Spássían - 2011, Blaðsíða 6

Spássían - 2011, Blaðsíða 6
 6 Þegar langþráð sumarfrí rennur upp hugsa margir sér gott til glóðarinnar að fá nægan tíma til að sökkva sér í lestur, og ekki bara á léttmeti. Spássían fékk Helgu Elísabetu Jónsdóttur, afgreiðslufulltrúi í Bókasafni Mosfellsbæjar, til að mæla með áhugaverðum bókum til að hafa með sér út í sólina – eða upp í sófa á meðan sumarregnið lemur rúðurnar. Flestar eiga þær það sameiginlegt að vera fræðandi og tengjast sögulegum staðreyndum en margar kynna lesandann jafnframt fyrir ólíkum menningarheimum. Fyrst og fremst eru þær þó áhugaverðar og vel skrifaðar, segir Helga Elísabet. Morgnar í Jenín eftir Susan Abulhawa í þýðingu Ásdísar Guðnadóttur „Þessa bók er afar fræðandi að lesa til að gera sér betur grein fyrir ævarandi átökum Ísraela og Palestínumanna. Hún fjallar um það hvernig Ísraelsmenn hafa yfirtekið land og heimili Palestínumanna og lýsir vel heiftinni sem þarna ríkir. Í byrjun er sagt frá palestínskri bændafjölskyldu. Ísraelsk hersveit flæmir hana ásamt öðrum burt af landi þeirra, rekur upp í fjöllin og gerir að hálfgerðum flóttamönnum. Einn úr herdeildum Ísraels tekur barn frá fjölskyldunni og elur upp sem sitt eigið, en seinna mætir sá drengur bróður sínum. Mikið drama.“ Kirkja hafsins eftir Ildefonso Falcones, í þýðingu Maríu Ránar Guðjónsdóttur „Þetta er stór og dramatísk örlagasaga um sögulegt efni. Hún fjallar um fátæka, spænska bændur sem eru kúgaðir af lénsherrum, en feðgarnir sem sagan fjallar aðallega um komast til Barcelona við illan leik. Þar tekur sonurinn þátt í að byggja eina af fegurstu kirkjum heims.“ Leikur Engilsins eftir Carlos Ruiz Zafón í þýðingu Tómasar R. Einarssonar „Bókin fjallar um dreng sem missir föður sinn ungur, elst upp í kjallara blaðaútgáfu í Barcelona og verður góður rithöfundur. Hann gerir síðan samning við mjög dularfullan útgefanda. Þetta er saga um yfirnáttúrulega atburði og mikil spenna. Fyrri bók höfundarins er Skuggi vindsins. Hún hefur notið mikilla vinsælda og það má svo sannarlega mæla með henni líka.“ Í SUMARFRÍIÐStarfsmað ur bókasaf ns mælir me ð Óskar og bleikklædda konan eftir Eric-Emmanuel Schmitt í þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur „Óskaplega falleg saga sem allir ættu að lesa, enda hálfgerð dæmisaga. Þetta er hluti af þríleik um trúarbrögðin en hér er fjallað um kristnina. Í sögunni segir frá dreng sem á tíu daga ólifaða og ákveður að lifa lífinu með því að taka einn áratug á hverjum degi. Hér er mjög skemmtilega sagt frá svo frásögnin verður grátbrosleg.“ Engan þarf að öfunda eftir Barböru Demick í þýðingu Elínar Guðmundsdóttur „Það er fræðandi og forvitnilegt að lesa um Norður-Kóreu og ástandið þar. Höfundurinn er blaðakona sem hefur í mörg ár tekið viðtöl við flóttamenn sem komist hafa frá Norður- Kóreu. Hún segir sögu nokkurra einstaklinga á ýmsum aldri og af báðum kynjum, fólks sem hún talar við með nokkurra ára millibili eftir að það nær að flýja til Suður-Kóreu, og lýsir því hvernig ástandið var - og er enn. Fólk hefur unnvörpum dáið úr hungri og vosbúð en þarna er allt svo lokað frá umheiminum að enginn veit hvað er í raun að gerast.“ Reisubók Guðríðar Símonardóttur eftir Steinunni Jóhannesdóttur „Þessi bók er ekki bara fræðandi heldur vel skrifuð líka. Það er áhugavert að lesa um Tyrkjaránið og sjá um leið hinn mikla menningarmun og hvað Íslendingar bjuggu við frumstæð lífskjör á þessum tíma.“ Mynd: Rut Ing

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.