Börn og menning - 2019, Blaðsíða 27
27Villueyjar bera nafn með rentu
Kórinnu frá farandsöngvurunum hefur hún í raun aldrei
átt vin eða vinkonu. Eins og munaðarlaus börn bók-
menntasögunnar allt frá Önnu í Grænuhlíð til Harrys
Potters vita, þá er það ekki tekið út með sældinni að
vera útvalinn, hvort sem það er vegna skáldagáfu, galdra
eða óræðra tengsla við Forn-Kelta eins og hér. Arilda er
þó alls ekki klisjukennd eða fyrirsjáanleg persóna, hún
er áhugaverð blanda af sjálfsþekkingu og vanmætti,
hefur gríðarlega hæfileika á afmörkuðum sviðum en
er fullkomlega hjálparvana á öðrum. Lýsingarnar á því
hvernig hún tekst á við vinaleysið í skólanum og leik-
þættirnir sem hún setur á svið til að enginn haldi að hún
sé einmana eða aumkunarverð fylla lesandann í senn
aðdáun og sorg.
Rétt eins og Koparborgin er Villueyjar bæði gríðarlega
spennandi bók og á köflum ansi grimmdarleg. Plágan
sem geisaði í Koparborginni kallaði fram skelfingu og
fullorðið fólk myrti lítil börn af ótta við að plágan dreifði
sér. Einnig hér fremur fólk hræðileg voðaverk – ýmist af
ótta eða græðgi. Ragnhildi tekst sérlega vel upp þegar hún
lýsir samskiptum barna og fullorðinna þar sem valdajafn-
vægið er hinum fullorðnu alltaf í vil á yfirborðinu en oft-
ar en ekki vita börnin betur og þurfa að fara aðrar leiðir
til að leita réttar síns og réttlætis. Kennarar sem neita að
trúa orðum Arildu um hætturnar á eyjunni stimpla hana
móðursjúka eða lygara, henni er kennt um slys bróður
síns og enginn hlustar á hana. Hungrið og líkamleg mein
svíða sárt en sárar svíður óréttlætið, fátt er verra en að
vera hafður fyrir rangri sök.
Sigurvegararnir skrifa söguna
Rétt eins og það borgar sig ekki alltaf að treysta landa-
kortum getur verið varhugavert að trúa öðrum opin-
berum skjölum. Harmræn saga leynist marandi í kafi
undir mýrunum á Útsölum og undir vatnsyfirborðinu
í kringum Eylöndin öll. Sú ósagða saga undirstrikar
mikilvægi þess að lesa ekki mannkynssöguna gagn-
rýnilaust. Það eru sigurvegararnir sem skrifa söguna og
þeir skrifa það sem kemur þeim vel. Alltaf er til önn-
ur hlið sem gjarnan er óskráð. Hér er það saga drúída
sem voru æðstuprestar Forn-Kelta. Ekki er margt vitað
um þá annað en að þeir þekktu mikið til náttúrulækn-
inga og voru af þeim sökum taldir hafa yfirnáttúrulega
hæfileika. Öll þekking þeirra og kunnátta var varðveitt
í munnlegri geymd og hefur því glatast. Í Villueyjum
eru það farandsöngvararnir sem geyma brot úr sögu
þeirra í söngvum sínum og máttur þeirra söngva reyn-
ist vera talsverður. En ekki síður skoðar skáldsagan ný-
lendustefnu stórvelda og hvernig saga þeirra, saga okkar
á Vesturlöndum, er saga ofbeldis, kúgunar og eyði-
leggingar, þar sem náttúra, önnur menning og mannslíf
voru einskis metin af ráðandi öflum.
Í frásögninni af farandsöngvurunum, sem má með
góðum vilja tengja Rómafólki nútímans, liggur svo
annar þráður, prýðilega spunninn, sem skoðar hvernig
stoltri þjóð sem átti sín réttindi og sínar hefðir, hefur
smám saman verið ýtt upp að vegg. Viðbrögð samfé-
lagsins við farandsöngvurunum og viðbrögð söngvar-
anna við því sýna afskaplega vel hvernig samskipti geta
spillst og hvernig sífelld neikvæð mismunun elur af sér
úlfúð og hatur. Villueyjar bjóða þó ekki upp á neinar
einfaldar skýringar eða lausnir, bara áhrifaríkar myndir.
Söguþráðurinn verður undir lokin örlítið ruglingsleg-
ur og tengsl Arildu við drúídana flókin og óljós. Það
dregur þó ekki úr spennunni og við sögulok getur les-
andinn ekki annað en vonað að framhalds sé að vænta.
Hér hefur verið nostrað við hvert smáatriði, frásögnin
er æsispennandi, persónurnar vel unnar og heimurinn
heillandi.
Höfundur er leikkona og bókmenntafræðingur
Koparborgin, frumraun
Ragnhildar Hólmgeirsdóttur.