Spássían - 2011, Blaðsíða 46

Spássían - 2011, Blaðsíða 46
 46 ÞÓRBERGSHIMNARÍKIÐ Þegar ég var að byrja að lesa Þórberg las hann enginn af mínum kunningjum. Ég man eftir því að hafa séð stuttan part úr Bréfi til Láru í sýnisbók á fyrsta ári í framhaldsskóla, annars vissi ég ekkert um þennan höfund. Svo þegar ég hafði uppgötvað hann með látum, þótti mér furðulega fátt um verk hans skrifað. Helgi Máni Sigurðsson og einn og einn undanvillingur (ekki illa meint!) skrifuðu um hann grein og grein, en það var allt og sumt. Meira að segja gamli rígurinn milli Laxness- og Þórbergsmanna var flestum gleymdur. TMM frá 1989 var mikil guðsgjöf, en það ár var haldið upp á 100 ára afmæli ÞÞ með málþingi og erindin birt í ritinu, sem vitaskuld var lesið í druslur. Ég er því þakklát fyrir það Þórbergshimnaríki sem við höfum smám saman þokast inn í, með Þórbergssetri, Þórbergssmiðjum, Þórbergsmálstofum og Þórbergsmálþingum. Að ógleymdum stórvirkjum Péturs Gunnarssonar og Halldórs Guðmundssonar um ævi og verk Þórbergs. „Stóra handritið“ svokallaða, sem lengi hafði á sér goðsagnakenndan blæ meðal Þórbergsaðdáenda var líka gefið út hjá Forlaginu fyrir ári undir titlinum Meistarar og lærisveinar. Greinarnar í Að skilja undraljós, sem þau Bergljót S. Kristjánsdóttir og Hjalti Snær Ægisson hafa ritstýrt af röggsemi, byggja flestar á erindum sem haldin voru í Þórbergssmiðju í H.Í. (8.-9.mars 2008) í tilefni af því að 20 ár voru liðin frá fæðingu Þórbergs, en sumar eiga rætur að rekja til málþings sem haldið var í Þórbergssetri nokkru fyrr. Hluti greinanna er ritrýndur og „abstract“ á ensku í lok hverrar greinar gerir ritið fræðilegra en ella, en jafnframt aðgengilegra. Það er hægt að renna yfir útdráttinn og sjá hver lykilhugtökin eru og helstu umfjöllunarefnin. Skipting greina í kafla fer eftir efni þeirra og skiptist bókin í fimm hluta: Suðursveit, Erlend tengsl, Dagbækur, Prestur og trú og Gamlir menn og börn. Sumar greinarnar eru langar og háfræðilegar og maður þarf nokkrar pásur til þess að lúslesa aftanmálsgreinar, aðrar eru léttar og leikandi. Sumar eru þannig að þær opna fyrir mann nýjan glugga. Aðrar eru skemmtileg upprifjun á einhverju sem maður sjálfur hefur pælt í um langan tíma. Sumar eru skrifaðar af þeim sem stóðu Þórbergi og hans fólki nálægt, aðrar af fræðimönnum, enn aðrar af leikmönnum. GLEYMDU BÆKURNAR Greinasafnið Að skilja undraljós er merkilegt fyrir þær sakir að í því eru m.a. til athugunar verk sem heldur lítið hefur verið skrifað um fram að þessu. Skemmtilegt er t.a.m. að sjá hversu gott rúm Suðursveitarbækur Þórbergs fá í safninu, einkum Steinarnir tala. Lengi lágu þessar bækur í þagnargildi, fengu í upphafi slaka dóma og höfundurinn skildi fjórðu bók eftir í handriti. Honum sárnaði víst afskiptaleysi samtíðarmanna sinna, sem alltaf vildu fá einhverja aðra bók en hann var að skrifa. Viðar Hreinsson skrifar forvitnilega grein þar sem hann bendir á að samsömun sögumannsins við sögusviðið sé leiðarstef í Suðursveitarbókunum. Afturhvarf Þórbergs til Suðursveitar hafi verið opinberun og að í þeim hafi hann tekið bændamenninguna í sátt og endurskapað hana í nýjum merkingarheimi. Áfram er fjallað um Suðursveitarbækur, nánar tiltekið Steinarnir tala í grein Gunnþórunnar Guðmundsdóttur og Atla Antonssonar, en þau gera frumlegan samanburð á bernskuminningum Þórbergs og Marcels Proust. Þörf er fræðsla Kristjáns Eiríkssonar um Esperantorannsóknir Þórbergs, en rit hans um alþjóðamálið voru ekki tekin upp í heildarsafnið sem gefið var út eftir dauða hans. Engu að síður varði Þórbergur mörgum árum í þetta áhugamál sitt. Annað hugðarefni Þórbergs, spíritisminn, fær líka pláss í greinasafninu, en því gerir Pétur Pétursson guðfræðingur góð skil. Skemmtileg er greinin um vinnsluna á Ævisögu Einars ríka, skrifuð af dætrum hans, og að sumu leyti byggð á dagbókum sem Einar hélt á ritunartímanum. Þórbergur setti hinum ríka manni víst skýrar reglur um stundvísi og óborganleg er myndin sem þær systur bregða upp af föður sínum þegar hann tekur traustataki barnareiðhjól og hjólar á því sem óður maður, af ótta við að mæta of seint í vinnuna hjá nákvæmnismanninum Þórbergi! ARFURINN OG ELSKAN Þorbjörg Arnórsdóttir, forstöðukona Þórbergsseturs, bendir réttilega á að landfræðileg einangrun fólksins á Hala í Suðursveit hafi ekki átt sér hliðstæðu á andlega sviðinu, enda hafi rithöfundur eins og Þórbergur Þórðarson ekki getað sprottið fram af engu. Færni hans og þekking hafi verið byggð á aldagömlum arfi íslensku þjóðarinnar sem hann hafði með sér frá liðnum feðrum og mæðrum. Fjölnir Torfason, maður Þorbjargar og frændi Þórbergs, skrifar svo um hugsanlega rangfeðrun í ætt þeirra (og alltaf er nú gaman að slíku!). Af allt öðrum toga er grein Benedikts Hjartarsonar „Þjóðlausar tungur“ þar sem hann fjallar m.a. um gælur ÞÞ við expressjónisma, súrrealisma og fútúrisma – og hvernig bókmenntakerfi esperantismans hafi gert höfundum sem voru í sömu sporum og Þórbergur kleift að kynna sér sýnishorn af því nýjasta í evrópskum bókmenntum og listum. Ævisaga Árna prófasts Þórarinssonar fær gott rúm í safninu, þar sem bæði Guðmundur Andri Thorsson og Ástráður Eysteinsson skrifa um hana upplýsandi greinar. Um sjálfsmyndir Þórbergs í Sálminum um blómið skrifar Soffía Auður Birgisdóttir góða og hlýlega grein. Álfdís Þorleifsdóttir tekur fyrir fagurfræðina í verkum Þórbergs, með áherslu á Sálminn. Helgi Máni veltir fyrir sér kvæðinu Nótt og tengir það hugarævintýrum Þórbergs með Elskunni. Sigrún Margrét Guðmundsdóttir veltir fyrir sér áhrifunum sem þýðingar Þórbergs á sögum Poes hafi haft á hinar hysterísku (og bráðfyndnu!) sögur í Bréfi til Láru og Fríða Proppé sýnir okkur fram á hvernig Gyrðir Elíasson nýtir efnivið úr verkum Þórbergs í „Tréfiski“ Bréfbátarigningarinnar. Síðast en ekki síst, þá sýnir Pétur Gunnarsson hvers vegna hann var útvalinn af Gvuði til þess að skrifa ævisögu Þórbergs Þórðarsonar. Í grein sinni fjallar hann um dagbækur Þórbergs af sérlega fallegri forvitni. Djúp löngun Péturs til þess að skilja viðfangsefni sitt kemur hvergi betur í ljós en þegar hann stendur frammi fyrir dularfullum merkingum í dagbókunum og vangaveltur hans þar að lútandi á köflum sprenghlægilegar. -- „Bækur eru annaðhvort skemmtilega eða leiðinlega skrifaðar. Það er allt og sumt“ sagði Þórbergur í Kompaníinu og til þessara orða hans er vitnað í Að skilja undraljós. Ef það væri nú svo einfalt. Fáeinar greinar í þessu safni eru full tyrfnar fyrir minn smekk og ekki mjög skemmtilegar aflestrar. Þó hefði ég ekki viljað fella neina af þeim út, vegna þess að fræðslugildi þeirra er mikið. Því má segja að það sama gildi um þetta greinasafn og fleiri af svipuðum toga, það er ekki viturlegt að ætla sér að hesthúsa það allt í einni gleypu. Mest er um vert að allir leggja höfundarnir sig einlæglega fram við að skilja Þórberg Þórðarson og verk hans. Og að lestri loknum er lesandinn miklu nær undraljósinu en áður. Hafi aðstandendur þökk fyrir. Eftir Þórunni Hrefnu Sigurjónsdóttur Að skilja undraljós. Ritstjórar Bergljót S. Kristjánsdóttir og Hjalti Snær Ægisson. Háskólaútgáfan. 2011. Titill þessa greinasafns er sóttur í orð Þórbergs Þórðarsonar í bók hans Um lönd og lýði: „Það höfðu engar framfarir orðið í að skilja undraljós, þrátt fyrir sívaxandi töfra eðlisfræðinnar og náttúruvísindanna...“. Benedikt Gröndal mun hafa ort um halastjörnu hið fagra kvæði sitt sem svo byrjar: „Þú undraljós, er áfram stikar / ókunnum heimsins djúpum frá.“ Ég geri ráð fyrir því að ritstjórar bókarinnar vilji benda á að stöðugt muni vera hægt að skrifa um undraljósið Þórberg, enda verði hann eða verk hans aldrei fullskýrð. Og í þessari bók er margt gáfulegt skrifað um piltinn frá Hala í Suðursveit, sem varð stórstjarna í íslenskum bókmenntaheimi. Skrifað um Halastjörnu

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.