Bændablaðið - 30.11.2017, Blaðsíða 14
14 Bændablaðið | Fimmtudagur 30. nóvember 2017
FRÉTTIR
Úttekt á fóðureftirliti á Íslandi á vegum Eftirlitsstofnunar EFTA:
ESA gerir athugasemdir við nokkur atriði
– Matvælastofnun hefur þegar brugðist við og unnið er að úrbótum í samræmi við úrbótaáætlun
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)
gerði úttekt á fóðureftirliti
á Íslandi dagana 8.–17. maí
síðastliðna og nýverið birtist
skýrsla um hana. Í niðurstöðum
hennar eru gerðar athugasemdir
við nokkur atriði í eftirlitskerfi
Matvælastofnunar, sem er lögbært
yfirvald fóðureftirlits á Íslandi,
þar sem ekki var tekið tillit til
allra áhættuþátta sem verða í
fóðurframleiðslu.
Megintilgangur úttektarinnar
var að kanna hvort opinbert
eftirlit með fóðri væri til staðar
á Íslandi og hvort því væri
sinnt í samræmi við löggjöfina
á Evrópska efnahagssvæðinu
(EES). Matvælastofnun hefur
þróað eftirlitskerfi fyrir opinbert
eftirlit, sem byggt er á áhættumati
og skriflegum verkferlum sem
eiga að tryggja sanngjarna tíðni
eftirlitsheimsókna og samræmt
eftirlit.
Hvernig er komist hjá
of mikilli díoxínmengun?
Eftirlitsaðilar ESA fundu veikleika í
innra eftirliti nokkurra fóðurfyrirtækja
sem þurrka fóðurefni beint með
dísilbrennurum. Sérstaklega er bent
á að ekki voru til skriflegir verkferlar
(gæðahandbækur) sem sýna fram á
hvernig fyrirtækin komi í veg fyrir að
díoxínmengun fari upp fyrir leyfileg
mörk samkvæmt EES löggjöf.
Athugasemdir við eftirlit með
fóðurverksmiðjum
Gerðar eru athugasemdir við að
Matvælastofnun gangi ekki úr
skugga um að fóðurverksmiðjur
geri tilskildar athuganir til að
koma í veg fyrir krossmengun og
að þær tryggi að fullu einsleitni
fóðurblandna; jafna blöndun
aukefna í fóðurblöndum.
Sérstaklega var á það bent að
Matvælastofnun meti ekki til fulls
hvort aðgerðir fóðurfyrirtækja til að
lágmarka hættuna á krossmengun
séu fullnægjandi til að ganga úr
skugga um að efni eins og hníslalyf
berist ekki í fóðurblöndur þar sem
þau eiga ekki að finnast. Hníslalyf
mega einungis vera í fóðri fyrir
kjúklinga og kalkúna í vexti; allt að
þremur dögum fyrir slátrun, en mega
ekki vera í fóðri fyrir aðrar tegundir.
Gerðar voru athugasemdir við
að ekki kom nógu skýrt fram hjá
framleiðendum fiskimjöls og lýsis
að gerðar séu tilskildar rannsóknir
á díoxíni í þessum afurðum í
samræmi við reglugerðarákvæði.
Sambærilegar athugasemdir eru
gerðar við framleiðslu hjá nokkrum
framleiðendum fóðurblandna,
þar sem ekki eru til verkferlar
sem eiga að tryggja að díoxín í
fóðurblöndum fari ekki yfir leyfð
mörk. Þá vantaði rannsóknir hjá
nokkrum rekstraraðilum á hráefnum
og afurðum til að sýna fram á að
magn díoxíns í þeim væri undir
öryggismörkum.
Vantar að skrá fyrirtæki
sem fóðurfyrirtæki
Ekki hafa öll fyrirtæki sem sjá um
sölu á fóðri og fóðurefnum verið
skráð hjá Matvælastofnun sem
fóðurfyrirtæki og einnig vantar
eitthvað upp á að allar starfsstöðvar
og verslanir, sem selja fóður fyrir
dýr í matvælaframleiðslu, séu
skráðar hjá Matvælastofnun. Sams
konar skráningu vantaði líka fyrir
heildsala með fiskolíu og fiskimjöl;
sem þurfa að vera skráð sem
fóðurfyrirtæki.
MAST hefur þegar brugðist við
Matvælastofnun hefur þegar
brugðist við þessum athugasemdum
og unnið með fyrirtækjunum
að úrbótum á þessum þáttum
í samræmi við tímasetta
úrbótaáætlun, sem kemur fram í
viðauka skýrslunnar. Þar er gert
ráð fyrir að flestar úrbætur verði
komnar til framkvæmda í lok árs
2017. /smh
Háskóli Íslands fær styrk til rannsókna á virðiskeðjum matvæla
– Allt skoðað frá vinnslu grunnhráefna til lokaafurða á neytendamarkaði
Háskóla Íslands hefur verið
úthlutað 140 milljóna króna
styrk úr rannsóknaáætlun
Evrópusambandsins (ESB)
til rannsókna á virðiskeðjum
matvæla.
Rannsóknaráætlunin er kennd við
Horizon 2020 og ná rannsóknirnar
allt frá vinnslu grunnhráefna til
lokaafurða á neytendamarkaði.
Verkefnið sem nú er styrkt kallast
VALUMICS og fer Háskóli Íslands
með yfirumsjón með því.
Fjölþjóðlegu verkefni
sem lýkur í maí 2021
Heildarstyrkur til verkefnisins er um
770 milljónir króna en um alþjóðlegt
samstarfsverkefni 19 stofnana frá
14 Evrópulöndum er að ræða ásamt
því sem tveir háskólar frá Asíu veita
verkefninu liðveislu.
Vísindamenn, sérfræðingar,
kennarar og doktorsnemar innan
Háskóla Íslands munu sinna
fjölbreyttum rannsóknum sem
tengjast verkefninu. Sigurður
G. Bogason hefur umsjón með
verkefninu, sem hófst formlega
í júní síðastliðinn og mun ljúka í
maí 2021. „Háskóli Íslands hefur
heildarstýringu verkefnisins á sinni
könnu og ég leiði verkefnið og er
megintengiliður VALUMICS við
ESB.
Varðandi framkvæmdina og
mögulega snertifleti þá er verið
að undirbyggja vettvang fyrir
hagsmunaaðila verkefnisins, en þar
eru allir aðilar í virðiskeðjunni sem
hafa áhuga velkomnir að borðinu.
Hann er þá hugsaður bæði til að
fá upplýsingar og fréttir – og á
ákveðnum stigum verður úrtaki
þeirra boðið til skrafs og ráðagerða
á fundum til að fá innsýn þeirra um
það sem VALUMICS er að vinna
að á hverjum tíma,“ segir Sigurður.
Ætlað að auka skilning á
samhengi virðiskeðjunnar
Verkefninu er ætlað að
auka skilning á samhengi í
virðiskeðju matvælaframleiðslu; í
framleiðslu- og dreifingarferlum,
ákvörðunarferlum varðandi
dæmigerð fæðukerfi. Þar verður
skoðað ferlar framleiðslu, dreifingar
og sölu til dæmis á mjólk og
nautgripakjöti, fiskeldisafurðum,
korni, lambakjöti og fleiru.
Þá verður skoðað samspil aðila
innan virðiskeðja og hvernig
verðlagning á sér stað og hver
áhrif eru til dæmis á bændur,
dreifendur, verslanir og neytendur.
Þá verður valdstyrkur aðila
varðandi verðmyndun og samspil
eftirspurnar og framleiðslugetu
einnig rannsakað.
Reyndar eru spurningarnar æði
margar sem reynt verður að svara
og greina og hvernig löggjöf og
regluverk spilar inn í ferlana. Það
eru margir áhrifaþættir sem geta
bætt sjálfbærni matvælaframleiðslu
á Íslandi.
Í verkefninu verður allt skoðað
frá vinnslu grunnhráefna til
lokaafurða á neytendamarkaði – og
sérhvert stig sem matvælin ganga í
gegnum á þeirri leið verður skoðað
ofan í kjölinn.
Það eru ófáir hlekkir sem mynda
keðjuna frá bónda til neytenda
og eru ýmsir þættir sem hafa
áhrif á ákvarðanir í þessu flókna
ferli. Það eru líka margvísleg
utanaðkomandi öfl sem geta haft
áhrif á virðiskeðjur matvæla, ekki
síst pólitísk þar sem ákvarðanir
geta í ákveðnum tilvikum verið
teknar án fullnægjandi yfirsýnar,“
segir Sigurður.
Nýrri aðferðarfræði beitt
Hingað til hafa rannsóknir á
virðiskeðjum matvæla að mestu
einskorðast við efnahagslega
þætti. Að sögn Sigurðar verður
ný aðferðafræði þróuð fyrir
þetta verkefni, sem felur í sér að
nálgast virðiskeðjur matvæla með
heildaryfirsýn þar sem gerð verður
grein fyrir samspili þeirra fjölmörgu
þátta sem snert geta ákvarðanir innan
virðiskeðjanna, svo sem á sviði
efnahags-, félags- og umhverfismála.
Með niðurstöðunum munu fást
gögn sem gagnast öllum þeim
sem þurfa að taka ákvarðanir
sem geta haft áhrif á virðiskeðjur
matvæla. Í þeim hópi eru
meðal annars matvælafyrirtæki,
matvælaframleiðendur, þjónustu-
og flutningsaðilar í matvælaiðnaði,
neytendur og stjórnvöld. /smh
Að VALUMICS-verkefninu koma fulltrúar frá 19 stofnunum í 14 Evrópulöndum ásamt því sem tveir háskólar frá Asíu
veita verkefninu liðveislu. Mynd / Háskóli Íslands
Sigurður G. Bogason hefur umsjón
með verkefninu.
Ísland og Kýótó-bókunin:
Losun verður líklega umfram heimildir
Á dögunum tilkynnti umhverfis-
og auðlindaráðuneytið um að
Umhverfisstofnun hefði skilað
ráðuneytinu greiningu á stöðu
Íslands gagnvart skuldbindingum
sínum á öðru tímabili Kýótó-
bókunarinnar sem nær yfir árin
2013-2020.
Útlit er fyrir að Ísland verði
ekki innan heimilda á tímabilinu
og þurfi að kaupa heimildir sem
nemi um 3,6 milljónum tonna af
koldíoxíðígildum.
Verð á þessum heimildum hefur
verið í sögulegu lágmarki, eða í
kringum 0,2 evrur á tonnið, en var
hæst árið 2008 þegar það var í 20
evrum.
Í tilkynningu ráðuneytisins kemur
fram að íslensk stjórnvöld þurfi
ekki að gera upp tímabilið fyrr en
eftir að allar upplýsingar um losun
á tímabilinu liggja fyrir, líklega í
kringum árið 2023.
Sameiginleg markmið með
Evrópusambandinu
Ísland gerði samkomulag við
Evrópusambandið um sameiginlega
þátttöku og markmið 29 ríkja innan
ramma Kýótó-bókunarinnar, um 20
prósent minnkun losunar til 2020
miðað við 1990.
Skuldbindingar Íslands eru
tvíþættar samkvæmt upplýsingum
um ráðuneytinu. Um 40 losunarinnar
fellur innan viðskiptakerfis
ESB (ETS); þar sem fyrirtæki,
einkum í stóriðju, fá úthlutað
heimildum og þurfa að standa við
skuldbindingar. Önnur losun (svo
sem frá samgöngum, landbúnaði,
sjávarútvegi og meðferð úrgangs)
er á ábyrgð stjórnvalda. Íslensk
stjórnvöld fá úthlutað heimildum
fyrir losun utan ETS samkvæmt
samkomulaginu við ESB og þarf
losun 2013–2020 að vera innan
þeirra marka, en ella þarf Ísland að
kaupa heimildir. Íslandi er þó heimilt
að nýta bindingarheimildir sem verða
til við skógrækt og landgræðslu sem
binda kolefni úr andrúmslofti.
Minni binding
en gert var ráð fyrir
Fram kemur í tilkynningu
ráðuneytisins að ástæðurnar
fyrir því að Ísland fer líklega
yfir losunarheimildir séu tvær.
Annars vegar er útlit fyrir að
kolefnisbinding í skógrækt og
landgræðslu verði minni en gert
var ráð fyrir í aðgerðaáætlun árið
2010.
Hins vegar er ljóst að mikil
aukning í komum ferðamanna til
Íslands og hagvöxtur vegna þess
hefur áhrif á losun, meðal annars frá
samgöngum og byggingariðnaði.
Losun í sjávarútvegi hefur minnkað
verulega frá 1990, en lítið breyst í
landbúnaði. /smh