Spássían - 2011, Blaðsíða 31

Spássían - 2011, Blaðsíða 31
31 ég náð ákveðinni færni og slípast til. Hafi ég verið predikari bið ég til Guðs að það sé horfið, og líka að ég hafi hætt því, sem við gerum öll í fyrstu, að segja of mikið. Í fyrrasumar fólst síðasta umferðin á Ljósu einungis í því að hreinsa út. Þess vegna er svo gott að hafa nógan tíma. Maður á aldrei að flýta sér með bók. Svo hef ég reyndar líka lent í því að einhver sagði við mig: „Ekki veit ég hvað er að gerast inni í hausnum á þér, þú verður að segja hlutina“. Það getur vel verið að einhverjir lesi bækurnar mínar og finnist ég aldrei segja nema hálfsagða sögu og séu fyrir bragðið ekki ánægðir. Þá verð ég bara að taka því en þetta er sá háttur sem ég hef kosið mér.“ Það er þó greinilegt að Kristín vill ekki skilja lesandann eftir í lausu lofti. „Ég verð sjálf pirruð ef ég les þannig bækur og þess vegna finnst mér undirbyggingin svo mikilvæg, byrjunin og fyrsti hluti bókarinnar, eins og í Ljósu. Lesandinn þarf að hafa forsendur til að skilja eftirleikinn. Það er hægt að lesa Ljósu á ótal vegu. Ég veit að hún hefur verið lesin út frá stöðu konunnar, út frá geðveikinni, út frá þjóðfélagsmyndinni, út frá togstreitu borgar og sveitar og margt fleira. En alla þessa þræði þarf að hnýta og ég vona að mér hafi tekist það. Þó að fólk sé reyndar sífellt að finna nýja fleti á bókinni. Í síðustu viku var ég til dæmis spurð að því hvort Pápi hafi kannski ekki bannað Ljósu að giftast Sveini af illkvittni, heldur hafi hann vitað að Sveinn var sonur hans? Pápi var jú mikill kvennamaður, hann gat hafa komið við hjá móður Sveins – og þá mætti draga þá ályktun að Pápi hafi í raun verið góður maður. En ég varð að viðurkenna að þótt mér fyndist þetta æðisleg hugmynd hafði mér ekki dottið hún í hug!“ BÆKURNAR ERU SYSTUR Við erum skyndilega komnar á bólakaf í Ljósu, þriðju og nýjustu skáldsögu Kristínar sem hefur snert mjög við lesendum. Þar vinnur Kristín úr lausum þræði úr fyrstu bókinni, Sólin sest að morgni, sögu föðurömmu sinnar, en hún háði langa og erfiða baráttu við geðsjúkdóm, baráttu sem setti mark sitt á alla fjölskylduna. Á milli þessara bóka kom hins vegar út sagan Á eigin vegum, sem var m.a. tilnefnd til Norrænu bókmenntaverðlaunanna. Sú bók fjallar um eldri konu sem býr ein í kjallaraíbúð með köttum og blómum. Hún lifir á ytra borðinu fábrotnu og einmanalegu lífi en kemur svo lesandanum sífellt á óvart, reynist búa yfir miklu hugrekki en líka miklum harmi. Alla tíð hefur hún verið munaðarlaus í tilverunni en stærst er þó sorgin yfir andvana fæddu barni sem kemur hvað sterkast fram í hljóðlátum senum á mörkum ímyndunar og raunveruleika. Á eigin vegum hefur ekki jafn augljósar sjálfsævisögulegar tengingar og Sólin sest að morgni og Ljósa en Kristín játar því að hún brúi á ýmsan hátt bilið á milli þeirra. „Ég lít svona þér að segja á þessar þrjár bækur sem systur. Það er nú ekki hægt að kalla þetta þríleik, en mér finnst svolítið að ein leiði af annarri. Sigþrúður, aðalsögupersónan í Á eigin vegum, er Austfirðingur eins og ég. Afi hennar, sem verður úti á Möðrudalsfjallgarði, er í raun langafi minn þótt ég hafi gert hann að Fransmanni. Mér hefur alltaf fundist gaman að nota gömlu sögurnar að austan, um menn sem grófu sig í fönn, og um alla frönsku sjómennina en ég heyrði til dæmis að mamma hefði verið dökk af því að hún var með franskt blóð. Þetta er kannski voðaleg einfeldni hjá mér, að nota alltaf eitthvað sem ég þekki. En þetta er eitthvað sem ég hef hugsað svo mikið um og mörgum sinnum lagt niður fyrir mér í huganum þegar ég er að kaupa inn eða úti að ganga, og svo skilar þetta sér svona. Kannski er þetta bara minn háttur; Sigþrúður kom í beinu framhaldi af Sólinni, og leiddi svo áfram inn í Ljósu. Og nú er ég á bömmer yfir því hvernig ég eigi að leiða þetta áfram. Má nokkurn tímann vera fjórleikur?“ Kristín virðist standa á krossgötum, er með tvö handrit á byrjunarstigi og í öðru segist hún sækja til baka, á svipaðar slóðir og áður en þó ekki. Það komi þó ekki til greina að skrifa framhald af Ljósu eða Á eigin vegum eins og margir hafi beðið um. „Fólk langar svo að vita hvernig Sigþrúði muni vegna. Fer hún upp í flugvélina, kemst hún til Frakklands, kemur hún heim aftur? Getur hún bjargað sér á íslenskuskotnu frönskunni sem hún lærði upp úr bókinni hans Magnúsar Jónssonar? Fólk hefur afskaplega miklar skoðanir á því og ég segi alltaf: „En gaman, þetta er skemmtileg hugmynd. Vilt þú ekki bara halda áfram og skrifa næstu bók, ég er hætt!“ Ég er búin að skrifa þessa sögu frá mér en mér finnst skemmtilegt að fólk skuli vilja glíma við hana áfram. Undanfarið fæ ég svo ofboðslega margar spurningar um það hvað gerist eftir að Ljósu lýkur. Hvað með börnin? Hvernig vegnar þeim nú þegar Ljósa er dáin? Fara þær kannski til Reykjavíkur, Katrín og litla Ljósa? Og hvað með Vigfús? Ég svara eins, ég verði bara að biðja fólk um að halda sjálft áfram sögunni. Ein vildi nú fá sögu Vigfúsar en ég ætla ekki að skrifa hana. Það er alveg útilokað. En ef það er gaman að fá verðlaun þá er þetta ekki síður skemmtilegt. Að skrifa bók og finna svona á fólki að það er tilbúið að halda áfram.“ HNAKKRIFIST UM PERSÓNURNAR Kristín fær ekki síst mikil viðbrögð í leshópum sem hún les upp fyrir. „Það er afskaplega skemmtilegt og ég hef upplifað ótrúlegustu hluti. Ég stíg alveg til hliðar stundum því fólk hefur miklar skoðanir á Ljósu. Allir sem tala við mig segja: „Góð bók“. Sumir segja að sér hafi gengið illa að komast inn í hana, hún hafi verið erfið í fyrstu og þurft margar atrennur, eða þá að fólk hefur grátið mikið. Menn skiptast líka mikið í hópa eftir því hvaða afstöðu þeir taka til persónanna. Það eru þeir sem eru alveg brjálaðir út í Pápa. Ekki nóg með að hann sé flagari; hann er hórkarl og hann er nauðgari, það hefur gengið svo langt. Svo eru þeir sem eru ofboðslega fúlir út í Ljósu fyrir það hvað hún er vond við Vigfús. Aðrir eru hundfúlir út í Vigfús fyrir það hvað hann er vondur við Ljósu. Og ég var á einum stað í vetur, ég er ekki að skrökva, þar sem fylkingunum hreinlega laust saman. Tvær litlar konur stóðu upp og þær titruðu frá hvirfli til ilja. Það gekk svo mikið á að það lá við að það kæmi til handalögmála. Ég horfði bara á þær og hugsaði með mér „Hvað er að gerast?“ Fólkið upplifir sögupersónurnar mínar sem lifandi verur. Og hvað heldur þú að margir komi til mín ef ég fer í útför og erfidrykkju? Það eru allir að tala við mig um Sigþrúði – og hvort að græni hatturinn hafi nú verið í kirkjunni í dag! Ég upplifi þetta sem svo að eitthvað hafi tekist hjá mér, þegar fólk er enn að vitna í bók sem kom út árið 2006. Og eftir á sest ég niður og hugsa með mér: „Vá hvað þetta er gaman. ““ Viðbrögð lesenda eru kannski skiljanleg þegar haft er í huga að Kristín dregur lesandann markvisst inn í heim sögupersónanna og fær hann til að sjá heiminn með þeirra augum. En að auki Þegar hún er ein heima bankar glókollur upp á eða læðist bara inn um dyrnar sem aldrei eru læstar. Hann situr ævinlega á sama stól í borðkróknum og brosir en hún gefur honum mjólk og matarkex, stundum kremkex. Svo tyllir hún sér hjá honum með kaffibolla. Það kemur fyrir að hann missir niður, en það gerir ekkert til því hún kaupir þykkan, rósóttan vaxdúk sem auðvelt er að strjúka af. Hann sleikir kremið ofan af kexinu, en leifir afganginum. Hún atyrðir hann ekki en þurrkar honum með blautum þvottapoka. Nýtur þess að þvo granna fingurna. Suma daga er hann úfinn og þá greiðir hún silkimjúka lokkana. ... Tómas átti erfitt með að skilja mjólkurglösin og kexkökurnar sem hann var að finna út um allt hús. Hún svaraði litlu, vissi ekkert hvernig stóð á þessu frekar en hann. (Á eigin vegum, 112-113)

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.