Spássían - 2011, Blaðsíða 14

Spássían - 2011, Blaðsíða 14
 14 „Hvar er þessi dásamlegi, stóri, langi, harði hlutur, bein að ég held, sem Apamaðurinn lamdi fyrst einhvern með í kvikmyndinni og, rymjandi af nautn yfir að hafa framið fyrsta morðið, kastaði síðan upp í himininn þar sem hann hverfðist yfir í geimskip sem þrykkti sér inn í geiminn til að frjóvga hann og framkallaði í lok myndarinnar fallegt fóstur, dreng að sjálfsögðu, sem sveif um Vetrarbrautina án – þótt undarleg megi virðast – nokkurs legs, án nokkurs konar forskriftar?“ Svo spyr Ursula K. LeGuin,1 en bætir við að hún hafi ekki áhuga á að vita það, annars konar sögur séu meira spennandi. Svarið er auðvitað kvikmyndin 2001: A Space Odyssey, þar sem karllegt og kvenlegt táknmál geimskipa var sett fram á svo æpandi hátt að öll greining hlýtur að vera óþörf. Myndin ýkir því upp það kynferðislega táknmál sem virðist annars alls staðar að finna þegar tæknin kemst í aðalhlutverk í skáldskap. Vísindaskáldsögur sem byggja aðdráttarafl sitt á lýsingum á tækjum og tólum, undirgrein sem við getum kallað tæknisögur, hafa í gegnum tíðina aðallega verið markaðssettar fyrir unga drengi. Aðalpersónurnar eru yfirleitt líka unglingspiltar sem lifa og hrærast í algjörlega karllægum heimi. Tæki sem vísa táknrænt til æxlunarfæra kvenna eru því sjaldséð en þeim mun meira um kröftugar og hraðskreiðar árásarflaugar. Tólin þurfa þó ekki endilega að vera stór - eins og við öll ættum að vita - en þau þurfa að virka rétt. Neil Harris taldi einmitt „fagurfræði virkninnar“ („operational aesthetic“) hafa náð fótfestu í bandarísku samfélagi á 19. öld2 og langar lýsingar á tæknilegum smáatriðum, á því hvernig hlutirnir virka, geta í því ljósi verið mikilvægur hluti af lestraránægjunni, burtséð frá lögun tækjanna. Ferðin til tunglsins eftir Jules Verne, fjallar til dæmis fyrst og fremst um öll tæknilegu vandamálin sem þarf að leysa svo hægt sé að skjóta manni í risastórri fallbyssukúlu til tunglsins. Fegurð hinnar gríðarlöngu fallbyssu getur verið ánægjuaukandi en hún nægir ekki ein og sér. Vísindaskáldsagnahöfundurinn Gwyneth Jones hefur að auki bent á að vísindaskáldskapur snúist ekki endilega um að vera með hvert vísindalegt smáatriði kórrétt, heldur að sannfæra lesandann um að höfundurinn hafi orðræðu vísindanna á valdi sínu.3 Það er því fyrst og fremst tungumálið sem þarf að virka; lýsingarnar á tækjunum þurfa að vera nógu magnaðar og sannfærandi. Áður en Tom hóf vélina á loft, setti hann audiogyrextækið í samband, en það hafði hann fundið upp, til að draga úr áhrifunum af því, er vélin stigi skyndilega. Síðan tók hann í gasspjaldið og hleypti kjarnorkunni á þrýstiloftslyftivélarnar. Hávaðinn smájókst upp í ógurlegt öskur og „Rannsóknarstofan fljúgandi“ tók að lyftast.4 Árið 1910 skapaði Edward Stratemeyer unglingahetjuna Tom Swift og bjó til seríu spennubóka fyrir unglinga með áherslu á vísindi og tækni. Dóttir hans, Harriet S. Adams, og rithöfundurinn Howard Garis tóku þátt í að skrifa bækurnar í fyrstu seríunni en fjöldi penna hefur haldið áfram að framleiða rúmlega 100 Tom Swift bækur undir höfundarnafninu Victor Appleton og Victor Appleton II, allt fram á þessa öld. Flestar bækurnar um Tom Swift fjalla fyrst og fremst um tækin og tólin sem hann finnur upp af snilli sinni og hjálpa honum við að sigrast á andstæðingum sínum. Þær eru því dæmigerðar „tæknisögur“ þar sem vísindamaðurinn er upphafin hetja, þótt formúlan fyrir söguþræðinum sé fengin að láni úr spennusögum. Tæknisagan fjallar um ótrúlegar uppfinningar og vísindamennina á bak við þær, stundum brjálaða, því vísindamenn búa alltaf líka yfir möguleikanum á að koma illu til leiðar. Edward James bendir á að frá 19. öld hafi athyglin hins vegar beinst í minna mæli að uppfinningamönnunum og frekar að tækninni sjálfri. Á þessum tíma hafi fólk verið heillað af vélum og tólum og meðvitað um að tæknin myndi breyta lífinu hér á jörðu.5 Í upphafi 20. aldar voru svo hetjur eins og Tom Swift notaðar markvisst til að græða á þessum áhuga. Tæknisögur á borð við þessar voru oft ódýrar, framleiddar í massavís af leigupennum og einblíndu fyrst og fremst á aðdráttarafl furðulegra nýrra uppfinninga. Allt annað var aukaatriði, t.d. söguþráður, málfar eða jafnvel staðreyndir. Þessi einkenni eiga ef til vill sinn þátt í því slæma orði sem vísindaskáldskapur hefur enn á sér, fyrir að vera „lélegar bókmenntir“ og fyrst og fremst afþreying. Þær beina þó einnig athygli okkar að því að vísindaskáldskapur byggir ekki hvað síst á ómótstæðilegu aðdráttarafli umræðunnar um nýjustu tækni, með öllum sínum tækniorðum og vísunum í viðurkenndar, vísindalegar staðreyndir samtímans. 1 LeGuin, Ursula K., „The Carrier Bag Theory of Fiction”, Dancing at the Edge of the World, New York, Grove Press, 1989, 166-167. 2 James, Edgar, Science Fiction in the 20th Century, Oxford, Oxford University Press, 1994, 27. 3 Jones, Gwyneth, „Getting Rid of the Brand Names“, Deconstructing the Starships. Science, Fiction and Reality, Liverpool, Liverpool University Press, 1999, 16. 4 Appleton, Victor, Rannsóknarstofan fljúgandi, þýð. Skúli Jensson, Hafnarfjörður, Bókaútgáfan Röðull, 1955, 101. 5 James, 24-25. Mannkynssagan sögð með reðurtáknum. Þýðingar á vinsælum tæknisögum fyrir og um drengi komu aðallega út á Íslandi á 6. og 7. áratug síðustu aldar. Margar bókanna voru þó skrifaðar mun fyrr og endurspegla bjartsýni á möguleika tækninnar sem atburðir seinni heimsstyrjaldarinnar og ógn kalda stríðsins hafði þá enn ekki náð að dempa. Úr Konungum geimsins eftir Captain W.E. Johns sem kom út í íslenskri þýðingu árið 1960. Með eldflaug til annarra hnatta kom út í íslenskri þýðingu Gunnars Sigurjónssonar árið 1961. Til dýrðar kraftmiklum tólum Eftir Auði Aðalsteinsdóttur

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.