Morgunblaðið - 10.01.2020, Blaðsíða 17

Morgunblaðið - 10.01.2020, Blaðsíða 17
MINNINGAR 17 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. JANÚAR 2020 Vilhjálmur tengdist kennslu og stjórnun skóla allan sinn starfsferil. Snemma á starfsferl- inum varð hann skólastjóri Hér- aðsskólans á Laugarvatni en flutti sig síðan að Bifröst í Borg- arfirði þar sem hann kenndi úti- vist og íþróttir. Næsta starf var skólastjórastaða við Héraðsskól- ann í Reykholti í Borgarfirði sem hann gegndi í rúman áratug og endaði svo starfsferil sinn sem rektor Menntaskólans á Egils- stöðum sem hann gegndi rúma tvo áratugi. Vilhjálmur bryddaði upp á ýmsum nýjungum í kennsluháttum sem miðuðu að því að gera nemendur sjálfstæð- ari og ábyrgari fyrir námi sínu. Vilhjálmur hafði fjölmargar hugmyndir sem sóttu á hann allt hans líf. Hann sinnti skólastarfi á veturna en á sumrin hrinti hann þessum hugmyndum sínum í framkvæmd. Hann hannaði og lét framleiða m.a. kastspil og íþróttaalmannak, byggði raðhús í Kópavogi, sumarhús í Húsafells- skógi og einbýlishús á Egilsstöð- um þar sem fjölskyldan hefur bú- ið síðustu áratugina. Keypti eign til útleigu í Árbæ og rak íþrótta- skóla fyrir unga drengi og ung- linga ásamt Höskuldi Goða Karlssyni íþróttakennara. Íþróttaskólinn var haldinn víða um land og byrjaði í Hveragerði, flutti svo í Mosfellsdal og síðustu viðkomustaðir skólans voru í Varmahlíð og loks í Reykholti í Borgarfirði, þar sem Vilhjálmur var jafnframt skólastjóri héraðs- skólans. Þekktastur er Vilhjálmur fyrir afrek sín í frjálsum íþróttum þar sem hann vann til silfurverðlauna í þrístökki í Melbourne í Ástralíu árið 1956. Það afrek verður seint slegið og gerði hann landsþekkt- an. Aðstaða til íþróttaiðkunar var ekki góð á höfuðborgarsvæðinu á þessum árum og enn verri úti á landsbyggðinni. Þetta gerði það að verkum að íþróttaferill Vil- hjálms varð skemmri en annars hefði orðið ef tími og aðstaða hefðu verið ákjósanlegri. Vilhjálmur var listhneigður og málaði landslagsmyndir alla sína ævi. Sömuleiðis var hann hag- mæltur vel og orti m.a. um föður minn á sextugsafmæli hans. Stíll- inn, orðnotkunin og kvæðið í heild ber þess merki að höfund- urinn hafði góð tök á kveðskap og kunni sitt fag vel. Vilhjálmur og Gerður eignuð- ust sex pilta sem allir sem einn hafa spjarað sig og náð langt hver á sínu sviði. Ég votta Gerði Unndórsdóttur, Rúnari, Einari, Unnari, Garðari, Hjálmari og Sigmari mína innilegustu samúð. Guð blessi minningu Vilhjálms Einarssonar frá Egilsstöðum. Jón Egill Unndórsson Ég var sex ára snáði úti í Kaupmannahöfn þegar ég eign- aðist blátt bindi með ólympíu- hringjunum á. Það hefur verið um jóliń56. Eitthvert óljóst vit hafði ég á hvað það merkti. Þá um sumarið hafði ég verið sendur foreldrum Vilhjálms á Egilsstaði þar til ég yrði sóttur yfir á Seyð- isfjörð. Tveimur árum síðar, aftur kominn á Seyðisfjörð, er mér minnisstætt að standa einn við hlið Villa frænda í inngöngunni í salinn á samkomuhúsinu Herðu- breið þar sem hann var að sýna kvikmyndina frá þrístökks- keppninni á Ólympíuleikunum. Enn heyri ég fyrir eyrum mér: „Þarna er ég og þarna er Da Silva.“ Erindi Villa á Seyðisfjörð þá var reyndar að kynna fjölskyld- um móðurbræðra sinna sína ungu og glæsilegu brúði, hana Gerði sína. Það gerði hann vissu- lega með stæl eins og annað. Tveimur árum seinna, sjötta ágúst 1960, var ég í stúkunni á Laugardalsvellinum, neðst við handriðin beint ofan við stökk- gryfjuna, og kallaði á frænda sem gekk þar fyrir neðan og við veif- uðumst á. Horfði svo á hann búa sig undir stökkin, vaggandi fram og aftur í einbeitingu, skemmti- lega útskeifur. Þegar hann svo kom í stökkið supu karlarnir við hliðina á mér hveljur: „Hann ætl- ar yfir gryfjuna.“ Þarna jafnaði hann gildandi heimsmet, 16,70, sem hafði verið slegið þremur dögum fyrr. Þessi misserin áttum við poll- arnar á Ármannsvellinum tvær fyrirmyndir aðrar en Roy og Tarzan: Rikka og að sjálfsögðu Vilhjálm sem einstakur ljómi stóð af. Þarna héldum við á spóa- leggjum okkar frægar þrístökks- keppnir og þóttumst góðir ef við stukkum yfir 8 metra. Urðum þó ekki slíkir sem þeir sem voru svo lánsamir að fara í íþróttabúðirn- ar hjá Höskuldi og Villa. En við vorum eigi að síður af Vilhjálm- skynslóðinni. Síðan eru liðnir sex áratugir. Af öllum mínum flottu frænd- um hefur hann verið mér nán- astur. Ófært er hér að tíunda það. Þar koma þó við sögu bæði Reykholt og Eiðar og Villi í báð- um tilfellum mér meiri áhrifa- valdur en ég býst við að hann hafi framan af áttað sig á. Ég var sem sagt í Reykholti fyrsta vetur Villa þar og í fyrsta útskriftarárgangi hans og síðar vorum við í nánum tengslum fyrsta ár hans við Menntaskólann á Egilsstöðum – nú fyrir fjörutíu árum. Við bekkjarsystkinin úr Reyk- holti höfum hist reglulega þar og jafnan verið í sambandi við Villa. Þegar hann svo braust í því að koma saman bók um skólastjó- ratíð sína í Reykholti fyrir ára- tug, Skóli fyrir lífið, leitaði hann til mín. Það skilaði ítarlegri um- fjöllun um fyrsta skólastjórnar- vetur hans (svo honum þótti reyndar nóg um). Þó ég láti hér undir höfuð leggjast að bera mig að lýsa hinni lífsglöðu persónu þessa stór- frænda míns þykir mér fara vel á því að enda þetta með því að hafa yfir „ræðu“ sem hann bað mig um að flytja fyrir sig. „Stystu ræðu sem ég hef flutt,“ eins hann orðaði það í símann einmitt þegar ég var að ganga í salinn á sam- komu okkar bekkjarsystkina í Reykholti vorið 1991. Hún var flutt til minningar um nýlátinn bekkjarbróður okkar, Karl Sig- hvatsson: „Lifið lífinu lifandi.“ Það finnst mér eiga einkar vel við hann sjálfan. Hjalti Þórisson. Fyrir nokkrum árum skrifaði knattspyrnuþjálfarinn Eysteinn Hauksson háskólaritgerð þar sem hann leitaði svara við spurn- ingunni af hverju Grindvíkingar hefðu náð lengra á íþróttasviðinu en Héraðsbúar, þótt íbúar svæð- anna væru álíka margir. Líkt og Eysteinn þurfti ég einhverju sinni að takast á við háðsglósur vina minna af Suðurnesjunum fyrir þetta, uns mér tókst að svara og benda á að Austfirðing- ar hefðu eignast verðlaunahafa á Ólympíuleikum áratugum á und- an Grindvíkingum. Ég kynntist Vilhjálmi ekki fyrr en á eldri árum í Mennta- skólanum á Egilsstöðum. Hann kenndi mér ekki íþróttir heldur stærðfræði. Í slíkum tíma hjá honum var ég þegar Vala Flosa- dóttir vann til bronsverðlauna í stangarstökki á leikunum í Sydn- ey árið 2000. Vilhjálmur var alltaf að laumast út úr tímanum að sjónvarpsskjánum til að fylgjast með Völu og sagði okkur frá af- rekum hennar þegar hann kom til baka. Hann var stoltur þegar hann kom úr einni ferðinni og til- kynnti að Vala hefði farið yfir 4,50 metra og væri þar með kom- in í verðlaunasæti. Vilhjálmur varð ekki við beiðnum okkar um að ljúka tímanum strax til að geta fylgst með Völu, en þegar tíminn var úti drifum við okkur til að sjá síðustu stökk hennar. Íþróttavöllurinn á Egilsstöð- um hefur borið nafn Vilhjálms frá árinu 2001, en hann var end- urnýjaður fyrir Landsmót UMFÍ sem haldið var hér þá um sum- arið. Nokkrir minnisvarðar eru á vellinum um hið glæsilega afrek hans á leikunum í Melbourne árið 1956, annars vegar skjöldur í brekkunni þar sem áhorfendur sitja, hins vegar skúlptúr framan við völlinn sem sýnir stökkið fræga. Íþróttafélagið Höttur hafði frumkvæði að gerð skúlp- túrsins af myndarskap þegar 50 ár voru liðin frá afrekinu árið 2016. Þá hafa spor Vilhjálms ver- ið merkt í brautina við hlið stökk- gryfjunnar á vellinum. Þegar maður horfir eftir sporunum og skúlptúrnum verður manni ljóst hvílíkt afrek það er að stökkva 16,26 metra í þrístökki. Vilhjálmur sýndi áhuga á við- burðum á vellinum og lét iðulega sjá sig þegar stærri frjálsíþrótta- mót voru haldin þar. Hann tók já- kvætt í það þegar til hans var leitað eftir aðstoð en hann afhenti meðal annars verðlaun á Ung- lingalandsmótum UMFÍ þar. Vil- hjálmur bar með sér með já- kvæði og hvatningu til keppenda, mótshaldara og samferðafólks. Það má líka segja að Vilhjálm- ur hafi tekið þátt í Unglinga- landsmótinu 2011 en samhliða því hélt hann málverkasýningu í Austrakjallaranum. Vilhjálmur var liðtækur málari og eftir hann liggur fjöldi mynda af austfirsku landslagi sem sumar hanga uppi á opinberum stöðum, almenningi til yndisauka. Við Austfirðingar minnumst Vilhjálms sem einstaklings sem sannarlega lagði sitt af mörkum til að efla austfirskt samfélag, íþróttalíf og æsku. Fjölskyldu hans votta ég samúð mína. F.h. Ungmenna- og íþrótta- sambands Austurlands, Gunnar Gunnarsson, formaður. Fallinn er frá sonur þjóðar sem flestir þekktu sem silfur- manninn mikla. Ég hins vegar þekkti Villa betur sem föður besta vinar míns sem vildi allt fyrir okkur drengina gera. Eft- irminnilegir eru laugardagarnir þegar enski boltinn birtist á skjánum. Þá bauðst Villi ýmist til að baka fyrir okkur bollur eða poppa. Vilhjálmur náði vel til okkar drengjanna því aldrei tal- aði hann barnslega við okkur heldur vorum við hálffullorðnir með ráð og visku. Fáir fylgdust betur með heimsmálunum enda hlustaði Vilhjálmur á langbylgju BBC og var oft með tíðindin á undan fréttum sjónvarpsins. Ein af mínum skemmtilegustu jóla- minningum úr æsku var að koma í Útgarðinn þegar allir stóru bræðurnir komu austur með sín- ar fjölskyldur. Frú Gerður var allt í öllu ásamt tengdadætrum að undirbúa jólin og hátíðina með tilheyrandi veisluhöldum. Á með- an ræddu bræðurnir heimsmálin, tefldu skák eða kepptu í hinu og þessu. Óhætt er að segja að það hafi oft þurft að róa bræðurna niður þar sem keppniskapið gat borðið suma ofurliði. Þá sá Vil- hjálmur til þess að menn lægðu öldurnar. Það var alltaf gott að koma í Útgarðinn, kossalæti og knúsin hennar Gerðar og einnig væntumþykja þeirra hjóna mun seint líða mér og fleiri sona Eg- ilsstaða úr minnum. Elskulega Gerður og stórfjöl- skylda, ég sendi mínar dýpstu samúðarkveðjur. Takk fyrir allt elsku Villi, hvíl þú í friði. Egill Reynisson. Látinn er Vilhjálmur Einars- son, fyrrverandi sambandsstjóri Ungmennasambands Borgar- fjarðar (UMSB), okkar fyrsti ól- ympíuverðlaunahafi og einn far- sælasti íþrótta- og æskulýðsleiðtogi þjóðarinnar. Vilhjálmur var formaður UMSB um sex ára skeið á árunum 1967- 1973 en var þá jafnframt skóla- stjóri Héraðsskólans í Reykholti. Það má með sanni segja að það hafi verið bæði heiður og happ að hann skyldi veljast með þeim hætti til starfa í þágu æskulýðs í Borgarfjarðarhéraði. Ýmis ný- mæli voru tekin upp í starfsemi UMSB í tíð Vilhjálms en einnig hafði hann ákveðnar hugmyndir um hvernig styrkja mætti fjár- hag sambandsins sem gerði öllu félags- og íþróttastarfi innan UMSB mögulegt að vaxa og dafna svo eftir var tekið. Íþrótta- starf innan aðildarfélaganna efld- ist, íþróttaiðkendum fjölgaði sem og íþróttaviðburðum er þá náðu til fleiri aldurshópa. Að frum- kvæði Vilhjálms voru haldnar sumarhátíðir í Húsafellsskógi þar sem aðildarfélög UMSB voru virkjuð við undirbúning og fram- kvæmd þeirra en fengu á móti að setja upp söluskúra til eigin fjár- öflunar. Þarna var unnið þrek- virki strax á fyrsta ári við að byggja upp aðstöðu til samkomu- haldsins og í raun lauk því verki aldrei því alltaf þurfti að bæta um betur og auka við. Aðsóknin var mikil; um tíundi hluti þjóðarinnar mætti þegar flest var. Hagnaður af sumarhátíðunum dugði gott betur en að kosta nýtt starf fram- kvæmdastjóra UMSB. Ásamt fjölmörgum verkefnum beitti Vil- hjálmur sér fyrir því að haldið var áfram kostnaðarsömum framkvæmdum við íþróttavöll sambandsins á Varmalandi og hann tekinn í notkun. Vilhjálmur var sæmdur gull- merki UMSB á sjötíu ára afmæl- ishátíð sambandsins 1982. Fram- lag hans í þágu UMSB var ómetanlegt. Sambandið bar þess vitni lengi eftir að hann hóf störf á nýjum vettvangi í fjarlægu hér- aði. Ungmennasamband Borgar- fjarðar vottar fjölskyldu Vil- hjálms Einarssonar sína dýpstu samúð. Minning hans mun lifa. Fyrir hönd UMSB, Sigurður Guðmundsson, fv. framkvæmdastjóri UMSB, Jón G. Guðbjörnsson, fv. sambandsstjóri UMSB. Kjarnorkuverið í Chernobyl var nýsprungið og við Vilhjálmur sátum í lest hraðfara í vesturátt frá Berlín vorið 1986 ásamt fé- lögum okkar úr Skólameistara- félagi Íslands. Við höfðum setið fundi í „Húsi hinnar pólitísku menntunar“ í vesturhlutanum, á ferð um Austur-Þýskaland og hlustað á fyrirlestra í Austur- Berlín um hugmyndafræði kommúnista af fólki, sem glatað hafði sannfæringunni um stjórn- skipun skólakerfisins. Skrýtið þótti manni að heimsækja höfuð- stöðvar Kennarasambands Aust- ur-Þýskalands og finna fyrir and- anum sem réð ríkjum. Við höfðum fyrr í vormánuðinum set- ið ráðstefnu í námskrárstofnun Vestur-Þýskalands í borginni So- est í Nordrhein Westfalen. Þar var allt með öðru sniði en í austr- inu. Margt var skrafað og skegg- rætt. Nokkrir ferðafélagar okkar eru nú látnir – þau Þór Vigfússon fararstjóri okkar sem mjög kunnugur var Berlín og var þar við nám er múrinn var reistur, Eygló Guðmundsdóttir, sem leysti hvers manns vanda sem ekki hafði vegabréf handbært en þurfti að glíma við austurþýska lögreglu, og Ingvar Ásmundsson, sem var ráðgjafi Þórs um hvert skyldi halda, Ingólfur A. Þorkels- son, sem hélt sínu striki og stað- festu hvað sem á dundi, Kristinn Kristmundsson sem alla söng- texta kunni, Kristján Bersi Ólafs- son sem varðveitti menningararf- inn í bundnu máli. Þau og Vilhjálmur settu sinn sterka svip á för þessa. Bjart var yfir hópn- um og gleði. Samverustundirnar voru ánægjulegar enda Vilhjálmur fjörmikill og glaður á góðri stund. Við áttum gott samstarf um hagsmuni heimavistarskóla um nokkurra ára bil ásamt öðr- um þeim er hlut að áttu. Minnist ég sérstaklega fundar okkar á Egilsstöðum þar sem ákveðið var að heimsækja frænda Vilhjálms, sjálfan fyrrverandi menntamála- ráðherrann Vilhjálm Hjálmars- son, í Mjóafjörð. Lögðum við leið okkar fyrir heiði í dimmri þoku þar til við litum yfir fjörðinn og sáum heim á bæjarhlað frændans sem skyndilega var uppljómað af sólstöfum. Hann stóð veifandi hendi og skýjarof þar yfir nægi- lega vítt til að umfaðma hlað hans allt og hann sjálfan. Bauð hann okkur til stofu og af honum geisl- aði mennskan og hispursleysið, sem einlægnin ein elur af sér, og tilgerðarleysið, sem hittir hvern í hjartað, sem hlustar og nemur. Þeir frændur áttu yfir sér töfra- ljóma; annar anda hreystinnar og gleðinnar og hinn göfuglyndis og hógværðar. Hvor tveggja andinn er svo þarfur öllu skólahaldi. Fyrst kynntist ég Vilhjálmi vet- urinn 1978-79, hann gegndi þá störfum skólastjóra í Reykholti, er við Ólafur Ásgeirsson skóla- meistari á Akranesi knúðum dyra hjá honum til að ræða hugs- anlegt samstarf milli allra skóla á Vesturlandi um námsskipulag. Ég var þá í fyrirsvari fyrir Kenn- arasamband Vesturlands og gegndi starfi aðstoðarskóla- meistara á Akranesi. Var margt rætt um framtíð skólahalds í landinu. Veturinn eftir var hann ráðinn til starfa við Menntaskól- ann á Egilsstöðum. Ég minnist hans á Laugarvatni við styttu Jónasar frá Hriflu, en Vilhjálmur hafði áður verið skólastjóri Hér- aðsskólans þar og reyndist sönn lyftistöng í anda Jónasar hvar sem hann gekk fram. Ég minnist hans sem eins í hópi fólks sem setti svip sinn á skólasögu Ís- lands á síðari hluta síðustu aldar. Vilhjálmur var drengur góður. Blessuð sé minning hans. Jón F. Hjartarson. Silfurþrístökk Vilhjálms Ein- arssonar á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 er enn merkasti atburður íslenskrar íþróttasögu. Óhætt er að segja að fréttin af stökkinu hafi verið mesta ís- lenska íþróttafrétt aldarinnar. Í þeirri mannmergð sem á jörðinni lifði var aðeins einn maður er tók Vilhjálmi fram. Slá má því föstu að landsmenn hafi fundið til stolts við fréttina, sem eins og fréttir af miklum af- rekum gullaldardrengjanna nokkrum árum áður veitti fersk- um blæ inn í lognmollu hvers- dagsins; veitti roða í kinnar og vakti bros á vör. Samtímamenn segja þessa ungu íþróttamenn hafa haft gríðarlega jákvæð áhrif á íslenskt æskufólk; blásið þjóð- inni sjálfstraust í brjóst. Vilhjálmur stökk 16,26 metra í Melbourne og stóð það sem ól- ympíumet í tvær klukkustundir, eða þar til Brasilíumaðurinn Ad- hemar da Silva komst fram úr í lok keppninnar. Hann bætti um betur og stökk 16,70 á Meistara- móti Íslands á Laugardalsvelli í byrjun ágúst 1960. Til marks um ágæti þess stökks stendur það enn sem Íslandsmet, og engin breyting þar á fyrirsjáanleg. Með árangrinum í Melbourne jukust kröfur til Vilhjálms sem eins af fremstu íþróttamönnum Evrópu. Hann stóðst prófið og einn sigur vannst af öðrum. Árið eftir vann hann þrístökkið í keppni Balkanlanda og Norður- landanna og þrátt fyrir óheppni á EM í Stokkhólmi 1958 vann Vil- hjálmur þar bronsverðlaun. Fimmta sæti varð hlutskipti hans á Ólympíuleikunum í Róm 1960 og sjötta sæti á síðasta stór- mótinu, EM í Belgrað 1962. Þætti svona afrekalisti glæsileg- ur og jafnvel gott betur enn þann dag í dag. Afrek vilja gleymast þegar ár- in líða, en silfurstökk Vilhjálms er undantekning þar á. Nafn hans er fyrir löngu orðið klass- ískt í íþróttasögunni. Frjáls- íþróttadeild ÍR gerir sitt til að halda merki síns gamla félaga á lofti, nú síðast með Silfurleikun- um, árlegu innanhússmóti fyrir 17 ára og yngri íþróttamenn. Hefur það farið fram frá árinu 1996 og verið með allra stærstu mótum landsins. Á sjötta hundr- að kepptu í síðasta móti 14. nóv- ember sl. Að keppnisferli loknum vann Vilhjálmur ötullega að því að efla ungt fólk, fræða og hvetja á sviði íþrótta- og menntamála. Meðan hans naut við í höfuðborginni lagði hann mikið af mörkum í starfi frjálsíþróttadeildar ÍR. Af einstakri ósérhlífni eins og ein- kennandi er fyrir sjálfboðaliða sem haldið hafa íþróttahreyfing- unni gangandi. Fyrir það allt er honum þakkað. Að vonum hlaut Vilhjálmur margvíslegar viðurkenningar fyrir afrek sín. Eftir silfurstökkið í Melbourne stofnuðu Samtök íþróttafréttamanna til viður- kenningarinnar íþróttamaður ársins. Til hennar vann Vilhjálm- ur fyrstu fimm árin eða oftar en nokkur annar. Þá var hann fyrst- ur manna tekinn inn í Heiðurs- höll ÍSÍ árið 2012. Samúðarkveðjur sendum við eftirlifandi eiginkonu Vilhjálms, sonum og barnabörnum okkar bestu samúðarkveðjur. Hans verður vel minnst um ókomin ár. F.h. Íþróttafélags Reykjavík- ur og frjálsíþróttadeildar ÍR, Ágúst Ásgeirsson.  Fleiri minningargreinar um Vilhjálm Einarsson bíða birtingar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Vilhjálmur Einarsson stekkur á Ólympíuleikunum í Melbourne 27. nóvember 1956 og vinnur til silfurverðlauna.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.