Börn og menning - 01.09.2007, Blaðsíða 10
8
Börn og menning
Kata beiskyrt: „Nei, kæri Jan, ég þori ekki
að hætta á það. Einn góðan veðurdag hittir
þú ef til vill einhverja, sem á þrjú herbergi og
eldhús, og hvað verður þá um mig?" (Kata I
Italíu: 6). Jan bregst hinn versti við, segir að
Kata sé að „lítilsvirða ást heiðarlegs manns"
og kveðst ekki munu ónáða hana framar.
Það endist í tvo daga.
í þessu stutta fríi frá Jan kemst Kata að
þeirri niðurstöðu að þau örlög að verða
piparjónka með kanarífugl og kjölturakka
séu kannski hreint ekki svo slæm. Hún biður
Jan að gefa sér frest í eitt ár — og orðin
„margt getur gerzt á einu ári" bergmála
í höfði Kötu — ekki sem hótun heldur
fyrirheit. Og Kata finnur á sér þegar Jan
hverfur henni sjónum og lestin rennur af
stað að hann hafi um leið horfið úr lífi
hennar, verið strokaður út. Henni líður ekki
vel á þessu andartaki — en hefur ekki tóm til
hugleiðinga enda er Eva með í för, sjóðandi
af spenningi yfir Ítalíuförinni.
Kjölturakkinn og kanarífuglinn eru þó
fljótir að fjúka þegar Lennart Sundman
birtist í Feneyjum. Samdráttur hans og Kötu
gengur erfiðlega; þau hittast, skilja, hittast
á ný, og Kata gengur um eins og Wagner,
Byron og Musset, þjökuð af ást sem hún
óttast að verði aldrei fullkomnuð. Áður
en hún veit hvort Lennart verður hennar,
skrifar hún Jan og segir að
þeirra sambandi sé lokið,
þvf fyrst þá viðurkennir hún
endanlega að Jan sé ekki
rétti maðurinn fyrir hana.
Lesandi skyldi þá ætla
að Lennart væri öllu
geðþekkari en Jan — og
kannski er hann það þó
að athugasemdir hans
um að Kata hafi „lítil,
snotur eyru" hljómi ekki
síður yfirlætislegar en
athugasemdir Jans um að
hún sé „sérkennileg". Og
reyndar viðurkennir Kata
fyrir sjálfri sér að hann sé
yfirlætislegur eins og Jan, aðeins á annan hátt
(Kata í Italíu: 119). Saman fara þau Lennart
og Kata til Parísar í síðustu bókinni til að gifta
sig og Eva er með í för sem brúðarmær. París
er lýst af ást og hlýju; nýbökuð hjónin skoða
allt markvert á meðan Eva er á höttunum
eftir álitlegum karlmönnum og svo auðvitað
höttum. Lennart og Kata hefja svo sambúð
og fyrstu vikum og mánuðum hennar er lýst
í sögunni. Lesanda gæti þótt Lennart dálítið
þreytandi; hann hjálpar Kötu „eins mikið
og hann gat" (Kata í París: 103), sem dugir
skammt miðað við hvað hún er þreytt. Þá
bregst hann hinn versti við þegar Kata segir
honum að hún hafi í sakleysi sínu drukkið
kaffi með Jan, sínum fyrrverandi. Alltaf þykir
Kötu hann þó jafn dásamlegur og sögunni
lýkur á því að hún situr með nýfæddan son
þeirra í fanginu.
IV. Áttu börn og buru ...
Við fæðinguna gengur Kata inn í annan
heim. Ferðum hennar er lokið, úti er ævintýri
en í staðinn komin börn og bura. Sögunni
lýkur með hugvekju hennar til sonar síns
og hvað bíði hans úti í hinum stóra heimi.
Hún hugsar fram á við, til þess tíma þegar
hann verður kominn annað og hún verður
„vepja á heiðinni sem árangurslaust kallar á
fuglsungann sinn". (Kata í París: 133) Hún
dásamar heiminn sem hún þekkir og hefur
verið svo uppnumin yfir alla tíð:
Hér er svo margt merkilegt, bíddu
bara þangað til þú sérð það. Hér eru
blómguð eplatré og lítil kyrrlát vötn,
víðáttumikið haf og stjörnur um nótt
og björt vorkvöld og skógur, er ekki
gott að hér eru skógar? (Kata I París:
133).
Allir sem lesið hafa Ronju ræningjadóttur
og undursamlegar lýsingarnar á skóginum
þekkja dálæti Lindgren á skógum sem hún
nú leggur í munn Kötu sem reynir að skila
til sonar síns þekkingu sinni en umfram allt
hrifningu og gleði yfir þessum heimi sem
bíður hans. í munni Kötu lifna náttúran
og jörðin við og hún biður þess að lífið
megi aldrei verða syni sínum svo erfitt að
hann skilji ekki að jörðin er „undursamlegt
heimili" (Kata í París: 134). Hér hverfur Kata
út úr ferðasögunni; úr menningarreisunni
og sjálfsháðinu; hún hverfur aftur til jarðar,
móður náttúru og við það lýkur þessum
bókaflokki sem er margræðari en virðist við
fyrstu sýn.
Höfundur er íslenskufræðingur
Heimildir
Edström, Vivi: AstridLindgren: A CriticalStudy. Þýdd
úr sænsku af Eivor Cormack. [Kom upphaflega út
1992.] R&S Books, Stokkhólmi o.v., 2000.
Lindgren, Astrid: Kata í Ameríku. (Kati i Amerika,
1950.) (na Steinþórsdóttir fslenskaði. Bókaútgáfan
Fróði, Reykjavík, 1968.
Lindgren, Astrid: Kata i italiu. (Kati pé
Kaptensgatan, 1952 — síðar nefnd Kati i Italien.)
Jónfna Steinþórsdóttir íslenskaði. Bókaútgáfan
Fróði, Reykjavík,1969.
Lindgren, Astrid: Kata i Paris. (Kati i París, 1953.)
Jónína Steinþórsdóttir íslenskaði. Bókaútgáfan
Fróði, Reykjavfk, 1970.