Bændablaðið - 02.11.2017, Side 6

Bændablaðið - 02.11.2017, Side 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 2. nóvember 2017 Bændablaðið kemur út 24 sinnum á ári. Því er dreift ókeypis á yfir 400 stöðum á landinu og á öll lögbýli landsins. Lesendur geta einnig gerst áskrifendur að blaðinu og fengið það sent heim í pósti gegn greiðslu. Árgangurinn kostar þá kr. 10.200 með vsk. (innheimt í tvennu lagi). Ársáskrift fyrir eldri borgarar kostar 5.100 með vsk. Heimilisfang: Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279 Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. − Málgagn bænda og landsbyggðar − SKOÐUN Verður gert allt fyrir alla eftir þessar kosningar, eða er búið að byggja upp slíkar væntingar meðal kjósenda að útilokað sé að standa við þær? Það er spurningin sem enginn getur trúlega svarað nema ný ríkisstjórn. Það má segja að væntanleg ríkisstjórn fái upp í hendurnar mikil tækifæri til umbóta í þjóðfélaginu. Fjárhagsstaða ríkissjóðs er með ágætum þótt skuldir séu enn miklar og ætti því að vera í lófa lagið að efna í það minnsta hluta af þeim væntingum sem frambjóðendur lögðu á borð fyrir kjósendur. Mönnum hefur verið nokkuð tíðrætt um bankana og tækifærið til að draga út úr þeim eitthvað af reiknuðum hagnaði til hagsbóta fyrir samfélagið. Vissulega á sá málflutningur fyllilega rétt á sér, því gríðarlegur hagnaður bankanna frá hruni er hvergi tekinn annars staðar en úr vösum almennings og fyrirtækja í landinu. Stór hluti hagnaðar bankanna eru tilbúnar tölur sem reiknaðar eru sem afrakstur af útlánum á rafkrónum inn í langa framtíð. Með öðrum orðum, þeir eru að búa til peninga úr engu, en myntútgáfa á þó samkvæmt lögum ekki að vera neinum öðrum heimil en Seðlabanka Íslands. Gróði bankanna er því kannski ekki alveg á eins öflugum grunni reistur og margir vilja vera láta. Það getur nefnilega vel verið að innheimtuvæntingarnar lendi uppi á skeri ef efnahagsumhverfið breytist til verri vegar í framtíðinni. Væntanlega hafa þeir samt oftast veð í fasteignum á móti, en reynslan hefur ítrekað sýnt að þau veð standa ekki alltaf undir fínu tölunum í bókhaldinu. Hvaða álit sem menn kunna að hafa á tilkomu gróða bankanna, þá er það hins vegar staðreynd að þeir hafa sýnt gríðarlegan hagnað frá því þeir voru endurreistir eftir hrun. Ríkissjóður kostaði þar töluverðu til og því ekki nema sjálfsagt að reynt verði að ná eins miklu út úr þessum stofnunum í þágu þjóðarinnar og mögulegt er. Kannski ekki seinna vænna, því nú berast tíðindi af væntanlegri upptöku ESB-reglugerðar á næsta ári. Henni er ætlað að setja bönkum mun strangari leikreglur hvað varðar innheimtu alls konar kostnaðar sem farið hefur algerlega úr böndum eftir hrun. Fleiri pósta mætti taka til þegar væntanleg ríkisstjórn þarf að skoða hvar eigi að fá aukna fjármuni í innviðauppbyggingu í samgöngu- og heilbrigðis- og öldrunarmálum. Það dylst engum að þar hefur ríkisvaldið verið að reyna að festa lífeyrissjóðina sem veigamikinn þátttakanda í ríkisrekstrinum. Það hefur verið gert með því að skerða bætur almannatrygginga á móti áunnum rétti vinnandi fólks í söfnun lífeyris. Sá pakki er að fara í 15,5% af tekjum sem er engin smá upphæð. Með þessari hugsun er það sannarlega engin tíund sem launþegar þurfa að greiða í ríkisreksturinn af sínum launum. Fyrir er lagt á alla launþega að greiða að frádregnum persónuafslætti frá 36,94% til 46,24%. Ef ríkið hreinsar svo út ávinninginn af söfnun launþega í lífeyrissjóði að stórum hluta, þá er verið að tala um raunverulega skattheimtu sem nemur á milli 52 til ríflega 62% af launum. Trúlega gerist skattheimtan vart svakalegri á byggðu bóli og síðan koma óbeinu skattarnir. Það er því eðlilegt að margir launþegar spyrji sig til hvers sé verið að neyða þá með lögum til að greiða í lífeyrissjóði í þeirra eigu þvert á stjórnarskrárlegan rétt þegnanna til félagafrelsis. Væri ekki nær að menn hættu þessum tvískinnungi og innheimtu einfaldlega beinan skatt í staðinn? Sumir segja að hann þyrfti ekki að vera meiri en 7–8% til að sama fengist út úr honum og lífeyrissjóðakerfið gefur í dag. Eftir stæðu launþegar þá með 7–8% meira í launaumslaginu. /HKr. Umhugsunarvert ÍSLAND ER LAND ÞITT Hjalteyri er smábyggð norðan við Akureyri á Galmaströnd í Eyjafirði. Galmaströnd er talin ná frá Hörgárósum í suðri að eyðibýlinu Hillum í norðri og er kennd við landnámsmanninn Galma. Norðmenn hófu síldarsöltun á Hjalteyri um 1880, Svíar, Þjóðverjar og Skotar bættust í hópinn og upp byggðist sjávarpláss með mörgum þorsk- og síldveiðiskipum. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út 1914 hurfu útlendingarnir á brott og Thor Jensen athafnamaður, sem tekið hafði Hjalteyri á leigu ári áður, byggði upp síldarvinnslu. Árið 1937 var byggð stór síldarverksmiðja við Hjalteyri, jafnvel sú stærsta í Evrópu samkvæmt sumum heimildum. Eftir því sem leið á 20. öldina dró úr umsvifum Thorsaranna og eftir að síldarbresturinn varð á sjöunda áratugnum var síldarverksmiðjunni lokað 1966. Mynd / Hörður Kristjánsson Kosningar eru afstaðnar og skiluðu ekki mjög afgerandi niðurstöðu um hver kjósendur vilji að sé leiðandi við stjórn landsins á næsta kjörtímabili. Nýkjörnir þingmenn standa því frammi fyrir erfiðu verkefni við að ná saman um áherslur fyrir samfélag okkar á næstu árum. Margir hafa samt haft á orði að þeim sé ljós sú ábyrgð að vinna og tala meira saman. Svo sannarlega skal tekið undir vonir um að það takist fljótt og vel. Um leið er öllum ný- og endurkjörnum þingmönnum óskað velfarnaðar í starfi og þeim sem hverfa af þingi er sömuleiðis óskað alls hins besta við ný verkefni. Stöðugleiki og fyrirsjáanleiki er nauðsynlegur Óvissa er aldrei góð í neinum rekstri og ekki síst í landbúnaðinum þar sem framleiðsluferlar eru lengri en í flestum öðrum atvinnugreinum. Stöðugleiki og fyrirsjáanleiki er landbúnaðinum gríðarlega nauðsynlegur, ef vel á að vera. Það gildir auðvitað líka um aðra atvinnustarfsemi, en þegar um er að ræða ræktun lifandi dýra og hagnýtingu náttúrugæða þá hefur það meiri þýðingu en í mörgum öðrum greinum. Þegar slitnar upp úr stjórnarsamstarfi, eins og gerðist nú í haust, þá fara mjög mörg verkefni í bið. Ríkisstjórn og Alþingi sem er að hverfa frá geta litlu komið til leiðar. Jafnvel verkefni sem allir eru sammála um stöðvast líka. Fæstir vilja taka ákvarðanir undir þeim kringumstæðum. Síðan þegar kosningum lýkur þá taka við stjórnarmyndunarviðræður sem tóku rúma tvo mánuði í fyrra, en vonandi styttri tíma nú. Meðan á þeim stendur gerist líka fátt. En svo þegar ríkisstjórn hefur verið mynduð og ráðherrar sestir í stóla sína þá þurfa þeir líka tíma til að setja sig inn í þá málaflokka sem þeim er treyst fyrir. Það getur liðið þó nokkur tími þar til að tími ákvarðana rennur upp og þá eru kannski liðnir nokkuð margir aðgerðalausir eða aðgerðalitlir mánuðir. Þess vegna er ekki sérlega skynsamlegt að kjósa á hverju hausti þó að ýmsir telji það kannski prýðilegt. Vandi bænda eykst meðan beðið er Þessar kosningar komu illa niður á vanda sauðfjárbænda í haust. Engar aðgerðir náðu fram þeim til hjálpar fyrir sláturtíðina og útilokað má telja að neitt nýtt gerist áður en henni lýkur endanlega í næstu viku. Það verður hins vegar að verða eitt af fyrstu verkefnum nýrrar stjórnar að taka þessi mál til meðferðar og komast fljótt að niðurstöðu. Vandinn hefur svo sannarlega ekki farið neitt meðan á þessari biðstöðu stóð, heldur orðið stærri. Þessa dagana eru sauðfjárbændur einmitt að berjast við að standa við skuldbindingar sínar. Eins og kom fram í viðræðum við fráfarandi stjórn og opinberlega fyrr á árinu þá eru yfirleitt stór útgjöld á gjalddaga á þessum árstíma, enda fást afurðatekjurnar greiddar þá. Nú duga þær ekki til, hvað þá að neitt sé afgangs. Þetta er að gerast núna. Mörg framboð töluðu vel til landbúnaðarins í aðdraganda kosninganna eins og fram kom í svörum þeirra við spurningum Bændablaðsins sem birtust í síðasta blaði og á bbl.is. Ástæða er til þess að hvetja lesendur til að halda þeim svörum til haga við þá flokka sem setjast munu í ríkisstjórn, eftir því sem kjörtímabilinu vindur fram. Það munu Bændasamtökin gera. Sjónarmiða landbúnaðarins gæti í nýjum stjórnarsáttmála Bændur vænta þess að þeirra sjónarmiða sem þar komu fram gæti í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, hverjir sem hana munu skipa að lokum. Það bíður svo líka ríkisstjórnarinnar að annast endurskoðun búvörusamninga árið 2019 fyrir hönd ríkisins. Áherslur ríkisins við þá endurskoðun hljóta eðlilega að byggja á því sem fram kom í áðurnefndum svörum og það skal endurtekið sem fram kom í síðasta blaði að þær áherslur þurfa enn fremur að byggja á heildarhagsmunum, ekki tilviljana- og yfirborðskenndum inngripum. Við þurfum stöðugleika og við þurfum framtíðarsýn. Bændur eru sannarlega tilbúnir til samtals um þau markmið við nýja ríkisstjórn þegar hún tekur til starfa. Sindri Sigurgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands sindri@bondi.is Ný áhöfn Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is – Sími: 563 0339 − Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is – Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is – Auglýsingastjóri: Guðrún Hulda Pálsdóttir ghp@bondi.is – Sími: 563 0303 – Netfang auglýsinga: augl@bondi.is − Vefur blaðsins: www.bbl.is − Netfang blaðsins: (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Frágangur fyrir prentun: Anna Kristín Ólafsdóttir – Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Dreifing: Landsprent og Íslandspóstur. ISSN 1025-5621

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.