjóri Búnaðarstofu
Matvælastofnunar, segir
að nýliðunarumsóknir hafi
undantekningarlaust verið vel
unnar en þeim þurfti til að mynda
að fylgja rökstuðningur, rekstrar-
og framkvæmdaáætlanir unnar
af fagaðila, auk upplýsinga
um menntun. „Umsóknirnar
undirstrikuðu að mikill hugur er
í ungu fólki að hefja búrekstur og
nýir búvörusamningar voru hugsaðir
til að hvetja ungt fólk til þess. Það
virðist hafa tekist þó að ekki hafi
tekist að veita öllum umsækjendum
stuðning að þessu sinni þar sem
fjármunir voru takmarkaðir. Jón
Baldur bendir þá á að hægt sé að
sækja um nýliðunarstuðning vegna
sömu fjárfestingar í allt að þrjú ár svo
fremi sem hámarksstuðningi hafi ekki
verið náð skv. búvörusamningunum
og skilyrði um stuðning séu uppfyllt.“
Gildum umsóknum forgangsraðað
Gildum umsóknum er forgangsraðað
í samræmi við stigagjöf og reglur
sem Matvælastofnun setti um
forgangsröðun. Þeir umsækjendur
sem náðu 18 stigum eða meira voru
settir í forgangshóp og fengu styrk.
Ekki var hægt að veita 12 nýliðum
styrk þar sem fjármunir voru ekki
nægir. Fjórum umsóknum var hafnað.
Styrkupphæð nýliðunarstyrkja
getur hæst orðið níu milljónir
fyrir hvern umsækjanda og ekki
meira en 20 prósent af fjárfestingu
viðkomandi. Fimm nýliðar fengu
hæsta styrk. Þeir umsækjendur sem
ekki fengu styrk eða hámarksstyrk
geta sótt aftur um á næsta ári svo
fremi sem þeir uppfylla skilyrði fyrir
nýliðunarstuðningi.
Flestar samþykktar umsóknir
voru vegna nýliðunar í sauðfjár-
og geitfjárrækt, 11 alls. Nýliðar
í blönduðum búskap eru sjö, í
nautgriparækt þrír og sömuleiðis
garðyrkju. Að sögn Jóns Baldurs
skiptust þær tæpu 130 milljónir
sem voru til úthlutunar í ár þannig,
að umsækjendur sem eru að hefja
sauðfjár- og geitfjárrækt fengu um 41
prósent af upphæðinni, um 35 prósent
til nýliða í blönduðum búskap, um
13 prósent til nýliða í nautgriparækt
og loks um 11 prósent til nýliða í
garðyrkju.
Markmið og skilyrði
nýliðunarstyrkja
Í reglugerð um nýliðunarstyrki kemur
fram að markmið stuðningsins sé að
aðstoða nýliða við að hefja búskap og
auðvelda ættliðaskipti í landbúnaði.
Þar segir einnig að framlög
til nýliðunarstuðnings beinist að
einstaklingum í eigin nafni eða til
lögaðila sem nýliði á að minnsta
kosti 25 prósenta hlut í. Skilyrði er að
viðkomandi sé á aldrinum 18–40 ára
á því ári sem óskað er eftir stuðningi.
Einnig er skilyrt að viðkomandi
sé að kaupa búrekstur eða hlut í
búrekstri í fyrsta skipti eða hafa leigt
eða keypt búrekstur innan þriggja
ára frá 1. janúar á umsóknarári, hafi
ekki áður hlotið nýliðunarstuðning
né nýliðunarstuðning í mjólkur-
framleiðslu eða bústofns kaupastyrki
til frumbýlinga í sauðfjárrækt
samkvæmt þágildandi reglum árin
2014–2016.
Styrkir veittir árlega
Matvælastofnun auglýsir
nýliðunarstuðning á hverju ári.
Umsóknum skal skila inn í rafrænt
umsóknarkerfi Matvælastofnunar,
eigi síðar en 1. maí ár hvert.
Umsóknarfrestur var lengdur tvisvar
sinnum í fyrra og var á endanum
24. júní 2017. Ekki er gert ráð fyrir
að þessi frestur verði framlengdur á
næsta ári.
Matvælastofnun er heimilt
að krefjast endurgreiðslu
nýliðunarstuðnings ef í ljós kemur
að umsækjandi hefur veitt rangar
eða villandi upplýsingar eða leynt
upplýsingum sem áhrif höfðu á
veitingu stuðnings. Hafi nýliði hætt
búrekstri innan fimm ára frá því að
nýliðunarstuðningur var síðast veittur
er Matvælastofnun heimilt að krefjast
endurgreiðslu á greiddum stuðningi,
að hluta til eða í heild sinni, ásamt
kostnaði við innheimtu. /smh
Landssamtök sauðfjárbænda
hefja innheimtu félagsgjalda
Fram til 1. janúar 2017 var
öllum sauðfjárbændum skylt
að greiða búnaðargjald.
Það var ákveðið hlutfall
af framleiðsluvirði afurða.
Hluta af búnaðargjaldinu var
ráðstafað til Landssamtaka
sauðfjárbænda (LS) og var það
helsti tekjustofn þeirra.
Eftir að búnaðargjaldið var
fellt niður ákváðu samtökin að
innheimt skyldu félagsgjöld og
hefst sú innheimta á næstu vikum.
Greiðsluseðil l verður
sendur til allra þeirra sem eru
félagar í einhverju af þeim 19
aðildarfélögum sem mynda
landssamtökin.
Kröfur munu um leið birtast í
heimabanka. Um leið verður send
út nánari kynning og upplýsingar.
Aðild að LS er valkvæð en
félagsmenn þurfa að uppfylla
eftirfarandi skilyrði samkvæmt
samþykkt aðalfundar 2017:
• Reka sauðfjárbú á lögbýlum.
• Hafi fulla aðild að einhverju
aðildarfélagi samtakanna.
• Þegar bú er rekið sem lögaðili
skal félagsaðild bundin
við þá einstaklinga sem að
búrekstrinum standa.
Félagsgjald vegna ársins 2017 er
17.000 kr. og miðast við eitt bú
en felur í sér fulla aðild fyrir tvo
einstaklinga. Einungis félagsmenn
með fulla aðild teljast fullgildir
félagsmenn og hafa kjörgengi og
kosningarétt. Aukaaðild er einnig
möguleg fyrir þá sem eru 18 ára
eða eldri, eru búsettir á Íslandi
og styðja markmið samtakanna.
Félagsgjald vegna aukaaðildar árið
2017 eru 5.000 kr.
Tilgangur Landssamtaka
sauðfjárbænda er að gæta hagsmuna
þeirra á eftirfarandi hátt:
• Að beita sér fyrir bættum kjörum
sauðfjárbænda á öllum sviðum.
• Að vera málsvari aðildarfélaga
og einstakra félagsmanna og
koma fram fyrir þeirra hönd.
• Að vinna að sölumálum
sauðfjárafurða á innlendum sem
erlendum markaði með það að
markmiði að auka verðmæti
afurðanna.
• Að vinna ötullega að mótun
ræktunarstefnu í samvinnu við
BÍ, þar með talin þátttaka í
Fagráði.
• Að stuðla að umhverfisvernd og
skynsamlegri landnýtingu.
• Að skapa tengsl og auka
samstöðu framleiðenda til
eflingar sauðfjárræktinni.
• Að koma til móts við óskir
neytenda um vöruval og
vörugæði.
Það er ljóst að tímasetning varðandi
innheimtu á félagsgjaldi gæti
sennilega ekki verið óheppilegri.
Hrun í afkomu greinarinnar gerir
öllum erfitt fyrir. Sú staða sem nú
er uppi minnir okkur þó á hversu
mikilvægt er að vinna sameiginlega
að hagsmunum allra sauðfjárbænda
og tala máli þeirra styrkum rómi. Það
er von stjórnar LS að félagsmenn
sýni samstöðu og standi vörð um sitt
fagfélag. Það gera þeir best með því
að greiða félagsgjöld og taka virkan
þátt í félagsstarfinu.
Fyrir hönd stjórnar
Landssamtaka sauðfjárbænda
Unnsteinn Snorri Snorrason,
framkvæmdastjóri