Dagblaðið Vísir - DV - 17.01.2020, Blaðsíða 25
KYNNING
Ungbarnasund og líkamsrækt
á nýju ári hjá Óla Gísla
Ungbarnasund er eitt það fallegasta sem foreldri og barn geta upplifað
saman snemma á ævi barnsins,“
segir Ólafur Ágúst Gíslason,
íþrótta- og ungbarnasundkennari.
„Ungbarnasund er skemmtileg leið til
þess að tengjast ungbörnum sínum
og auka öryggi þeirra í vatni. Í mörgum
tilfellum hefur ungbarnasundið
fyrirbyggjandi áhrif á vatnshræðslu.
Enn fremur hjálpar það foreldrum að
umgangast börnin á öruggan hátt í
vatninu og auka traust beggja aðila,
foreldris og barns.
Þetta er raunar eins og fyrsta
líkamsrækt barnsins. Vatnið gefur
öðruvísi eftir en andrúmsloftið og
veitir meira viðnám sem orsakar meiri
áreynslu fyrir barnið, eykur styrk þess
og jafnvægi. Við áreynsluna eykst
hjartsláttur og öndun og því styrkjast
bæði hjarta og lungu við hreyfinguna.
Við þekkjum það sjálf að eftir góða
æfingu eða áreynslu líður okkur betur
og líkamleg þreyta er alltaf góð. Vatnið
örvar líka barnið, eykur einbeitingu
og styrkir ónæmiskerfið. Útkoman er í
langflestum tilfellum að barnið sefur
og borðar betur og líður almennt
betur. Ávinningurinn er eiginlega með
ólíkindum,“ segir Ólafur. Námskeiðin
eru haldin tvisvar í viku, á þriðjudögum
og föstudögum, í Reykjalundi.
Óskastund með fjölskyldunni
„Ég hef haldið námskeiðin í hartnær
18 ár hér heima en ég byrjaði í Ósló
vorið 2000 og á Reykjalundi 2001.
Það myndast alltaf ánægjuleg
stemning í sundinu. Flestir staldra
við eftirá, fara í pottinn með börnin
og spjalla saman. Við það myndast
kunningsskapur þar sem fólk miðlar
reynslu sinni, en oft er fólk svo að
koma með annað og þriðja barn í
námskeiðin því það tókst svo vel með
það fyrsta,“ segir Ólafur.
Ávinningur af ungbarnasundi:
• Einstakt og gott
örvunarumhverfi á fyrstu
mánuðum barnsins.
• Styrkir ónæmiskerfi, líkamsvitund
og sjálfsímynd.
• Eykur einbeitingu, aga,
aðlögunarhæfni og hreyfiþroska.
• Áhersla á leik, samspil foreldra
og barna, líkamssnertingu og
augnsamband.
• Foreldrar kynnast öðrum
foreldrum og börn venjast
samskiptum við aðra.
• Ánægjuleg stund án
utanaðkomandi truflunar.
• Ungbarnasund 1–2 í viku stuðlar
að betri svefni, matarlyst
og betra skapi meðan á
námskeiðinu stendur.
Líkamsrækt B&Ó
Ólafur er menntaður íþróttakennari
og starfaði í Garðaskóla í Garðabæ
frá 1980–2018. Frá 1989 hefur hann
verið með námskeið við Líkamsrækt
B&Ó í Ásgarði í Garðabæ. „Við
erum með þetta saman, ég og
Elín Birna Guðmundsdóttir, sem
er íþróttakennari að mennt. Birna
sér um að kenna konunum sem
eru 70 talsins. Sjálfur er ég með
líkamsræktarnámskeið fyrir um 70
karla á mjög breiðu aldursbili. Sá
yngsti er 25 og sá elsti er 83 ára,“
segir Ólafur og bætir við að það
séu þrennir feðgar saman í öðrum
hópnum!
„Tímarnir samanstanda af
fjölbreyttum líkamsæfingum. Hver
og einn ræður sínum hraða. Tímarnir
byggja á upphitun, lóðaæfingum,
tvímenningsæfingum eða fjölbreyttri
stöðvaþjálfun í hálftíma þar sem
er af ýmsu skemmtilegu að taka.
Einnig spilum við körfubolta. Karlarnir
komast oft í mikið keppnisskap við
það og er fátt skemmtilegra en að
sjá unglingana brjótast fram hjá
þeim. Í lokin er teygt vel á og hangið
í rimlunum. Flestir skella sér svo í
laugina eða heita pottinn til að spjalla
og ræða úrslitin í körfuboltanum. Þeir
allra hörðustu fara í þann kalda eftir
á,“ segir Ólafur.
Félagsskapurinn skiptir máli
Námskeiðin snúast ekki eingöngu
um líkamlega áreynslu heldur finnst
Ólafi mikilvægt að virkja félagslega
þáttinn. „Þetta er 50% líkamsrækt
og 50% félagsskapur sem gerir þetta
að miklu meira en bara líkamsrækt.
Við höldum stórskemmtilega
haustfagnaði, förum saman í
jeppaferðir og gönguferðir. Þá
hefur skapast sú hefð að halda
helgistund í Maríuhellum í Heiðmörk
á aðventunni eftir klukkustundar
gönguferð,“ segir Ólafur. „Í apríl
héldum við svo upp á 30 ára afmæli
Líkamsræktarinnar á Laugarbakka
með um 100 manns.“
Ungbarnasund Óla Gísla
fer fram í innisundlaug
endurhæfingarmiðstöðvarinnar að
Reykjalundi. Næsta námskeið byrjar
þriðjudaginn 21. janúar.
Líkamsrækt B&Ó er staðsett
íþróttamiðstöðinni Ásgarði í
Garðabæ og hófst vornámskeiðið
mánudaginn 6 janúar s.l. Tímar hjá
körlunum eru á mán. og mið.
Allar nánari upplýsingar
má nálgast á likamsraekt.is
Netfang: oligisla@hotmail.com,
oligisla@ungbarnasundolagisla.is,
facebook: Ungbarnasund Óla Gísla
Sími: 8472916
Myndir: Eyþór Árnason