Spássían - 2011, Blaðsíða 45

Spássían - 2011, Blaðsíða 45
45 staðfest sem módernískt úrvalsverk á stórri yfirlitssýningu í tilefni fimmtugsafmælis listamannsins í hinu þekkta nútímalistasafni MoMA í New York 1939. Þar var verkið svo varðveitt – og markaði stundum vettvang mótmæla í Víetnamstríðinu, auk þess sem úðað var á það með rauðu árið 1974 til að mótmæla pólitískum atburðum í Bandaríkjunum. Þess má geta að við ávarp bandaríska utanríkisráðherrans vegna sprengjuárásar í Írak 2003 var blátt klæði látið hylja veggteppi af myndinni í húsakynnum Sameinuðu þjóðanna. Greinilega var talin hætta á að boðskapur verksins bærist inn í nýtt samhengi. Ljóst er að Guernica býr yfir geysilegu mikilvægi, aðdráttarafli og áhrifamætti – sem í sjálfu sér staðfestir gildi listarinnar. Í Museo Reina Sofía má standa nokkuð nálægt verkinu, skynja efnislega nærveru þess og áferð, og leyfa áhrifunum af þessu mónumentalíska, dýnamíska og formsterka verki að „hvolfast“ yfir sig. Fagurfræði myndmáls Guernicu er undirstrikuð með því að sýna jafnframt ljósmyndir Doru Maar af ferlinu við gerð verksins. Fagurfræðin er samofin þróun nútímalistarinnar, eða módernismans. Skilningur á módernisma hefur stundum takmarkast við hugmyndina um hið sjálfbæra listaverk sem lýtur eigin lögmálum, óháð skírskotun til ytri veruleika; listaverk sem byggir á algildi og einstæði hinnar listrænu tjáningar. Löngum hefur verið litið á nútímalistasafnið í New York sem hið „hlutlausa“ hvíta rými og því fullkomna umgjörð slíkra verka. Dvöl Guernicu í því safni sem módernísks „meistaraverks“ stuðlaði án efa að því að hefja myndina á stall. Það kallaði á andaktugar viðtökur – og vissulega hefur verkið algilda skírskotun til stríðsandúðar, óháð tíma og rúmi. Varðveisla og uppsetning verksins í Prado- safninu innsiglaði goðsagnakenndan veruleika verksins, en þar töldu ýmsir það njóta sín betur en í MoMA. Slík „ára“ er vitaskuld orðin hluti af merkingu verksins. Í Museo Nacional Centro de Arte Reina Sofía er hins vegar leitast af djörfung við að virkja ögrandi myndmál Guernicu, myndmál sem er háð persónulegri túlkun áhorfandans í samspili við reynslu hans, væntingar og skilningarvit. Nýjar merkingarhliðar eða „týndar“ ljúkast upp í samræðu verksins við safngesti, safnrýmið og önnur verk, sögu og samtíð. 1 „Exhibition and museum attendance figures 2009“, The Art Newspaper, nr. 212, apríl 2010, sótt 10. maí 2011 af http://www. theartnewspaper.com/attfig/attfig09.pdf. 2 Sjá markmiðslýsingu safnsins á vandaðri heimasíðu: http:// www.museoreinasofia.es/museo/mision_en.html [sótt 10. maí 2011], ásamt öðrum gagnlegum upplýsingum. Sjá einnig bókina The Collection. Museo Nacional Centro De Arte Reina Sofía, Keys to a Reading (Part I), [ensk þýð.] ritstj. Manuel J. Borgja-Villel o.fl., Textar eftir Varlos Martín o.fl., Madrid og Barcelona, Muso Nacional Centro de Arte Reina Sofia / Ediciones de la Central, 2010, 150-169. 3 The Collection, 2010, 165. Hönd hins fallna hermanns. Ein af mörgum undirbúningsmyndum Picassos fyrir Guernicu. Stolnar stundir Ágústs Borgþórs Sverrissonar, er bók sem vekur ansi mótsagnakennd viðbrögð hjá mér. Annars vegar hef ég lúmskt gaman af marglaga íróníu verksins. Ágúst Borgþór leikur sér með lagskiptan veruleika bókmenntaverks: viss speglun höfundarins og aðalpersónunnar er skemmtilega sjálfsírónísk og tengsl ritverksins sem þessi aðalpersóna er að skrifa við það ritverk sem höfundurinn hefur skapað setur fram áhugaverðar spurningar. Hins vegar skapar hið íróníska sjónarhorn ákveðin vandamál sem höfundur nær ekki að bregðast við. Sagan fjallar um mann sem reynir að raða saman brotakenndu lífi í heildstæða frásögn. Aðalpersóna verksins, Þórir, dvelur löngum stundum á kaffihúsum við skriftir. Þessar stundir eru stolnar í þeim skilningi að hann segir engum frá þeim heldur læst vera í vinnunni. Hann skrifar niður myndir úr eigin lífi sem hann reynir síðan að tengja saman í heildstæða frásögn. Vandamál hans er að hann getur bara skrifað um það sem hann hefur upplifað og hann telur sig ekki hafa upplifað neitt markvert. Því sé enginn söguþráður í skrifunum. „Honum leið eins og hann væri staddur í sögu, gallinn var sá að hann var sjálfur höfundurinn og sagan algjörlega ómótuð, líklega var engin saga, bara tilgangslaus óskapnaður, og skyndilega var hann gagntekinn skelfingu.” (60-61) Hann þarf því að skapa atburðarás í eigin lífi til þess að geta skapað söguna sem hann vill skrifa. Ákveðin líkindi með upplýsingum sem höfundur hefur sjálfur gefið upp um vinnuaðferðir sínar og tilurð þessarar bókar skapa svo eitt lagið í bókinni sem er skemmtilega full af sjálfsíróníu. Bókin fjallar því kannski fyrst og fremst um skáldskap, um það að skrifa sitt eigið líf, en hún spyr líka spurninga um merkingu hins hversdagslega. „Raunveruleikinn er ekki skáldskapur”, segir ónefnd persóna í samtali við Þóri, en í vissum skilningi er það þó svo í heimi bókarinnar. Atburðarásin er búin til, næstum því meðvitað, af persónum til að bregðast við einhverri þörf fyrir lífsfyllingu og til að búa til skáldskap. (41) Þessi íróníski tónn kemur einnig fram í ýmsum öðrum atriðum og myndmáli sögunnar. Þórir fær eins konar opinberun eða óljósa upplifun sem gerir það að verkum að líf hans breytir um stefnu. Hann segir upp vinnunni og uppgötvar að hann hefur þörf fyrir einveru og einhverja sköpun. Sögumaður lýsir því sem að hann leysist upp í andartakinu. En það er eitthvað falskt við þetta. Gönguferðin sem breytir lífi hans er til komin vegna sjálfshjálparbókar sem ungur og ofurhress yfirmaður hans er að lesa og lýsingin er nánast eins og handrit að auglýsingu. Að þessi innhverfa sköpun sé sprottin úr slíkum jarðvegi smyr einu íróníulaginu enn á frásögnina. En þessi lýsing dregur jafnframt fram sjálfhverfuna sem einkennir aðalpersónuna og þar kemur að helsta galla bókarinnar. Allar aðrar persónur verksins eru skilgreindar út frá Þóri og eiga sér afskaplega takmarkað líf utan þess, nema þá helst sem stereótýpur sem hægt er að hæðast að. Sérstaklega á þetta við um konurnar í verkinu. Kápumynd bókarinnar á sér samsvörun í mynd sem rætt er um í verkinu sjálfu. Þetta er mynd af Þóri þar sem hann situr á sínum vanalega stað, þar sem hann nýtur stolnu stundanna. En aftan á bókinni, þar sem myndin heldur áfram, má greina óljósar útlínur konu sem situr við næsta borð. Þessi kápumynd lýsir persónusköpun bókarinnar ágætlega. Karlmaðurinn á framhliðinni sem situr að skrifum er dreginn skörpum línum en útlínur konu í hlýrakjól og með armband eru óljósar. Engir andlitsdrættir eru greinanlegir; hún situr og hallar sér fram yfir borð. Teiknarinn segir enda í bókinni að hún sé sköpunarverk Þóris, persóna sem hann er að skapa með skrifum sínum. Aðalfókusinn er á viðkvæman hálsinn og svo höndina með skartgripnum þannig að myndin gefur annars vegar til kynna varnarleysi og óvirkni og hins vegar efnishyggju eða skrautgirni sem minnir óneitanlega á konurnar í verkinu. Drífa Sjöfn, sem Þórir notar til að reyna að skapa atburðarás úr lífi sínu, er lýst sem biturri, einmana, fráskilinni, eldri konu. Hún nýtur ekki samúðar sögumanns sem segir um hjónaband hennar að hún hafi „[hlotið] að uppgötva galla [eiginmannsins] og deila þeirri vitneskju með honum.” (52) Eiginkona Þóris er sömuleiðis fyrst og fremst táknmynd fyrir tíðarandann. Hún hefur látið gera upp íbúð þeirra eftir nýjustu tísku en ekki eigin smekk, því hún getur ekki staðist tískustrauma. Hún er hinn dæmigerði Íslendingur að þessu leyti en hún er fyrst og fremst hin dæmigerða íslenska kona „ómáluð og í flíspeysu” sem reynir að vera eitthvað annað en hún er. Sú íróníska nálgun sem gegnsýrir verkið gerir það oft bæði fyndið og skemmtilega gagnrýnið á samfélagið. Gallinn er sá að lítil tilfinning fyrir nánd myndast milli lesanda og verks, bæði gagnvart persónum og atburðum: Þetta snertir mann lítið en maður glottir út í annað við og við. Ágúst Borgþór Sverrisson. Stolnar stundir. Sögur. 2011. Eins og í sögu Eftir Ásdísi Sigmundsdóttur

x

Spássían

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spássían
https://timarit.is/publication/1454

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.