Spássían - 2011, Blaðsíða 20

Spássían - 2011, Blaðsíða 20
 20 Þetta er hráefnið í ákveðna tegund geimsagna sem spruttu um miðbik 20. aldar upp úr hugmyndum um svokölluð kynslóðaskip sem ferðuðust til annarra sólkerfa. Slíkar sögur byggja þó ekki bara á framtíðarsýn því þær sækja minni sín langt aftur í bókmenntasöguna. Á VIT HINS ÓÞEKKTA Edward James segir að „hið ótrúlega ferðalag“ sé líklega eitt elsta minnið sem vísindaskáldskapurinn nýtir sér. Ferðasögur um uppgötvun nýrra staða og framandi samfélaga voru afar vinsælar á tímum uppgötvana Kristófers Kólumbusar. Slíkar sagnir urðu smám saman að sérstakri bókmenntagrein, „ímyndaða ferðalaginu“, en meðal þeirra frægustu eru Ferðir Gúllivers eftir Jonathan Swift.1 Sögurnar vísuðu til ríkjandi hugmynda um að í heiminum leyndust enn margar óuppgötvaðar furður og þar sem ímyndaða ferðalagið var ekki bundið við heiminn eins og fólk þekkti hann urðu lýsingarnar oft afar ævintýralegar. Ímyndaða ferðalagið hentaði einnig vel fyrir útópísk skrif um hið fullkomna mannlega samfélag. Má í því samhengi nefna bók Kristmanns Guðmundssonar um plánetuna Laí, sem er talin ein af fyrstu íslensku vísindaskáldsögunum.2 Greinin blómstraði áfram á 19. öld, m.a. í skrifum Jules Vernes, en sagan af ótrúlega ferðalaginu tengist sterkt framfara- og tæknihyggju, sem og nýlendustefnunni; þeirri hugmynd að mannkynið (a.m.k. Evrópubúar og seinna Bandaríkjamenn) sé í óstöðvandi framrás, að hugvitið leiði okkur sífellt á nýja staði og til fleiri landvinninga. Ótrúlegu ferðalögin beindust meir og meir út í geiminn, því Evrópubúar náðu smám saman að kortleggja alla jörðina. Tunglið, Mars og Venus höfðu reyndar lengi verið vinsæl sögusvið furðuferða, en tækni á borð við geimskip kom þá alls ekki alltaf við sögu; persónur drukku seyði sem gerðu þeim kleift að ferðast um í astrallíkömum, flugu í anda milli hliðstæðra heima eða upplifðu tilveru á öðrum plánetum í eins konar transi. Edward James segir að Jules Verne og H.G. Wells séu almennt taldir frumkvöðlar sagna um ímyndað ferðalag út fyrir sólkerfið sem byggi á vísindalegum grunni. Hins vegar hafi hugmyndin verið orðin mjög þekkt á þeirra tíð. Árið 1880 hafi Percy Greg til dæmis skrifað Across the Zodiac þar sem söguhetjan byggir geimskip og tekur með sér plöntur til að framleiða súrefni.3 ÖRKIN HANS NÓA Snemma á 20. öld veltu menn því fyrir sér hvort hægt væri að byggja eins konar gerviveraldir úti í geimnum, til dæmis á sporbaug um sólu, þar sem heilu samfélögin gætu búið. Þessar veraldir mætti jafnvel útbúa sem skip og senda af stað í könnunarleiðangra til annarra sólkerfa. Slíkar ferðir myndu taka nokkrar aldir og skipin yrðu því hálfgerðar arkir með sendiherra mannkyns um borð. Þær gætu jafnvel, eins og í syndaflóðinu, verið síðasta von mannkyns þegar sólin kulnar og sólkerfið deyr. Um miðbik síðustu aldar hafði hugmyndin um geimarkir verið útfærð á fjölmarga vegu, en oft er talað um að fyrsta alvöru kynslóðaskipið hafi birst í sögu Dons Wilcox frá 1940, „The Voyage That Lasted 600 Years“. Strax ári síðar, í sögunum „Universe” og „Common Sense”, setti Robert Heinlein fram þá hugmynd að áhöfn á slíku skipi gæti gleymt markmiði ferðarinnar og talið jörðina ekki annað en mýtu. Þessi hugmynd hefur síðan þá verið endurunninn í fjölda bóka, kvikmynda og sjónvarpsþátta. Víst er að ævilöng dvöl í einangruðum gerviheimi með takmörkuðum fjölda fólks hlýtur að hafa undarleg áhrif á einstaklinga. Það er því ekki skrítið að geðveiki er áleitið þema í sögum af kynslóðaskipum. VITFIRRT FERÐ Dæmi um það er skipstjórinn í bókinni The Dark Beyond the Stars, eftir Frank M. Robinson, sem minnir á brjálaða skipstjórann Ahab í sögu Hermans Melvilles um Moby Dick. Hann leiðir áhöfnina áfram í endalausri leit að merkjum um annað líf, jafnvel út úr Vetrarbrautinni okkar og inn í hið djúpa myrkur milli stjörnuþoka. Svipaðar aðstæður ríkja í bók Richards Pauls Russos, Ship of Fools. Eins og í sögunni af hvíta hvalnum má lesa táknræna merkingu úr ferðalaginu og mikið er um trúarlegar skírskotanir. Titill Russos vísar í algengt minni um Fley fáránleikans, sem Baselbúinn Sebastian Brant var einna fyrstur til að festa á blað. Í söguljóði hans frá 1494 segir frá sjóferðalagi þar sem áfangastaðurinn er paradís fíflanna. Ljóð Brants var háðsádeila á samtímann en sögur sem þessar, af skipum þar sem fífl og vitfirringar eru við stjórnvölinn og áfangastaðurinn óljós, eru oftar en ekki allegóría fyrir undarlega tilveru okkar hér á jörðinni: Alein þjótum við um myrkan alheim, án nokkurra vísbendinga um það hvaðan við komum, hvert við stefnum og hvort einhvern tíma var tilgangur með þessu öllu saman. 1 James, Edward, Science Fiction in the 20th Century, Oxford, Oxford University Press, 1994, 13-14. 2 Sjá grein Ástu Kristínar Benediktsdóttur framar í þessu blaði. 3 James, 16-17. Forngrikkjar á leið til stjarnanna Lúkíanos frá Samosata var grískur satíristi sem var uppi á 2. öld e.kr. Hann samdi frásögn af ævintýralegu ferðalagi til tunglsins í ýkjusagnastíl, sem hann nefndi Sönn saga. Í verkinu bera vatnsstrokkar og vindar grískt skip til tunglsins. Þar hitta jarðnesku ferðalangarnir fyrir framandlega tunglbúa sem bera til dæmis á sér gervikynfæri; hinir ríku kynfæri úr fílabeini en hinir fátæku úr viði. Freistandi er að velta því upp hvort Lúkíanos sé þá sá fyrsti sem skrifar um sæborgir, en orðið sæborg notar bókmenntafræðingurinn Úlfhildur Dagsdóttir yfir mannslíkama sem átt hefur verið við með aðstoð tækninnar. Tunglbúar Lúkíanosar eiga í stríði við sólarbúa um nýlenduna Júpíter en neyðast að lokum til að gefast upp. Í friðarsáttmála ákveða báðir aðilar að stofna nýlendur á Morgunstjörnunni, Venusi. Ferðalangarnir sigla skipi sínu þangað en stefna síðan á dýrahringinn þar sem þeir finna margvíslega heima og hinar undarlegustu þjóðir. Týnd í geimnum Eftir Auði Aðalsteinsdóttur Langt úti í myrkum óravíddum geimsins svífur löngu gleymt stálflykki í átt að ókunnum áfangastað. Um borð hafa margar kynslóðir manna fæðst og dáið, í aldaraðir. Enginn man lengur hvert förinni er heitið og jafnvel ekki hvar ýtt var úr vör. Nema ef til vill skipstjórinn, sem er löngu genginn af vitinu og staðráðinn í því að hvika hvergi í tryllingslegri leit að einhverju sem er þarna úti.Mynd eftir John Harris prýðir kápu The Dark Beyond the Stars. Hieronymus Bosch málaði Das Narrenschiff eða Fíflaskipið undir lok 15. aldar.

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.