Bændablaðið - 30.11.2017, Blaðsíða 4

Bændablaðið - 30.11.2017, Blaðsíða 4
4 Bændablaðið | Fimmtudagur 30. nóvember 2017 Íbúar við Öræfajökul rólegir yfir jarðhræringum en samt vel meðvitaðir um mátt eldfjallsins: Öflugir jarðskjálftar taldir gefa fólki nægan fyrirvara ef eitthvað gerist FRÉTTIR Örn Bergsson, bóndi á Hofi í Öræfum, er vel meðvitaður um hvað geti gerst ef Öræfajökull tekur upp á því að gjósa. Hann segir íbúa á svæðinu þó taka hræringum í fjallinu af stakri ró og gos muni líklega gera boð á undan sér með nokkurra daga fyrirvara. „Það er allt í lagi að anda bara með nefinu, því það er ekkert öruggt að fjallið gjósi,“ sagði Örn í samtali við Bændablaðið síðastliðinn þriðjudag. Nær þessu risavaxna eldfjalli er vart hægt að komast en á Hofi þar sem Örn býr. „Þetta er eiginlega hérna í dyragættinni hjá mér.“ Stórt hamfaragos ólíklegt Örn segir að fólk á svæðinu sé vel meðvitað um mátt fjallsins. „Það hefur alla tíð verið mikið rætt á mínu heimili um þau stóru gos sem hér hafa orðið. Ef það verða fyrirboðar, eins og í gosinu 1727, þá hafa menn góðan fyrirvara. Samkvæmt heimildum voru þá búnir að vera töluvert miklir skjálftar í að minnsta kosti einhverja daga áður en gosið hófst. Þá segja vísindamenn að hamfaragos eins og var í Öræfajökli 1362 eigi mun lengri aðdraganda. Ólíklegt sé að slíkt gerist nema á þúsund ára fresti. Samt telja menn nauðsynlegt að fólk sé við öllu búið. Þar er fyrst og fremst verið að hugsa um að tryggja mannslíf.“ Fundað með íbúum Almannavarnir og aðrir viðbragðs- aðilar héldu fund með íbúum á svæðinu í Hofgarði mánudaginn 27. nóvember. Þar voru kynnt drög að viðbragðsáætlun ef koma þyrfti til skyndirýmingar. Örn segir að auk um 100 skrásettra íbúa, þá sé margfaldur sá fjöldi sem starfar við ferðaþjónustu á svæðinu. Sem dæmi þá starfa um 60 manns á nýja hótelinu á Hnappavöllum. Auk þess séu um eða yfir 2.000 ferðamenn á svæðinu á hverjum einasta degi. Vantar fleiri þenslumæla Sagði Örn að á fundinum hafi svo sem ekki komið fram neitt nýtt, en talsverð óvissa er varðandi það hvað sé að gerast í jöklinum. Lítið hafi verið fylgst með jöklinum fyrr en eftir seinni hluta síðustu aldar. Á fundinum hafi verið staðfest að landris væri að eiga sér stað. Hins vegar skorti fjármagn til að setja upp fleiri þenslumæla til að fylgjast betur með því. Nauðsynlegt að bæta farsímasamband Örn sagði að það hafi líka komið fram á fundinum að farsímasambandið er mjög gloppótt á svæðinu við jökulinn. Íbúar telji að það þurfi að lagfæra hið bráðasta. „Það var farið yfir þessa rýmingaráætlun og skyndirýmingu. Þeir segja að stórt gos muni eiga lengri aðdraganda og það ætti að vera hægt að sjá fyrirboða með nokkurra daga fyrirvara. Vísindamenn telja að það muni verða jarðskjálftar á undan hugsanlegu gosi. Ef slíkt gerist og hættuástand verður boðað, er meiningin að rýma svæðið og flytja allt fólk í burtu.“ Örn segir að það fari eftir staðsetningu hvort fólk verði flutt til vesturs eða austurs, en í byggðinni við Hof fer fólk í vesturátt. „Svo er hugmyndin að flytja líka í burtu allt búfé. Þá á að halda sérstakan fund með fjáreigendum hér á næstunni, en á svæðinu eru tæp fjögur þúsund fjár á fóðrum. Það er alveg ókannað hvernig að þessu yrði staðið og eins hvar hægt yrði að koma fénu fyrir. Engir nautgripir eru á svæðinu, en um 100 hross. Við sjáum það í hendi okkar að svona rýming getur haft mikil áhrif á samfélagið hér og hugsanlega í langan tíma. Dæmi um slíkt er t.d. á eyjunni Balí sem hefur verið í fréttum að undanförnu að þar var byrjað að flytja fólk á brott í september. Nú er eldfjallið [Agung] loks farið að gjósa, einum og hálfu mánuði síðar,“ sagði Örn Bergsson. /HKr. Örn Bergsson. Öræfajökull. Þessi mynd var tekin í um 30 þúsund feta hæð suður af þessu risastóra eldfjalli þann 8. nóvember árið 2006. Myndir / HKr. Opinn fundur á Hvanneyri vegna dóms EFTA um innflutning á landbúnaðarafurðum: Hættan á sýklalyfjaónæmi mun vaxa og tíðni kampýlóbaktersýkinga stóraukast – Gera þarf formlega áhættugreiningu fyrir Ísland Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) og Bændasamtök Íslands stóðu fyrir opnum fundi í húsakynnum skólans á Hvanneyri föstudaginn 24. nóvember síðastliðinn. Tilefni fundarins var dómur EFTA- dómstólsins sem féll á dögunum þess efnis að íslenskum yfirvöldum væri óheimilt að banna innflutning á fersku kjöti, ferskum eggjum og afurðum úr ógerilsneyddri mjólk. Þótt innflutningur á ógerilsneyddri mjólk verði heimill verður markaðssetning ekki leyfð hér á landi, þar sem á Íslandi eru í gildi almenn skilyrði um markaðssetningu á ógerilsneyddum mjólkurvörum. Sigurður Eyþórsson, fram- kvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, fór sögulega yfir hvernig Ísland varð aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) árið 1994 og síðan að matvælalöggjöf Evrópusambandsins (ESB) með gildistöku 2010–2011. Í fyrstu útgáfu matvælafrumvarpsins árið 2007 átti að leyfa innflutning á ófrystu kjöti en vegna harðra viðbragða bænda tókst að koma reglum inn í matvælafrumvarpið um bann við innflutningi á hrávöru eins og eggjum, kjöti og ógerilsneyddri mjólk – nema með sérstökum leyfum. Þær reglur byggðu meðal annars á 13. grein samningsins um EES; að grípa megi til aðgerða til að vernda heilsu manna og dýra. Sigurður sagði að í ljósi niðurstöðu EFTA-dómstólsins verði Alþingi að breyta íslenskum lögum í samræmi við dóminn. Skylt að upplýsa um hætturnar Karl G. Kristinsson, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans og prófessor við Háskóla Íslands, spurði í yfirskrift erindis síns hvort lýðheilsu Íslendinga stafaði hætta af innflutningi á ferskum matvælum. Hann byrjaði á að taka það sérstaklega fram að málflutningur hans væri algjörlega óháður nokkrum hagsmunaöflum, honum bæri einfaldlega skylda sem prófessor í sýklafræði að upplýsa landann um þær hættur sem geta stafað af auknum innflutningi af ferskum matvælum. Hann sagði að meiri áhætta tengd neyslu á erlendum eða innlendum matvælum geti verið vegna þess annars vegar að viðkomandi matarsýklar eru ekki til á Íslandi eða hins vegar að viðkomandi sýklar eru sjaldgæfari í íslensku búfé og/eða landbúnaðarafurðum en erlendum. Hann sagði að á Íslandi væri ekki nema brot þeirra súnusjúkdómatilfella sem eru landlægar í Evrópu, en súnur eru sjúkdómar sem geta verið bæði í mönnum og dýrum. Karl sagði að ein algengasta orsök niðurgangs í heiminum væri kampýlóbaktersýking. Í verstu tilvikum hefði hún í för með sér ristilbólgur og örsjaldan jafnvel öndunarlömun. Algengasta smitleiðin í mannfólk væri í gegnum kjúklinga. Hann vék svo talinu að salmonellu, en árið 1979 var bannað að selja ferska kjúklinga á Íslandi vegna salmonellusmita. Aðgerðir til að útrýma salmonellu úr kjúklingum hófust árið 1992 og góður árangur leiddi til þess að aftur var leyft að selja ferska kjúklinga haustið 1995. Sala á ferskum kjúklingum fór stigvaxandi, en árið 1999 var kominn faraldur kampýlóbaktersýkinga á Íslandi – og raunar flest skráð tilfelli í heiminum. Farið var í mikið átak, sem fólst að miklu leyti í eftirliti á alifuglabúunum, og það leiddi til þess að hægt var að stoppa faraldurinn. Fáum árum síðar var staðan aftur orðin eins og hún var fyrir faraldurinn. Karl sagði síðan frá áliti EFSA, Eftirlitsstofnunar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Evrópu- sambandsins, um kampýló bakter- sýkingar. Þar kemur fram að um níu milljónir tilfella eru skráð í Evrópu á ári hverju. Um 50–80 prósent tilfella tengjast kjúklingum og mikilvægt sé að fækka þeim tilfellum. Frysting í tvær til þrjá vikur getur minnkað áhættu á smiti um meira en 90 prósent. Að sögn Karls er staðan í Evrópu þannig að flest lönd leiti ekki að kampýlóbakter í kjúklingum, því séu engin vottorð til um slíkt eins og eru til um salmonellu. Vegna reglugerða á Íslandi og góðs eftirlits í alifuglaeldinu sé því staðan sú að lægsta nýgengi kampýlóbakter í Evrópu er á Íslandi og hið sama á við um salmonellu og svokallaða „hamborgarabakteríu“ (STEC/EHEC E.coli) sem getur valdið blóðugum niðurgangi og nýrnabilun – en hún hefur ekki fundist í íslensku búfé. Karl telur því að áhrifin af innflutningi á fersku kjöti muni verða að kampýlóbaktersýkingum muni fjölga mjög mikið ef erlendir kjúklingaframleiðendur sem verslað er við, fylgi ekki sömu reglum og þeir íslensku þurfa að gera. Reikna megi líka með fjölgun salmonellusýkinga og tilfellum sýkinga af völdum hamborgarabakteríunnar. Aðrir sýklar kunni einnig að gera vart við sig. Hættan af sýklalyfjaónæmi vex Það sem er aðalmálið, að mati Karls, er hins vegar hættan af sýklalyfjaónæmi sem muni vaxa með auknum innflutningi. Vegna þess hversu kjötframleiðsla í heiminum fer vaxandi – og verksmiðjubúskapur samhliða – þá aukist sýklalyfjanotkun í landbúnaði í takt við þá þróun. Hann sagðist meta hættuna mesta, af því að sýklalyfjaónæmi berist með matvælum til Íslands, af innflutningi frá löndum með mengað umhverfi og mikla sýklalyfjanotkun í landbúnaði. Skortur sé þó á rannsóknum og áhættugreiningu, en áhættan sé líklega mest tengd innflutningi á salati og öðru fersku grænmeti, alifugla- og svínakjöti. Nánar verður greint frá öðrum erindum fundarins í næsta tölublaði; þeirra Vilhjálms Svanssonar, dýralæknis á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum, Ólafs Valssonar dýralæknis og Þorvaldar H. Þórðarsonar, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Matvælastofnunar. /smh og veirufræðideildar Landspítalans.stjóri Bændasamtaka Íslands.
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.