Bændablaðið - 30.11.2017, Blaðsíða 8

Bændablaðið - 30.11.2017, Blaðsíða 8
8 Bændablaðið | Fimmtudagur 30. nóvember 2017 FRÉTTIR Snorri Sigurðsson er orðinn yfirmaður Miðstöðvar mjaltatæknimála í Peking – Miðstöðin er samstarfsverkefni risafyrirtækisins Arla og Mengniu sem er að mestu í eigu kínverska ríkisins Snorri Sigurðsson, sem starfað hefur við mjólkurgæðaráðgjöf fyrir SEGES í Danmörku undanfarin fimm ár, tók við nýju starfi sem yfirmaður Miðstöðvar mjaltatæknimála í Peking. Miðstöðin er samstarfsverkefni afurðafyrirtækjanna Arla, sem er mjólkursamsala 12 þúsund kúabænda í Norður-Evrópu, og Mengniu, sem er næststærsta afurðastöðin í Kína með um 10 milljarða lítra innvegna mjólk á ári. Mengniu er hlutafélag sem Arla á hlut í en stærsti einstaki hluthafi Mengniu er kínverska ríkið, í gegnum matvælarisann COFCO sem kínverska ríkið á að fullu. Miðstöð mjaltatæknimála hefur það hlutverk að miðla þekkingu og reynslu frá Danmörku á sviði mjólkurframleiðslu til Kína og hefur verið starfrækt í fimm ár. Hún var stofnuð á grunni viljayfirlýsingar kínversku og dönsku ríkisstjórnanna um aukið faglegt samstarf á sviði landbúnaðar. Snorri er lesendum Bænda- blaðsins að góðu kunnur sem fastur pistlahöfundur um langt árabil. Þá hefur hann einnig unnið náið með íslenskum bændum í gegnum árin, ekki síst í gegnum Landssamband kúabænda. Bændablaðinu lék forvitni á að vita hvað hafi valdið þessum vistaskiptum hjá Snorra. Hófst með faglegum verkefnum í Kína – Nú varstu í góðri stöðu í Danmörku, hvernig og hvenær atvikaðist það að þú ákvaðst að stökkva á þetta tækifæri? „Ég hef undanfarin fimm ár unnið við mjólkurgæðaráðgjöf fyrir SEGES og í tengslum við þá vinnu hef ég ferðast töluvert um og unnið að faglegum verkefnum í öðrum löndum en Danmörku, m.a. í Kína. Þáverandi fulltrúar Mjalta tæknimiðstöðvarinnar leit- uðu til SEGES á sínum tíma og óskuðu eftir að fá nokkra ráðgjafa til Kína í nokkur skipti og ég var einn af þeim. Þar sá ég m.a. um endurmenntunarnámskeið fyrir bæði ráðgjafa, dýralækna og starfsfólk frá nokkrum af stærri kúabúnum í Kína. Þá bauðst mér einnig að heimsækja nokkur af stærri búum landsins til þess að aðstoða við ákveðin verkefni á búunum sem sneru að mjólkurframleiðslunni svo ég þekki aðeins til þessara mála og ráðamenn mjólkurgæðamálanna í Kína þekktu til mín einnig. Þessi vinna fyrir Mjalta- tæknimiðstöðina leiddi svo til þess að sl. vor var eftir því leitað hvort ég fengist til þess að taka að mér starf framkvæmdastjóra miðstöðvarinnar og mér fannst tilvalið að slá til enda einstakt tækifæri í boði að flytja til framandi lands og ólíklegt að slíkt tækifæri bjóðist síðar. Þá trúi ég því líka að ég geti látið gott af mér leiða og að við getum náð miklum árangri með þann einstaka stuðning sem við höfum, bæði frá hinu opinbera en einnig frá þessum tveimur öflugu afurðafélögum sem standa á bak við þessa miðstöð.“ Vinna náið með langstærsta matvælafyrirtæki Kína – Hvað felur verkefnið í sér og hvar verður þú staðsettur? „Höfuðstöðvar okkar eru í Peking, í húsi þar sem einnig er rekin þróunarvinna COFCO. Við vinnum náið með þeim og það er gulls ígildi enda er COFCO langstærsta matvælafyrirtækið í Kína og verulega áhrifaríkt. Þaðan mun ég svo sjá um að stýra þeim verkefnum sem ég og mitt fólk vinnur að á hverjum tíma en verkefnin eru t.d. að bæta mjólkurgæðin í það heila, bæði þegar horft er til líftölu mjólkur en einnig frumutölu. Að vinna að bættum aðbúnaði og dýravelferð sem og að sinna endurmenntun og fræðslu til fagfólks í landbúnaði. Þetta eru umfangsmikil verkefni og á bak við þau eru mörg minni verkefni sem hvert um sig hefur upphaf og endi eins og gefur að skilja. Miðstöðin hefur verið rekin í fimm ár og m.a. yfirfært danska gæðastaðla kúabúa yfir á kínverskar aðstæður, sent bók um stöðluð vinnubrögð á öll kúabú, staðið fyrir ráðstefnum og alls konar uppákomum og svona mætti lengi telja. Í dag erum við svo með eitt sérlega áhugavert verkefni í gangi en það er þýðing og staðfæring á danskri hönnunarbók um fjós og aðbúnað gripa. Þessi bók nýtist öllum sem eru að byggja eða breyta og mun vonandi hafa afar góð áhrif til lengri tíma litið á aðbúnaðarmál nautgripa hér í Kína. Þó svo að við séum með höfuðstöðvarnar í Peking þá verðum við mikið á ferðinni enda mjólkurframleiðsla landsins dreifð um þetta stóra land, sem er jú einungis lítið eitt smærra en Evrópa. Við sem erum í höfuðstöðvum Mjaltatæknimiðstöðvarinnar erum ekki svo mörg, enda snýst reksturinn á þessari miðstöð fyrst og fremst um að koma verkefnum af stað og sjá til þess að þau gangi og fá fagfólk frá Danmörku hingað til þess að sjá um verkefnin, líkt og þegar ég kom hingað sjálfur fyrst.“ Eiginkonan og dóttirin flytja líka – Er þetta verkefni tímasett og hvað þýðir það fyrir þína fjölskylduhagi? „Já, ég er reyndar með fastráðningu hjá höfuðstöðvum Arla í Viby í Árósum en er svo með starfsstöð í Kína næstu þrjú árin til að byrja með, með möguleika á framlengingu ef ég kýs svo. Varðandi fjölskylduhagina þá vorum við svo „séð“ að eignast börn þegar við vorum ung svo okkar yngsta er rétt að verða 20 ára núna. Það gerir þetta mun auðveldara fyrir okkur og um áramótin mun eiginkona mín, Kolbrún Anna Örlygsdóttir, flytja hingað út ásamt dóttur okkar. Kolbrún hyggur á nám í kínversku og svo e.t.v. að skoða möguleika á því að vinna og dóttir okkar ætlar að skoða námsmöguleikana hér í Peking, en þeir eru margir enda búa hér rúmlega 22 milljónir manna. Synir okkar tveir, sem einnig eru í Danmörku í skóla og við störf, munu svo sjá um hús og bíl á meðan við erum í Kína. Við gerum svo auðvitað ráð fyrir því að fara reglulega heim, s.s. á helstu hátíðum og svo notum við helstu samfélagsmiðla til að halda tengslunum svo þetta verður vonandi auðvelt fyrir alla.“ Ólíkt umhverfi, sérstaklega í frumframleiðslunni – Er umhverfi mjólkuriðnaðarins sem þú ert að fara í þarna í Kína ekki talsvert ólíkt því sem þú þekkir í Danmörku og á Íslandi? „Jú, það er það og sérstaklega hvað snertir frumframleiðsluna þar sem sum búanna eru í eigu afurðastöðvanna og svo eru til samvinnubú þar sem nokkrar fjölskyldur eiga saman eitt fjós þar sem er mjólkað og svo fer hver með sína kú eða kýr til síns heima eftir mjaltir. Þá er algengt að flytja hér ókælda mjólk svo hér er að segja má allur skalinn í framleiðslunni, allt frá afar gamaldags vinnubrögðum og upp í háþróuð kúabú með mörg þúsund kúm og reyndar upp í það að vera með tugi þúsunda af kúm á sama búinu. Þessi mikli breytileiki breytir þó ekki eðli starfsins sem vinna þarf. Það þarf að sinna kúm jafn vel á litlum búum sem stórum og mjólkina þarf að meðhöndla eins, hvort sem maður framleiðir 20 lítra á dag eða 20 þúsund lítra. Það er það sem gerir þetta svo skemmtilegt og áhugavert fyrir mig a.m.k. Þá er líklega mesti munurinn á danskri og kínverskri mjólkurframleiðslu afstaða fólks til vinnu og vinnuframlags. Í Danmörku er alltaf mest lagt upp úr skilvirkni vinnutímans og að afkasta sem mestu en ég hef það á tilfinningunni að í Kína sé þetta dálítið mikið öðruvísi og að skilvirkni þurfi ekki endilega að vera tengd við vinnuframlag. Þetta verður stórt verkefni á næstu árum að takast á við. Það er m.a. að vegna þessa munar á framleiðslumálum að kínverska ríkið styður þetta verkefni okkar enda hefur þeim verið gerð grein fyrir því í hverju munurinn á mjólkurframleiðslu landanna liggur. Þá er meðalnyt danskra kúa t.d. sú hæsta í Evrópu og hvergi í heiminum eru fleiri mjólkurlítrar framleiddir á hverja vinnustund á kúabúi svo dæmi sé tekið. Danir hafa einnig verið leiðandi á sviði umhverfismála í landbúnaði og er t.d. dönsk mjólkurframleiðsla með lægsta kolefnisfótspor á hvern framleiddan mjólkurlítra í hinum vestræna heimi. Þá tel ég að einn af stærstu skýringarþáttum þess að dönsk mjólkurframleiðsla er svona framarlega er að menntastig danskra kúabænda er langtum hærra en gerist og gengur, enda er skylda að vera með landbúnaðarmenntun ætli maður í búskap. Þetta hefur gert það að verkum, að mínu mati, að bændurnir eru einhvern veginn opnari fyrir ráðgjöf og eru alltaf leitandi að leiðum til að bæta sig og sinn rekstur.“ Kínverskt meðalbú er með um 150 kýr – Hvað er meðalbúið í Kína stórt og hvað er mjólkurframleiðsla Kínverja mikil í dag? „Hér er afar mikill breytileiki á bústærð en undanfarin ár hefur búum með færri en 50 kýr fækkað hratt og stærri búin stækkað hraðar. Eftir því sem ég best veit er meðalbúið nú með um 150 kýr og með árlega framleiðslu í kringum 1 milljón lítra. Árleg mjólkurframleiðsla í Kína er um 35 milljarðar lítra sem er auðvitað mjög mikið miðað við íslensku mjólkurframleiðsluna en ef við horfum til stærðar Kína og fólksfjöldans hér þá er þetta í raun afar lítil framleiðsla og ekki nema um 27 lítrar á hvern íbúa á meðan íslenska framleiðslan er rúmlega 450 lítrar á hvern íbúa og sú danska um 930 lítrar á hvern danskan þegn. Við eigum því töluvert í land í Kína en markaðurinn fyrir mjólkurvörur vex ört nú um stundir og getur heimaframleiðslan engan veginn svarað þörfinni. Því nemur innflutningurinn töluverðu og er í dag einhvers staðar í kringum 25% af neyslunni. Það er staða sem verður áfram en þar sem markaðurinn er að aukast þarf heimaframleiðslan að vaxa með. Fyrir því liggur m.a. ákvörðun kínversku ríkisstjórnarinnar um að vegna fæðuöryggissjónarmiða megi innflutningur ekki fara yfir 30%, þ.a. innanlandsframleiðslan á að standa undir a.m.k. 70% neyslunnar í vöruflokknum mjólkurvörur. Þetta þýðir í raun að miðað við aukna eftirspurn hér nú um stundir þá þarf framleiðslan að vaxa um u.þ.b. milljarð lítra á ári næstu árin. Það eru því næg verkefni framundan hjá okkur sem vinnum í ráðgjöfinni.“ Skrifar áfram í Bændablaðið, en frá kínverskum sjónarhóli – Nú hefur þú bæði skrifað pistla í Bændablaðið og einnig verið fararstjóri í fagferðum erlendis, verður einhver breyting á þessu nú þegar þú ert fluttur til Kína? „Ég vona að ég geti haldið áfram að finna áhugavert fagefni fyrir Bændablaðið, er alltaf með augun opin fyrir efni sem ég tel að gagnist íslenskum bændum en við verðum svolítið að sjá með það hvort tími vinnist til þess á komandi mánuðum. Ég hef nú þegar skrifað rúmlega 220 pistla í blaðið frá því að ég skrifaði í það í fyrsta skipti fyrir rúmum tveimur áratugum og það er eiginlega ómöguleg tala að enda á. Varðandi ferðirnar held ég að ég verði að hætta með þær en með mikilli eftirsjá, enda verið fararstjóri í 29 fagferðum og svo sannarlega notið hverrar þeirra enda fátt skemmtilegra og meira gefandi en að vera fararstjóri í svona fagferðum. Hver veit nema ég bjóði upp á eina ferð í lokin og þá alla leið hingað til Kína?“ segir Snorri Sigurðsson. /HKr. Snorri Sigurðsson í höfuðstöðvum Miðstöðvar mjaltatæknimála í Peking í Kína. (Milk Technology Cooperation Center).
Blaðsíða 1
Blaðsíða 2
Blaðsíða 3
Blaðsíða 4
Blaðsíða 5
Blaðsíða 6
Blaðsíða 7
Blaðsíða 8
Blaðsíða 9
Blaðsíða 10
Blaðsíða 11
Blaðsíða 12
Blaðsíða 13
Blaðsíða 14
Blaðsíða 15
Blaðsíða 16
Blaðsíða 17
Blaðsíða 18
Blaðsíða 19
Blaðsíða 20
Blaðsíða 21
Blaðsíða 22
Blaðsíða 23
Blaðsíða 24
Blaðsíða 25
Blaðsíða 26
Blaðsíða 27
Blaðsíða 28
Blaðsíða 29
Blaðsíða 30
Blaðsíða 31
Blaðsíða 32
Blaðsíða 33
Blaðsíða 34
Blaðsíða 35
Blaðsíða 36
Blaðsíða 37
Blaðsíða 38
Blaðsíða 39
Blaðsíða 40
Blaðsíða 41
Blaðsíða 42
Blaðsíða 43
Blaðsíða 44
Blaðsíða 45
Blaðsíða 46
Blaðsíða 47
Blaðsíða 48
Blaðsíða 49
Blaðsíða 50
Blaðsíða 51
Blaðsíða 52
Blaðsíða 53
Blaðsíða 54
Blaðsíða 55
Blaðsíða 56
Blaðsíða 57
Blaðsíða 58
Blaðsíða 59
Blaðsíða 60
Blaðsíða 61
Blaðsíða 62
Blaðsíða 63
Blaðsíða 64

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.