Spássían - 2011, Blaðsíða 33

Spássían - 2011, Blaðsíða 33
33 MAMMA er úti í verksmiðjunni, hún á enga skó, ég er frammi í eldhúsinu að fást eitthvað við sérrí, á í stökustu vandræðum með legsteinablúsinn, atvinnulífið er lamað en landið er að rísa, alltaf að rísa, illa skil ég það orðasamband, kommentakerfin loga af heift sem á rætur í samviskubiti, þótt ekki megi segja það upphátt, allir eru fullir, fólk er sauðdrukkið, prófessorarnir líka, hér úti er enga eftirvinnu að hafa, við höfum ofan af fyrir okkur með því að gægjast í Tekjublaðið, ég á í mesta basli með legsteinablúsinn, barnið grætur og heldur að það geti gengið, gangur er margra ára nám, sólin er ekki gul, ég er í eldhúsinu með Bob Dylan, þú veist, les ljóð, maður heyrir svo margt, ég hef heyrt út undan mér að unnið sé að höfundalexíkoni Íslands og forflokkað eftir mikilvægi, A-höfundar, B-höfundar, C- og D-höfundar, ég veit ekki eftir hverju er farið, líklega stafrófinu. En hvað var ég að segja, „Á árshátíð hvíslaranna var rífandi / fjör og kjaftaði á hverjum og einum / hver tuskan“ (47), ég var víst að lesa Höfuð drekans á vatninu eftir Guðbrand Siglaugsson, „Og Guð skapaði demantinn. / Hann skapaði einnig blýantinn / og pergament og silki. Bob Dylan og páfuglinn / gallabuxur og biðraðir“ (15), önnur lína tekur óðar yfir, enda er mér ekki mál að mæla, eitthvert tal um lággróður væri sennilega við hæfi hér, menn hafa fundið upp líkingar við gróður til að skýra heiminn, kannski ekki síst þá nauðaeinföldu staðreynd að hina freku ber jafnan hæst og þeir sólunda því sem hinir hógværu hefðu annars erft, en ég læt af öllu rósamáli um gróður, allt sem sagt er orkar ekki bara tvímælis heldur fær maður það jafnharðan í bakið, einkum það sem krítískt er, og það færi mér illa, að þurfa að líta í eigin barm, vitur kona sagði við mig: „Að líta í eigin barm er manninum óeðlileg stelling.“ Ekkert merkilegra hefur verið sagt á Íslandi síðustu ár. En látum berast með tilfinningu, tónlist hljómar undir öllu saman og ratar jafnvel í eitthvað sem á að heita ritdómur, þúsund símar út um allar trissur og enginn þeirra hringir, allskyns fólk verður á vegi manns og sumt af því er fjandi magnað, einhvern tíma fyrir nokkrum árum hitti ég til dæmis nokkra menn, þeir voru dimmraddaðir, þeir voru innsetning, þeir voru staddir á kaffihúsi, á bar, og ég tók þá tali, um síðir fór vel á með okkur, ég fór með þeim í kjallara handan götunnar, þar er nú kaffihús, á því kaffihúsi er haldinn stórmerkur viðburður árlega sem heitir Litla ljóðahátíðin, þá var þar allt í drasli, myndlist innan um ranimosk, drasl, spýtnabrak, kassettutæki, tækið var sett í gang, Bob Dylan söng þetta sem nú glymur í höfði mínu og ratar fram í fingur, mörgum árum síðar, alvöru tónlist kemur úr kassettutækjum, annað getur ekki verið, einn af þessum mönnum var skáldið sem hér er ekki beinlínis til umfjöllunar því ég hef fátt sagt sem málinu kemur við, hann fór með ljóð, ég gleymi því ekki, rödd skáldsins, er haft fyrir satt, tengist ljóðlistinni, þeir fullyrða þetta en því er líka staðfastlega neitað, samt hef ég þessa rödd úr minni mínu og get ekki að því gert, hvað sem öllum hlutlægnisórum líður, hlutlægni bla, ble og blú, rödd, það er ekki verra orð en hvað annað til að lýsa þessum ljóðum, ég á við ljóðunum í ljóðabókinni Höfuð drekans á vatninu, mannsrödd er nokkuð merkilegt fyrirbæri og hver veit nema hún tengist einmitt skáldskap nánari böndum en almennt er viðurkennt, ég hafði ekki hugmynd um það en Guðbrandur hefur gefið út 11 ljóðabækur, hvorki meira né minna, þessi er sú ellefta, þær hafa farið furðu lágt, alveg hef ég misst af þeim, en hér er skáld með eigin rödd, ég er að missa mig hér, já, ég ætla að sleppa mér, ég ætla að segja að Guðbrandur sé best geymda leyndarmál íslenskrar ljóðlistar, síðan ætla ég að setja punkt. Það er harla gott hjá bókaforlaginu Uppheimum að sinna ljóðabókum, reyndar til fyrirmyndar, ekki vegna einhverrar erindisleysu um lággróður og stafróf heldur verður einfaldlega að gefa út ljóðabækur, í þeim er sagt eitthvað sem er ekki hægt að segja í öðrum formum, eitthvað sem verður að segja, eitthvað sem hvorki er nöldrið né upphafningin í tímanum, og ég segi og skrifa: Guðbrandur er vel geymt leyndarmál í íslenskri ljóðlist, eiginlega er það fráleitt hversu óþekktur hann er, lengst aftan í stafrófi, og að vissu leyti er svolítið gaman að eiga sér leyndarmál, ekki vegna tuggunnar um vanmetna og ofsótta, lögmáls sem gerir að verkum að notalegra getur verið að halda með því sem er ekki hæpað, heldur vegna þess, einfaldlega, að þetta er gott skáld, harla gott á góðri blaðsíðu, sérlega ekta, jafnvel stundum vel innblásið skáld sem dælir út textum sem eru lausbeislaðir eins og sköpunarkrafturinn vill stundum verða þegar laust er um hann og frjálst, og jú, það er líka gaman að vita af einhverju sem aðrir vita ekki af, þannig virkar það (nú hef ég kjaftað frá). Gott ef ég hitti manninn ekki aftur síðar, það er harðbannað í ritdómum að fjasa um hvenær maður hefur hitt skáldið, það má enginn gera yfirleitt nema Tryggvi Líndal, og ég, ég hef aldrei hitt nokkurn mann annan en þennan höfund hér sem hefur lesið Hina undursamlegu sögu um skuggalausa manninn eftir Adelbert Von Chamisso, A-höfund samkvæmt tísku sinnar tíðar, G-höfund gleymskunnar í samtímanum, eða F, jafnvel Ö, við spáum í sífellu um hvað muni lifa og höfum undantekningarlaust rangt fyrir okkur, undantekningarlaust, „þetta mun lifa”, segjum við en alveg út í bláinn, það er ekki annað en hjátrú, hlutirnir lifa eftir ýmsum leiðum, jafnt eftir yfirborðslegum tískustraumum sem fræðaumfjöllunum, frá A-D, við vitum ekki hvað lifir og það er engin regla til um hvernig bókmenntir líta út, raunar er gleymskan orðin ansi aðgangshörð og flest mun gleymast, ef ekki allt, það er lang líklegast, en það er alvöru að kunna skil á Chamisso, það kalla ég menntun. Hvað um það, þetta eru skemmtileg ljóð, unnin með járnkarli fremur en blýanti, hrjúf en mild og hlý, fjarri vafasömum yl og reiði kommentakerfanna, einnig fjarri allri andans upplífgun og jafn fjarri þeirri trúföstu iðju að salla niður allt nöldur og sérhvert kvein, af skyldurækni, á varðberginu sem vald og vani úthluta. Hér er nefnilega ort um ekkert, hvorki jákvætt né neikvætt, veðrið verður skáldinu að yrkisefni, mikilvægari yrkisefni en veðrið eru ekki til, og orðið er langt síðan agnúast var út í þann ósið að yrkja þurfi um eitthvað; skáld er raunar algengt orð í bókinni, er það ekki bannorð? Klukkur eru annað þema. Heimsbókmenntir það þriðja. En þetta er hversdagsskáldskapur. Með háfleygum hráslagsblæ. Orðfærið er stundum fornt og sérlundað og stundum nútímalegt slangur, allsendis óvænt, vísanaheimurinn er þéttur en áreynslulaus, alþjóðlegur og rúral, Pete Seeger, Bob Dylan – tilvonandi Nóbell – jafnt sem þjóðlegt gómsæti, Yeats, Rilke, Hómer í bland við Ísland, án landkynningar, þetta er ekki uppskrúfað sjáðu-mig-ég-er-bókmenntir en heldur enginn belgingur sem reynir að vera töff, þess þurfa þessi ljóð ekki; einhver óskiljanleiki svífur yfir vötnum, sem er það sem stundum gerir ljóð þess virði að lesa þau, þessi viðbót, þessi aukreitis merking sem er utan seilingar, raunar er merkingin alls ekkert sem liggur á borðinu í þessum ljóðum, stundum eru þau eins og spjall við skrýtinn, kankvísan karakter, stundum lýsingar á hversdagslegum uppákomum á heimili sem mann langar til að heimsækja, stundum óvæntar myndir, frásagnarstemmur, stemmningar fullar af blygðunarlausri orðkynngi sem minnir á orkneyska skáldið George Mackey Brown sem Aðalsteinn Ásberg þýddi bók eftir fyrir þúsund árum síðan, harla góða. Með vissum hætti, fjandinn, ég sagði vissum hætti, það veit ekki á gott, með vissum hætti eru ljóðin í Höfði drekans á vatninu ekki aðeins ójöfn heldur ókláruð, allt sem er óklárað ber vott um frjósemd, við það er einhverju að bæta, það er einmitt einkenni á góðum og lifandi skáldskap. Ljóð Kastar kveðjum sem víðast. Kominn til að fara fjöll eftir fjall eftir fjársjóðum, perlueygðum meyjum og hugprýðisvotti, vogar sér þessvegna slóð akur og skóg, hrjóstur og vellandi gróanda, sér í hendi sér að lifir á hverjum fingri ljóð. Fáeinir punktar (og nokkrar kommur) um og út frá nýrri ljóðabók Guðbrandur Siglaugsson. Höfuð drekans á vatninu. Uppheimar. 2011. Eftir Hermann Stefánsson

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.