Börn og menning - 01.09.2007, Blaðsíða 6

Börn og menning - 01.09.2007, Blaðsíða 6
4 Börn og menning »ér finnst . . . Stefán Pálsson ...krakkatombólur skemmtilegar. Þegar ég hitti hressa tombólukrakka læt ég oftar en ekki undan freistingunni og kaupi miða - að því gefnu að eitthvað klink sé að finna í vösunum, sem verður raunar sífellt fátíðara á þessum síðustu og verstuplastkortatímum. Því miður gefast sárasjaldan færi á að láta undan þessari fikn. Það er líklega áratugur frá því að krakkar bönkuðu síðast uppá heima til að betla eitthvert skran fyrir hlutaveltu. Það er reyndar enginn hörgull á krökkum sem sitja, einkum fyrir framan kjörbúðir eða litla verslunarkjarna, með vænt samansafn af hlutum sem búið er að raða skipulega á teppisbút eða pappakassa - en þegar vongóður tombóluáhugamaðurinn nálgast, mætir honum yfirleitt sama spurningin: „Hæ, viltu kaupa dót á tombólu?" Tombólurnar í Kennarablokkinni Við, gömlu tombólurefirnir, vitum mætavel að spurningin er út í hött. Tombólur ganga ekki út á að „kaupa dót". Þótt vissulega skipti bæði peningar og hlutir um hendur, er kjarni tombólunnar happdrættið þar sem enginn fær að velja, meira að segja ekki sá sem á mest af peningum. Almennileg krakkatombóla hjá okkur gríslingunum í gömlu Kennarablokkinni á Hjarðarhaganum í gamla daga (í upphafi níunda áratugarins) var margra daga verkefni. Fyrst þurfti að ganga í hálft hverfið til að safna. Það var tímafrekt en uppskeran að sama skapi yfirleitt góð. Nágrannarnir voru vanir þessu og margir höfðu jafnvel hillu í einhverjum skápnum undir tombóludót. Ef hún var tóm mátti alltaf bjarga málunum með því að grípa Royal-búðingspakka úr eldhúsinu. Næsta skref var að útbúa auglýsingar um tombóluna, stað og stund. Fyrir daga Kringluskrímslisins, þegar smákaupmenn voru á hverju horni, var engin þörf á að setja upp hlutaveltur í andyri súpermarkaða. Sameign í blokk var t.a.m. kjörin staðsetning - að því gefnu að leiðin væri vandlega merkt á auglýsingunni sem hengd var upp í KRON, fiskbúðinni, Simma-sjoppu og fatabúðinni Perlon (eða var Perlon kannski hannyrðaverslun?). Engin núll Ýmis siðferðisleg álitamál hlutu að koma upp við undirbúning almennilegrar tombólu. Stærsta spurningin var: „Eigum við að hafa núll?" Auðvitað var söluvænlegra að geta auglýst „Engin núll!" en á móti kom að með núllum mátti margfalda miðafjöldann og þar með hækka mögulega söfnunarfjárhæð, sem einatt var eyrnamerkt einhverri þjóðþrifastofnuninni - oftast Rauða krossinum. Stundum fékk gróðavonin að ráða, en þá varviðbúiðaðgramirviðskiptavinir heimtuðu endurgreiðslu eða vildu fá að draga aftur, svo útkoman varð sú sama. Lokahnykkurinn var svo að telja gróðann, skipta eftirhreytunum af dótinu - eða geyma á lager þar til næst - og banka uppá hjá Rauða krossinum. Þar tók við myndataka og nokkrum vikum síðar birti Mogginn svo mynd af „... þessum hressu krökkum sem söfnuðu xxxx krónum fyrir..." Dauði tombólunnar Það er freistandi að lesa mikinn samfélagslegan boðskap út úr því að tombóluleikurinn hafi einhvern tímann á síðustu tíu til fimmtán árum breyst yfir í venjulegan búðarleik. Um það mætti eflaust skrifa mergjaðan heimsósómapistil um græðgisvæðingu samfélagsins og hvernig börn í dag hugsi ekki um aðra. Slík niðurstaða væri hins vegar kolröng. Krakkar í dag eru líklega miklu betur að sér um mikilvægi hjálparstarfs en við rollingarnir f Kennarablokkinni vorum fyrir aldarfjórðungi. Ætli flestir grunnskólanemar hafi ekki tekið þátt í einhverjum þemaverkefnum þessa eðlis eða bekkurinn jafnvel safnað í sameiningu fyrir einhverju þjóðþrifaverkinu? Ætli nærtækari skýringu á dauða tombólunnar sé ekki frekar að finna í viðhorfum fullorðna fólksins? Þegar litið er yfir söluborð barnanna sem spyrja spennt hvort maður vilji ekki „kaupa dót á tombólu?" - reynast þau yfirleitt hafa að geyma samtíning af gömlum leikföngum þessara sömu barna. Þar eru engir Royal-búðingar, sérviskulegir kertastjakar eða plöstuð eintök af „Hlauptu drengur, hlauptu!" Breytt samskiptamynstur Er það einmitt ein birtingarmynd hræðslusamfélagsins sem við lifum í, að það er illa séð að börn fari um hverfið sitt og banki uppá hjá nágrönnum? Samfélag sem lítur fyrst og fremst á ókunnugt fólk sem mögulega glæpamenn og níðinga fyllist ótta við tilhugsunina um krakka sem fara hús úr húsi að sníkja aflóga húsmuni og púsluspil sem vantar í. Á sama hátt hika eflaust margir við að taka slíkum heimsóknum vel. Ætli karlar sem luma á sniðugu dóti á tombólu séu ekki álíka illa séðir og þeir sem bjóða krökkum gotterí? Reykjavík heldur áfram að breytast úr bæ í borg. Með því breytast samskiptamynstur fólks, því þótt það kunni að virðast þversagnakennt leiðir nábýli við stöðugt fleira fólk oft til þess að einstaklingurinn hefur samskipti við færri og færri. Væri ekki nær að leita leiða til að sporna við þessari einangrun frekar en að stuðla enn frekar að því að börnin okkar hitti og umgangist sem fæsta? Þess vegna finnst mér svo ergilegt að tombólan sé orðin að búðarleik. Höfundur er sagnfræðingur

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.