Spássían - 2011, Blaðsíða 5

Spássían - 2011, Blaðsíða 5
5 Í JÚLÍ Á SÍÐASTA ÁRI varð Dublin – fæðingarborg ekki ómerkari manna en Jonathans Swifts, Brams Stokers, James Joyce, Williams Yeats og Samuels Becketts – fjórða Bókmenntaborg UNESCO. Þar á undan höfðu Iowa-borg, Melbourne og Edinborg hlotið þennan titil. Nú hefur Reykjavíkurborg einnig lagt inn umsókn og bíður eftir svari frá UNESCO. Hvaða þýðingu hefur það fyrir Dublin að vera Bókmenntaborg? Catherine Duffy, bókasafnsfræðingur á skrifstofu Bókmennta- borgarinnar Dublin, tók sér tíma til að ræða við útsendara Spássíunnar. Hún segir að einn stærsti ávinningurinn sé efling ferðaþjónustu því Dublin sé nú markvisst markaðssett sem bókmenntaborg. Allt sem tengist bókmenntalífi, s.s. söfn, gönguferðir, viðburðir, rithöfundar og bókmenntasaga, er kynnt og markaðssett sem heild og sem dæmi má nefna að á upplýsingamiðstöðvum liggur frammi bókmenntaleiðarvísir að borginni. Að sögn Catherine senda Bókmenntaborgirnar fjórar gjarnan rithöfunda sín á milli til að lesa upp og kynna verk og þær standa að auki fyrir ýmsum viðburðum sem gjarnan eru tengdir öðrum borgum. Dublin stóð t.d. fyrir „Morði í borginni“ 11. maí sl. þar sem glæpasagnahöfundar frá ýmsum Evrópulöndum lásu úr verkum sínum og tóku þátt í umræðum. Höfundarnir áttu það sameiginlegt að vera lítt þekktir á Írlandi en markmiðið var m.a. að hvetja til þess að verk þeirra yrðu þýdd og gefin út þar. Bókmenntaborgin Dublin stendur einnig fyrir staðbundnum viðburðum, s.s. „Ein borg – ein bók“ sem fer fram árlega í apríl. Þá er valið eitt skáldverk sem tengist Dublin og það kynnt sem bók mánaðarins. Dublin-búar eru hvattir til að lesa bókina og markmiðið er að skapa og efla bókmenntaumræðu meðal almennings. Síðast en ekki síst er Bókmenntaborgin Dublin tengsla- og upplýsinganet. Þar gegnir vefsvæði hennar – dublincityofliterature.ie – veigamiklu hlutverki, en þar er að finna lista yfir bókabúðir og útgefendur, yfirlit yfir bókmenntasögu og helstu skáld og rithöfunda borgarinnar, upplýsingar um bókmenntanámskeið, tímarit, bókamarkaði, bókmenntatengda viðburði og ótalmargt fleira. Vefsvæðið er undir ströngu gæðaeftirliti, segir Catherine, og uppfært nær daglega þannig að tryggt sé að upplýsingarnar séu réttar. Ýmsir sem ekki tengjast beinlínis starfsemi Bókmennta- borgarinnar hafa sömuleiðis fengið innblástur og bókmennta- tengdar hugmyndir á síðustu mánuðum. Sem dæmi nefnir Catherine að Dublin sé Vísindaborg árið 2012 og hýsi ráðstefnu á vegum Euroscience. Í tengslum við undirbúning þess hafi komið til tals að tengja viðburðinn bókmenntum. Einnig var skrúðgangan í miðborg Dublin á degi heilags Patreks í ár innblásin af bókmenntum. Ákveðið var að hafa þema í göngunni í fyrsta skipti og rithöfundurinn Roddy Doyle var fenginn til að skrifa smásögu sérstaklega fyrir tilefnið; göngunni var skipt í jafnmarga hluta og kaflar smásögunnar eru og þátttakendur í hverjum hluta túlkuðu einn kafla. Á vefsvæðinu bokmenntaborgin.is sem sett hefur verið upp í tengslum við UNESCO-umsókn Reykjavíkur er bent á gildi íslenskra miðaldabókmennta og aldalanga ritlistarhefð, sem og að bókaútgáfa á Íslandi sé með því mesta sem þekkist á heimsvísu miðað við höfðatölu. Einnig kemur fram að sem Bókmenntaborg vilji Reykjavíkurborg koma á fót Bókmenntahúsi „sem verður miðstöð orðlistar í Reykjavík og lifandi vettvangur fyrir bókmenntaviðburði“. Einnig er stefnan sett á að styrkja ímynd Reykjavíkur sem bókmenntaborgar og efla alþjóðleg tengsl, líkt og Catherine Duffy bendir á að hafi haft mjög jákvæð áhrif í Dublin. Kristín Viðarsdóttir, sem hefur umsjón með umsókn Reykjavíkurborgar, segir að von sé á svari frá UNESCO í sumar. Enginn vafi leikur á því að möguleikarnir sem myndu fylgja því að Reykjavík yrði Bókmenntaborg UNESCO eru fjölmargir og spennandi – líkt og reynslan hefur sýnt í Dublin. Bókmennta- Eftir Ástu Kristínu Benediktsdóttur Bókamarkaður á Temple Bar Mynd í eigu Dublin City of Literature Rithöfundar í bókabúð í Dublin Mynd í eigu Dublin City of Literature borginDublin

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.