Spássían - 2011, Blaðsíða 42

Spássían - 2011, Blaðsíða 42
 42 HUGRÚN var mjög afkastamikill rithöfundur um miðbik síðustu aldar og skrifaði bæði fyrir börn og fullorðna. Eftir hana liggja þrjátíu bækur; ljóðabækur, skáldsögur, smásagnasöfn, barna- og unglingabækur og bækur með ævisögulegum þáttum, þar á meðal eigin bernskuminningum. Á málþinginu var fjallað um ævi hennar og verk. Skapaðist góð stemmning, ekki síst þegar Söngraddir úr Svarfaðardal sungu ljóð Hugrúnar, „Svarfaðardalur“, við lag Pálmars Þ. Eyjólfssonar, en það er sungið við öll hátíðleg tækifæri í byggðarlaginu og Svarfdælingar kalla það þjóðsöng sinn. Bróðurdóttir skáldkonunnar, Sólveig Lilja Sigurðardóttir, las einnig upp ljóð eftir frænku sína og kafla úr bernskuminningum hennar. Í hléinu gátu þinggestir hlýtt á útvarpsupptöku með skáldkonunni, en Hugrún var þekkt útvarpsrödd á sínum tíma og skrifaði einnig greinar í tímarit. Guðrún Agnarsdóttir, læknir og tengdadóttir Hugrúnar, sagði frá persónunni á bak við skáldanafnið. Skáldkonan Hugrún hét réttu nafni Filippía Kristjánsdóttir og fæddist árið 1905 að Skriðu í Svarfaðardal en ólst upp að Brautarhóli í sömu sveit. Hún fór í Héraðsskólann á Laugum en varð að hætta vegna veikinda. Rúmlega tvítug hélt hún til Reykjavíkur. Hún var tvígift og átti þrjú börn en lést í hárri elli, árið 1996. Helga Kress, bókmenntafræðingur og prófessor emerítus við Háskóla Íslands, fjallaði um yrkisefni Hugrúnar og einkenni verka hennar. Sagði hún öll verk Hugrúnar fjalla á einn eða annan hátt um konur og það sem þeim viðkemur, til dæmis óskilgetin börn eða börn sem hafa verið yfirgefin af móður sinni og aðrar konur taka að sér. Mikið er um smælingja, sjúklinga, gamalmenni, förukonur og aðrar jaðarpersónur sem flestar eiga sér leynda sögu. Inn í þetta fléttast ástamál og svik í ástum, erfið hjónabönd, illgirni og öfund með tilheyrandi slúðri, misskilningur, sjálfsafneitun, fyrirgefning og fórnir ásamt (ó)hæfilegum skammti af trúarprédikunum sem verða oft til þess að trufla atburðarásina og leysa hana upp. Ljóðin einkennast af myndmáli smæðar, því sem er lítið og varnarlaust, ósýnilegt, vanrækt eða gleymt. Þau fjalla um fugla og blóm, flugur og orma, mýs og lítil lömb. Útsæðiskartaflan er persónugerð og á sér ævisögu; sem og gamlir bandprjónar. Ævisagan er einnig áberandi viðfangsefni í sögunum þar sem sögumaður, alltaf kona, grennslast fyrir um ævisögur annarra, oftast eldri konu, og skrifar niður. Þannig fjalla sögurnar gjarnan um tvær konur sem eru ýmist andstæður eða hliðstæður, þar sem önnur sigrar hina eða þær bæta hvor aðra upp. Oft eiga þessi átök sér stað innra með persónunni sem gjarnan er rithöfundur eða dreymir um að vera það. Ingibjörg Hjartardóttir, rithöfundur fjallaði um þrjár fyrstu skáldsögur Hugrúnar fyrir fullorðna, Úlfhildi, Ágúst í Ási og Fanneyju á Furuvöllum, og viðtökurnar sem þær fengu hjá gagnrýnendum. Voru þær yfirleitt góðar og áhersla lögð á alþýðleika bókanna, rómantík og trúarboðskap. Eins og fleiri skáldkonur fékk Hugrún þó einnig þann stimpil að verk hennar gætu varla talist skáldskapur og í pistli í Alþýðublaðinu 1949 lýsti Guðmundur Gíslason Hagalín reyndar einni bók hennar sem svo lélegri að hún væri atlaga gegn íslenskri menningu. Í kjölfarið kom Ingibjörg inn á kellingabókaumræðu sjöunda áratugarins. Hófst hún með þeim ummælum Sigurðar A. Magnússonar í Lesbók Morgunblaðsins árið 1964 að framtíð íslenskra bókmennta væri um þær mundir að verulegu leyti í höndum einna átta eða tíu kellinga sem fæstar væru sendibréfsfærar á íslensku. Ingibjörg velti því upp hvort og þá hvernig sú umræða hefði haft áhrif á skrifandi konur þess tíma. Benti hún á að liðið hefðu fjórtán ár þar til næsta skáldsaga Hugrúnar fyrir fullorðna kom út og velti því fyrir sér hvort hún hefði ekki treyst sér til að gefa hana út fyrr en þessari umræðu linnti. Orðið hefur eins konar „kellingabókavakning“ í landinu, þar sem athyglin beinist að skáldkonum sem skrifuðu á fyrrihluta og um miðbik síðustu aldar. Árið 2009 var haldin í Miðgarði í Skagafirði dagskrá um ævi og ritverk Elínborgar Lárusdóttur sem var ástsæll og mikið lesinn höfundur á sínum tíma. Verk hennar áttu þó ekki upp á pallborðið hjá menningarvitum samtímans, ekki frekar en verk annarra kvenrithöfunda þess tíma. Má þar nefna Guðrúnu frá Lundi og Hugrúnu. Í fyrrasumar var haldið málþing um Guðrúnu frá Lundi að Ketilási í Fljótum, og nefndist „Er enn líf í Hrútadal“ Það reyndist svo sannarlega vera og verður leikurinn endurtekinn í haust undir heitinu „Það er líf í Hrútadal“. Þá verða verk Guðrúnar frá Lundi og annarra skagfirskra sagnaskálda krufin. Konur og allt sem þeim viðkemur, jaðarpersónur, trúarpredikanir, myndmál smæðar, ævisögur og innri átök. Allt þetta og meira til einkennir höfundarverk skáldkonunnar Hugrúnar, eins og fram kom á þétt setnu málþingi í Bergi, nýja menningarhúsinu á Dalvík, um miðjan maí þar sem leitast var við að svara spurningunni: „Hver var Hugrún?“ Ingibjörg Hjartardóttir sagði Spássíunni frá þinginu. Skáldkonan Hugrún

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.