Spássían - 2011, Blaðsíða 11

Spássían - 2011, Blaðsíða 11
11 er eignuð vísindum (þó stundum mjög lauslega eða á óraunsæjan hátt). Fantasía breytir einum eða fleiri þáttum þess heims sem við þekkjum þar sem breytingin er rakin til galdra. Finna má sömu eiginleika góðs skáldskapar í þessum greinum og í venjulegum skáldskap; flókna persónusköpun, áhugaverða flækju, nokkuð vel skrifaðan texta og eitthvað bitastætt um stöðu manneskjunnar í heiminum. Að auki má finna tvískiptingu innan geirans, þar sem sumir nota minni hans (t.d. geimverur, geimskip, vélmenni) sem bókmenntaleg tákn á meðan aðrir nota sennileg afbrigði af þessum minnum til að skapa sennilegar framtíðarsýnir. Báðar tegundir vísindaskáldskapar geta verið góðar, miðlungs eða hræðilegar. Lesendur hafa gjarnan mjög sterkar skoðanir á því hvaða gerð þeir kjósa: „Allt annað en harður vísindakáldskapur er skrumskæling á greininni“ eða „Vélar eru ekki málið – heldur bókmenntalegt gildi“. Ég les - og skrifa - bæði harðan og bókmenntalegan vísindaskáldskap, þó aðallega smásögur af síðarnefndu tegundinni.“ Hún segist líta sérstaklega upp til Ursulu K. LeGuin: „Fyrir mitt leyti gengur hún á vatni. Verkin hennar hafa allt: Dýpt, skírleika, flóknar persónur, heillandi aðstæður, vel ígrundaðar hugmyndir og mestu mælsku sem finna má í vísindaskáldskap.“ Ófáar skáldsögur Nancy Kress fjalla um þróun með aðstoð erfðatækni, nokkurs konar gerviþróun. Í sumum tilfellum veldur lítil breyting heilu þróunarstökki með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Í ljósi hins aukna skilnings sem við höfum öðlast á erfðafræði og því hlutverki sem hún er farin að spila í lífi fólks með genameðferðum og kortlagninu gena; sér hún fyrir sér að við séum á barmi álíka þróunarstökks? „Þetta er í fyrsta skipti sem mannkynið hefur haft tök á því að stjórna sinni eigin þróun á genasviði. Ég veit ekki hvernig þetta á eftir að spilast, þótt ég telji víst að ferlið verði hægara en það sem ég lýsti í Beggars in Spain - skáldsögur verða að flýta atburðum ellegar verða allar persónur dauðar áður en samfélagið breytist. „Stökk“ er því sennilega ekki rétta orðið. Og erfðatækni er, líkt og öll vísindi, samofin stjórnmálum og efnahagsmálum. Því er erfitt að spá fyrir um nokkuð – enda eru rithöfundar ekki spákonur. Við sýnum mögulega framtíð, ekki framtíðINA. Á hinn bóginn hafa nú þegar orðið breytingar á heimsvísu í jarðyrkju þökk sé erfðatækninni. Á meðan íbúum jarðar fjölgar (og sumar spár segja að fjöldinn verði um 10 milljarðar við lok þessarar aldar), mun fikt í erfðaefnum landbúnaðarafurða halda áfram svo hægt verði að fæða alla. Dýrin eru næst á dagskrá og er það ferli þegar hafið. Fyrr eða síðar kemur að okkur.“ Nancy er bjartsýn á þessa þróun þótt hún telji víst að einhver stórslys verði á leiðinni. „Þau fylgja. Vísindi eru tvíbent sverð. Daginn sem maðurinn uppgötvaði eld varð íkveikja möguleg.“ SPENNANDI UNGLINGASÖGUR Um þessar mundir er Nancy að leggja lokahönd á nýja unglingabók sem ber vinnuheitið Flash Point. „Þetta er önnur unglingaskáldsagan sem ég skrifa undir mínu eigin nafni. Ég skrifaði hana af sömu ástæðu og ég skrifa allar bækur mínar: Mér komu persónurnar og aðstæðurnar í hug og varð spennt. Hún gerist í nánustu framtíð og segir frá unglingum sem eru ráðin af sjónvarpsstöð til að taka þátt í raunveruleikaþætti. Þátturinn reynist vera öðruvísi en krakkarnir áttu von á og hafa óvæntar afleiðingar fyrir alla aðila. Sagan inniheldur lítið af spennandi framtíðartækni. Hún gæti næstum því gerst í nútímanum. Ég er að ganga frá þriðja uppkasti. Auðvitað er möguleiki að titillinn breytist ef ritstjóranum mínum líkar ekki Flash Point. Hún hefur ekki enn séð handritið. Ég vona að henni finnist sagan skemmtileg!“ „Vísindi eru tvíbent sverð. Daginn sem maðurinn uppgötvaði eld varð íkveikja möguleg.“

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.