Spássían - 2011, Blaðsíða 27

Spássían - 2011, Blaðsíða 27
27 AÐ MINNSTA KOSTI tvö ný leikhús hafa litið dagsins ljós á höfuðborgarsvæðinu. Gaflaraleikhúsið var stofnað á haustdögum og er staðsett í Hafnarfirði þar sem Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóður og Háðvör var áður til húsa. Enn hefur ekki mikið reynt á sýningar þessa leikhúss en svo virðist sem aðstandendur vilji leggja metnað sinn í að setja upp fjölskylduvænar sýningar. Þrátt fyrir nýtt og framsækið fjölskyldueikhús í Firðinum er missir að Hafnarfjarðarleikhúsinu. Helsta aðalsmerki þess var að setja upp nýjar íslenskar sýningar eða leikgerðir; þar voru teknir „sénsar“. Vonandi mun hið nýja leikhús sýna á jafn skeleggan hátt hvað í því býr. Sjálfstæðu leikhúsin hafa lengi beðið eftir sér húsnæði og loksins kom að því að draumur þeirra rættist. Þau hafa nú fengið inni í nýju og endurbættu Tjarnarbíói. Það hús er mikill fengur fyrir atvinnuleikhópa, en einnig er þar aðstaða fyrir aðra listræna starfsemi. Í Tjarnarbíói hafa verið haldnir tónleikar, danssýningar, fyrirlestrar og að sjálfsögðu sýnd leikrit. Endurbygging hússins hefur tekist mjög vel án þess að það tapi sínum gamla sjarma. Aðstaða fyrir leikara og listamenn er allt önnur og miklu betri en áður var. Nokkrar leiksýningar hafa verið settar þar upp í vetur en hæst ber sýningu Sölku Guðmundsdóttur, Súldarsker, í leikstjórn Hörpu Arnardóttur. Norðurpóllinn á Seltjarnarnesi hefur hýst leiklistarstarfsemi í nokkurn tíma. Óhætt er að segja að sú sýning sem vakið hefur hvað mesta athygli þar sé leikgerð Mörtu Nordal á Fjalla- Eyvindi. Þykir endurgerð þessa menningararfs hafa tekist einstaklega vel. „Stóru leikhúsin“, Þjóðleikhúsið og Borgar- leikhúsið hafa verið með nokkuð fjölbreytt „repertoire“ í vetur. Sýningin Enron eftir Lucy Prebble í Borgarleikhúsinu fékk lof gagnrýnenda erlendis og féll einnig vel í kramið hjá íslenskum áhorfendum. Enron er skrifað af ungri konu, af miklu innsæi og góðum húmor. Hún nær ágætlega að lýsa mannlega þættinum í hinum mikla hildarleik hrunsins. Magnús Geir Þórðarson velur sýningar af kostgæfni og passar upp á að þar sé eitthvað fyrir alla. Til dæmis er engin tilviljun að á Litla sviði Borgarleikhússins var settur upp einleikur Sigurðar Sigurjónssonar, Afinn, hressilegur farsi, á meðan á Nýja sviðinu var Elsku barn, sem sýnir dökka mynd af sálarlífi móður sem talin er hafa myrt börn sín. Tveir farsar voru frumsýndir í Borgarleikhúsinu í vetur, annar breskur, Nei, ráðherra, eftir Ray Conney, lagaður að íslenskum veruleika af Gísla Rúnari Jónssyni. Hinn var íslensk afurð leikhópsins Vesturports, Húsmóðirin. Þessar sýningar voru ólíkar, þrátt fyrir að báðar héldu sig við hefðbundnar aðferðir farsans. Farsaleikur er mjög erfiður og lítið má út af bera svo hann verði ekki hallærislegur og missi marks. Í áðurnefndum försum tókst vel til, enda gengu aðstandendur til verks af alvöru og það held ég að sé trixið til að ná árangri. Leikgerðin í Borgarleikhúsinu þetta árið var Fólkið í kjallaranum eftir Auði Jónsdóttur. Leikgerðir skáldsagna eru vandasamar. Bók verður vinsæl en ekki er þar með sagt að hún henti sem leikverk. Þó verður að segjast eins og er að Fólkið í kjallaranum var nokkuð vel heppnað verk. Vandað var til persónusköpunar þótt sumar persónur hafi ekki náð flugi líkt og í bókinni. Það sem ég saknaði mest í Borgarleikhúsinu var leikhús fyrir börn. Vissulega voru barnvænar sýningar og litlar sýningar í anddyri eins Gói og eldfærin. Heyrst hefur að á næsta ári verði bætt fyrir þetta með uppsetningu á söngleiknum Galdrakarlinn í Oz sem hérlendis var síðast settur á svið 1997. Ekki má gleyma því að börn eru leikhúsáhorfendur framtíðarinnar og mikilvægt að hugað sé að þeim. Áður en vikið er að sýningum Þjóðleikhússins ber að minnast þess að jólasýningar beggja stóru leikhúsanna voru eftir Shakespeare, þótt ólíkar væru. Borgarleikhúsið sýndi Ofviðrið, sem þykir einna skrítnast af verkum Shakespeares og er talið eins konar uppgjör höfundar við leikhúsið. Söguþráðurinn er einfaldur en efnið þó flókið og ekki ljóst hvaða boðskap þessi ævintýraleikur hefur fram að færa. Jólasýning Þjóðleikhússins var hins vegar eitt af meistaraverkum Shakespeares, Lér konungur, sem fjallar á djúpstæðan hátt um mannlegt eðli, hefnd, heiður og trygglyndi. Minnistætt er hve frábæran leik Arnar Jónsson sýndi í hlutverki hins útlæga konungs. Jólasýningar leikhúsanna vekja ávallt mikla eftirtekt enda fáu til sparað við að gera þær sem veglegastar - þetta eiga að vera stórsýningar. Báðar sýningarnar tókust ágætlega. Þjóðleikhúsið sýndi Heddu Gabler eftir Henrik Ibsen. Auðvitað er um að ræða eitt öndvegisverk leikbókmenntanna. Hins vegar finnst mér verk þetta ekki hafa staðist tímans tönn. Það reyndist því nokkuð erfitt, að mínu mati, að glæða það þeim neista sem þarf til að kvennabarátta nútímans finni hljómgrunn í harmsögu Heddu Gabler. Þá skal nefnt leikritið Bjart með köflum eftir Ólaf Hauk Símonarson. Íslenskur söngleikur úr „daglega lífinu“ sem gerist á 7. áratug síðustu aldar. Ólafur Haukur er snjall textahöfundur og leikskáld. Verkið reyndist vinsælt. Þrátt fyrir fremur rýrt efni gengur leikritið fyrir fullu húsi með dynjandi lófaklappi. Það kemur reyndar ekki á óvart. Ólafur Haukur virðist alltaf slá í gegn. Stórsýning Þjóðleikhússins var að mínu mati Allir synir mínir eftir Arthur Miller. Þótt sá raunveruleiki sem þar er á ferð sé nöturlegri en sá sem birtist í verki Ólafs Hauks, er verkið ótrúlega vel skrifað, algilt og klassískt. Það eldist vel og getur ekki talist gamaldags. Börnin fengu sinn skammt í musteri íslenskrar tungu. Ballið á Bessastöðum er leikgerð Þjóðleikhússins í ár, byggt á vinsælli barnabók Gerðar Kristnýjar. Sögustund í Kúlunni var ætluð leikskólabörnum „til að fræðast á skemmtilegan hátt um leikhúsið og kynnast töfraheimi þess“ eins og segir á heimasíðu Þjóðleikhússins. Bæði Borgarleikhús og Þjóðleikhús hafa einnig tekið upp vinsælar sýningar frá síðasta ári og tekið inn gestasýningar sem hafa vakið athygli. Af gestasýningum má nefna verk leikhópsins 16 elskendur sem fór af stað síðasta haust með Nígeríusvindlið og leikhópinn Ég og vinir mínir með Verði þér að góðu. Þarna er á ferðinni ungt leikhúsfólk með vel unnar og óvenjulegar sýningar. Það verður gaman að fylgjast með nýrri kynslóð leikhúslistamanna á næstu misserum. Stóru leikhúsin sýndu metnað og stóðu sig með prýði á síðasta leikári. Jafnframt eru eftirtektarverðar sýningar ungs framsækins leikhúsfólks; gestasýningar í „stóru leikhúsunum“ og sýningar í Tjarnarbíói og Norðurpólnum. Þarna er framtíðin. william shakespeare „Við fæðingu við förum strax að gráta að lent við skulum á leiksviði fífla svo stóru.“ Sígildur harmleikur í uppsetningu ástralska leikstjórans Benedicts Andrews, eins eftirsóttasta leikstjóra af yngri kynslóðinni í leikhúsheiminum í dag. Lér konungur er af mörgum talið magnþrungnasta verk Williams Shakespeares, og eitt merkasta verk í leiklistarsögu heimsins. Einstæð rannsókn skáldsins á valdinu, oflætinu og fallvaltleika alls talar til okkar með ógnvænlegum krafti á þeim tímum sem við nú lifum. Hinn aldurhnigni konungur Lér hefur ákveðið að skipta konungsríki sínu á milli dætra sinna þriggja, og skal hlutur hverrar dóttur fara eftir því hvað ást hennar á honum er mikil. En hvað vottar skýrast um ást barna til foreldra? Auðsveipni og fagurgali eldri systranna tveggja eða sjálfstæði og hreinskilni Kordelíu þeirrar yngstu? Æfur af reiði yfir því sem Lér telur skort á ást, afneitar hann Kordelíu og skiptir ríkinu í tvennt á milli eldri systranna. Í hönd fara tímar grimmúðlegrar valdabaráttu, svikráða og upplausnar og það líður ekki á löngu þar til eldri systurnar hafa hrakið föður sinn á burt. Meistaraverk Shakespeares veitir einstaka innsýn í heim hinna valdaþyrstu, blekkingar þeirra og klæki. Tímalaust listaverk fullt af visku um átök kynslóðanna, drambið, blinduna, brjálsemina og það að missa allt. Leikstjórn: Benedict Andrews. Leikmynd: Börkur Jónsson. Búningar: Helga I. Stefánsdóttir. Tónlist: Hildur Ingveldardóttir Guðnadóttir. Hljóðhönnun: B.J. Nilsen. Dramtúrg: Matthew Whittet. Lýsing: Halldór Örn Óskarsson. Aðstoðarleikstjóri: Friðrik Friðriksson. Þýðing: Þórarinn Eldjárn. Leikarar: Arnar Jónsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Pálmi Gestsson, Eggert Þorleifssson, Atli Rafn Sigurðarson, Stefán Hallur Stefánsson, Ólafur Darri Ólafsson, Ólafur Egill Egilsson, Hilmir Jensson, Hannes Óli Ágústsson og fleiri. Ný þýðing Þórarins Eldjárns á Lé konungi fyrir Þjóðleikhúsið kemur út hjá Forlaginu í haust. NámSkeið á vegum ÞjóðleikhúSSiNS, BorgarleikhúSSiNS og eNdurmeNNtuNar hÍ: Lér kon gur Benedict Andrews, leikstjóri sýningarinnar, er einn eftirsóttasti leikstjóri sinnar kynslóðar í heiminum í dag og hefur leikstýrt í mörgum virtum leikhúsum, bæði í heimalandi sínu Ástralíu og í Evrópu. Hann hefur meðal annars leikstýrt fjölda sýninga hjá hinu rómaða leikhúsi Schaubuehne í Berlín. Hann hlaut fyrr á þessu ári helstu leiklistarverðlaun Ástralíu fyrir sýningu byggða á leikritum Shakespeares um Rósastríðin, með hinni heimsfrægu leikkonu Cate Blanchett í aðalhlutverki. Benedict Andrews er þekktur fyrir framúrskarandi vinnu með leikurum og einstaklega áhrifamiklar túlkanir á jafnt nýjum sem klassískum verkum. í ofviðrum sálarinnar: lér konungur og ofviðrið eftir william shakespeare á sviðum þjóðleikhúss og Borgarleikhúss Í tilefni af því að Þjóðleikhúsið og Leikfélag Reykjavíkur sýna hvort um sig um jólin 2010 tvö af frægustu leikritum Williams Shakespeares, Lé konung í leikstjórn Benedicts Andrews og Ofviðrið í leikstjórn Oskaras Koršunovas, standa leikhúsin sameiginlega að námskeiði um leikritin og sýningarnar. Frá 17. nóvember til 11. janúar. Skráning og upplýsingar á Endurmenntun.is. Frumsýning á stóra sviðinu 26. desember Opið kortVeldu þegar þér hentar Vel heppnað leikhúsár Eftir Ingibjörgu Þórisdóttur Íslendingar eru, og hafa verið, leikhúselskandi þjóð og virðist leikhúsáhugi landans síst minni þrátt fyrir tal um kreppu og lakari kjör almennings. Það er með sanni hægt að segja að leikhús, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, blómstri enn eitt leikárið og þá er ekki einungis átt við vel heppnaðar leiksýningar. Úr jólasýningu Borgarleikhússins, Ofviðrinu, eftir William Shakespeare Jólasýning Þjóðleikhússin var Lér konungur eftir William Shakespeare

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.