Spássían - 2011, Blaðsíða 16

Spássían - 2011, Blaðsíða 16
 16 þeir trúa því m.a. að örlög ráði lífi fólks og enginn efast um að það sé til líf á öðrum bylgjulengdum. Allir íbúar alheimsins trúa á sama guð og skapara, þótt hann gangi undir ýmsum nöfnum, en á Laí er farið í einu og öllu eftir kristnu siðferði. Allt er þetta að sjálfsögðu í mikilli andstæðu við jörðina þar sem íbúarnir eru á góðri leið með að dæma sig sjálfa til glötunar. Inn í ferðalag Inga fléttast ástarsaga en hann verður ástfanginn af Laístúlkunni Naníu. Samband þeirra er afar náið en verður aldrei erótískt því ást þeirra er laus við allar girndir holdsins. Fyrsti líkamlegi ástarfundur þeirra nær hápunkti í faðmlögum, sem Ingi lýsir svo: Þetta átti lítið skylt við þá ástfróun, sem ég hafði áður kynnzt, en þó var það samruni konu og manns. Ef hægt er að hugsa sér fegursta draum um fyrstu ástir sveins og meyjar, – án skugga girndarinnar, aðeins hina hvítu, ósnertu, fórnandi þrá, – þá er ég nokkru nær að lýsa því, sem kom fyrir mig í návist Naníu.3 Þessi ást er algjör andstæða sambands Inga og Fríðu, ástkonu hans á jörðinni, en hún er að hans sögn lauslát og leiðigjörn og samband þeirra virðist hafa verið mestmegnis kynferðislegt. Upphafnar ástir eru einnig viðfangsefni margra annarra bóka Kristmanns. Jón Yngvi Jóhannsson hefur bent á að átökin í sögum Kristmanns séu yfirleitt innri átök þar sem „[h]vatalífið ógnar sífellt stöðugleika samfélags og fjölskyldu og jafnframt hamingju einstaklingsins.“4 Ástarlýsingar Kristmanns þóttu djarfar á sínum tíma en Jón Yngvi bendir á að þótt sögur hans segi frá holdlegum fýsnum geri þær það með nagandi samviskubiti, og „að baki þeim býr draumsýn um ást sem er hafin yfir hið líkamlega og er langtum hreinni og sannari en þær nautnir sem lífið hefur að bjóða.“5 Í Ferðinni til stjarnanna skapar Kristmann einmitt þessa draumsýn sem hluta af útópíunni á Laí; hið fullkomna ástarsamband sem er ekki bundið af jarðnesku siðferði, fýsnum og hefðum. ÚTÓPÍA HVERS? Ekki er þó víst að fyrirmyndarsamfélagið á Laí sé fullkomið í augum allra og ekki er úr vegi að velta fyrir sér fyrir hvern þessi útópía er sköpuð. Samfélagið er friðsamlegt, heilbrigt, kristilegt, syndlaust og andlega þenkjandi sameignarsamfélag en það er einnig afskaplega karllægt. Þegar Nanía kynnir sig fyrir Inga í fyrsta skipti leggur hún línurnar fyrir kvenlýsingar sögunnar en eftir að Ingi hefur verið kynntur fyrir sálfræðingum og mannfræðingum segir hún: „Aðeins Nanía. Ég er hvorki eitt né neitt; ég á bara að vera til taks, ef svo ólíklega skyldi fara, að gestur okkar yrði um stundarsakir leiður á hinum lærðu herrum.“6 (70-71). Konurnar á Laí eru flestar ólýsanlega fallegar og heilla Inga upp úr skónum en vekja ekki hjá honum girnd. Þær gegna engum ábyrgðarstöðum í samfélaginu og koma í raun lítið við sögu (aðrar en Nanía) nema þegar þær færa körlunum svaladrykki. Þorsteinn Skúlason hefur einnig bent á að Laíbúar séu í hlutverki nýlenduherrans algóða sem er yfir aðrar vanþróaðri þjóðir hafinn,7 og fyrirmyndarsamfélagið á Laí er vissulega stéttskipt. Ingi hefur ráðskonu og bílstjóra á sínum snærum en þau tala ekki ensku (sem er alheimssamskiptamál!) og líta ankannalega út í augum Inga, sem kallar bílstjórann t.d. aldrei annað en „froskmanninn“. Segja má að þessi útópía sé sniðin að vestrænum miðstéttarkarlmanni sem er friðarsinni og upptekinn af kristnu siðferði, spírítisma og upphöfnum andlegum ástum,8 og ádeila sögunnar beinist alls ekki gegn stéttskiptingu eða kynjamálum – enda er um að ræða útópíuna um „bræðralag manna“. INGI BJARGAR HEIMINUM Eins og allar sannar söguhetjur bjargar Ingi málunum í sögulok en sú lausn er þó að sama skapi einn allra stærsti galli sögunnar. Atburðarásin er tilþrifalítil og er fyrst og fremst ferðasaga Inga sem gerir afskaplega fátt af sjálfsdáðum en lætur leiða sig um himingeiminn og segir frá nýstárlegum samfélögum og menningarheimum sem hann verður vitni að. Ástarsagan er einnig átakalítil en Ingi og Nanía verða ástfangin nær samstundis þegar þau hittast og eru í sæluvímu þar til þau þurfa að skiljast að í lok bókar. Þegar líður á dvöl Inga á Laí dreymir hann draum sem leiðir í ljós að vandamál jarðarbúa orsakast í raun af eitruðum rykmekki sem jörðin komst eitt sinn í snertingu við. Illska og grimmd jarðarbúa á sér því efnafræðilegar orsakir og það sem meira er: það er hægt að lækna hana. Ingi verður hetja og bjargar heiminum án þess að lyfta fingri og ádeilan fellur þar með nokkurn veginn um sjálfa sig. Guð úr vélinni hefur sigið niður á sögusviðið og tjöldin falla. Afþreyingarbókmenntir eru oft ekki síður merkilegar en kanónubókmenntir – en kannski á örlítið öðrum forsendum. Margt má finna að Ferðinni til stjarnanna, en áhugafólk um vísindaskáldskap ætti samt ekki að láta hana framhjá sér fara. Skáldsagan er merkileg tilraun til að þýða erlent bókmenntaform inn í íslenskt samhengi, en þetta form og staðleysan sem þar verður gjarnan til hentaði vel fyrir þá gagnrýni á einstakling og samfélag sem höfundi lá á hjarta, jafnvel þótt söguþráðurinn hafi murkað lífið úr ádeilunni í lokin. 1 Vitað er að Íslendingar höfðu byrjað að prófa sig áfram með vísindaskáldskap nokkru fyrr. Sem dæmi má nefna smásöguna „Jólaförin árið 2000“ eftir Vestur-Íslendinginn Snæ Snæland (Kristján Ásgeir Benediktsson) sem birtist í tímaritinu Heimskringlu á aðfangadag árið 1900. 2 Kristmann Guðmundsson, Ferðin til stjarnanna, Almenna bókafélagið, Reykjavík, 1959, 95. 3 Sama heimild, 141. 4 Jón Yngvi Jóhannsson, „Höfundar á erlendri grundu“,Íslensk bókmenntasaga IV, Mál og menning, Reykjavík. 2006, 299. 5 Sama heimild, 300. 6 Kristmann Guðmundsson. 1959. Ferðin til stjarnanna. Almenna bókafélagið, Reykjavík, 71–72. 7 Þorsteinn Skúlason, „Augun gul, hárið blátt og blóðið grænt. Ferðin til stjarnanna og upphaf íslensks vísindaskáldskapar“, Tímarit Máls og menningar 64(2), 2003, 12. 8 Í þessari grein er vísvitandi sneitt hjá því að lesa skáldsöguna ævisögulegum lestri og tengja aðalpersónuna við höfundinn sjálfan. Áhugasamir geta lesið ævisögu Kristmanns í fjórum bindum og dregið eigin ályktanir út frá því. Ferdin til stjarnanna

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.