Spássían - 2011, Blaðsíða 25

Spássían - 2011, Blaðsíða 25
25 Ég er ekki tæknióð manneskja. Ég á ennþá túbusjónvarp og síminn minn er bara meðalgreindur. En ég freistaðist til að fjárfesta í Kindle bókalesaranum á dögunum. Kindle tækið (sem sumir hafa kallað Kyndil á íslensku) er frábrugðið öðrum lófatölvum að því leyti að um öðruvísi skjátækni er að ræða sem á að líkja eftir pappír. Ekkert ljós er til staðar til að lýsa upp stafina heldur er notast við rafrænt blek. Fyrir fólk sem hangir fyrir framan tölvur allan liðlangan daginn er hvíldin fyrir augun kærkomin. Rafræna blekið gerir það líka að verkum að hægt er að lesa á skjáinn í sólarljósi sem hinir venjulegu skjáir leyfa ekki. Kindle tækið er framleitt fyrir Amazon netbókabúðina og þótt hægt sé að tengjast netinu og vafra um síður er fyrst og fremst um rafræna bók að ræða. Amazon hefur svo gert notendum hægt um vik að versla Kindle útgáfur af þeim bókum sem búðin selur. Hægt er að koma 3500 bókum þarna fyrir sem ætti óneitanlega að spara skápapláss, sérstaklega hjá fólki eins og mér sem er með króníska og ósjálfráða bókakaupaáráttu. Á.G. Furðugóðar Furðusögur Nýtt íslenskt tímarit hóf göngu sína síðasta vor og um leið birtist ný tegund af tímariti á markaðnum. Furðusögur er, eins og nafnið ber með sér, tímarit helgað smásögum og myndasögum og er umfjöllunarefnið allt það sem telst handan hins venjulega heims. Ungir íslenskir höfundar spreyta sig á vísindaskáldskap, fantasíu og hryllingi og verður að segjast að útkoman kemur skemmtilega á óvart. Sögurnar eru vel skrifaðar og hugmyndirnar flestar sprottnar upp úr íslenskum veruleika. Aðeins eitt tölublað hefur komið út þegar þetta er skrifað en heyrst hefur að von sé á öðru fljótlega. Það er vonandi að útgáfa þessi nái að vaxa og dafna. Ljóst er að margir upprennandi höfundar eru að prófa sig áfram með spennandi hluti og annar eins vettvangur fyrir tilraunastarfsemi og frjóa hugsun vandfundinn. Á.G. Á íslenskum geimfaraslóðum Áhugafólk um geimferðir sem á leið um Norðausturland í júní ætti að staldra í Safnahúsinu á Húsavík og kíkja á sýningu tengda ferðum geimfara hingað til lands á síðustu öld. Af þeim tólf mönnum sem stigið hafa fæti á tunglið komu níu í Þingeyjarsýslur til að æfa sig og læra jarðfræði undir handleiðslu íslenskra jarðvísindamanna. Árið 1965 kom hópur starfsmanna Bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA til æfinga á Íslandi. Í hópnum voru geimfaraefni stofnunarinnar, þeirra á meðal Buzz Aldrin sem steig annar manna fæti á tunglið. Skoðuðu þeir náttúru í Þingeyjarsýslum, sérstaklega við Mývatn og í Öskju. Tveimur árum síðar kom annar hópur frá NASA og meðal geimfaraefna í þeim hóp var Neil Armstrong, sem tókst að verða skrefi á undan Aldrin. Á sýningunni eru munir sem geimfaraefnin skildu eftir, ljósmyndir frá dvöl þeirra hér auk mynda og muna sem tengjast geimferðum. Sýningarstjóri er Örlygur Hnefill Örlygsson. Sýningin stendur til júníloka.

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.