Börn og menning - 2019, Blaðsíða 33
33Hvað þarf raunverulega til þess að búa til barn?
og karlkyns læknir standa brosandi við hlið hennar og
virðast raunar halda henni niðri.
Gott og vel. Hver bók er barn síns tíma og þessi bók
kom út í kjölfar hippatímabilsins og kynlífsbyltingar
þess.
Bókin Sådan får man et barn fer ekki endilega með
fleipur, en ólíklegt er að þessi saga sé í smáatriðum sönn
fyrir marga lesendur hennar, þrátt fyrir að fylgja full-
komlega hugmyndum heterónormsins.
Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir gagnkynhneigðum for-
eldrum, í öðru lagi er gert ráð fyrir að barnið (þ.e. les-
andinn, því að við erum að velta fyrir okkur speglun
hans í bókum) hafi verið búið til af foreldrum sínum,
í þriðja lagi gerir bókin ráð fyrir að þessir foreldrar hafi
búið barnið til í trúboðastellingunni í rúminu heima.
Svona mætti lengi telja. Bókin kemur raunar aðeins inn
á að sáðfruma renni saman við egg, en það er algjört
aukaatriði í söguþræðinum.
Þessi bók var vinsæl á sínum tíma og var endurútgef-
in á íslensku árið 2010, þá með titlinum Svona verða
börnin til, í þýðingu Ólafíu Erlu Svansdóttur.
„Við gáfum hana út í gríni, fyrir fullorðið fólk með
nostalgíu, en hún fór náttúrlega beint í barnadeildina,“
sagði útgefandinn og þýðandinn Ólafía í samtali við
greinarhöfund.
Ferlið strípað niður
Tveimur árum síðar, árið 2012, hóf kanadíski kyn-
fræðingurinn Cory Silverberg söfnun á Kickstarter fyrir
útgáfu barnabókarinnar What makes a baby? sem leitast
við að svara nákvæmlega sömu spurningu, en á allt ann-
an hátt. Þetta er einmitt bókin sem ég keypti nýverið á
sænsku í útgáfu Olika förlag, Hur görs bebisar?
Í bókinni útskýrir höfundurinn ferlið á fullkomlega
strípaðan hátt, aldrei er talað um mæður eða feður,
aldrei kynlíf eða fjölskyldumynstur. Höfundur sneiðir
listilega fram hjá gagnkynhneigða norminu. Inngilding
er höfð að leiðarljósi, en það er íslensk þýðing á enska
orðinu inclusion og felur í sér að allir einstaklingar inn-
an tiltekins hóps fái notið sín og séu viðurkenndir sem
fullgildir þátttakendur.
En hvernig verða börnin eiginlega til? Er til eitt rétt
svar? Hvað gildir raunverulega fyrir alla? Þetta: Egg-
fruma og sáðfruma renna saman og mynda okfrumu.
DNA-upplýsingar úr hvorri frumu um sig sameinast á
ákveðinn hátt og skila sér inn í nýjan einstakling. Ekki
flókið.
Þannig er sagan sögð í bók Silverberg. Aldrei er talað
um hvernig sáðfruman og eggið eru leidd saman. Spyrji
barnið spurninga getur foreldri valið að segja frá ferl-
inu sem varð til þess að þetta tiltekna barn varð til og
jafnvel útskýrt í kjölfarið að til séu fleiri leiðir til að búa
til börn.
Hvað er einföldun?
Það er ekki hlaupið að því að útskýra þetta ferli án
einföldunar. Við erum svo skilyrt af samfélaginu okk-
ar, viðmiðum þess og gildum. Við kunnum svarið við
þessari spurningu utan að – hvernig verða börnin til?
Svar: Þegar mömmur og pabbar elska hvort annað rosa-
lega mikið faðmast þau lengi, lengi og þannig verður til
barn. Í þessu svari eru aftur á móti engar raunverulegar
upplýsingar og það er í raun verulega langt frá sannleika
ótal margra barna, jafnvel þeirra sem urðu til á hefð-
bundinn hátt heterónormsins.
Hér er komin bók sem segir sannleikann um öll
börn. Líka þau sem eru ættleidd (það voru ekki mamma
þeirra og pabbi sem bjuggu þau til). Líka þau sem urðu
til utan hjónabands. Líka börn sem urðu til í tilrauna-
glasi, alveg óháð því hvort þau eiga tvo pabba, tvær
mömmur eða færri eða fleiri. Það er meira að segja gert
rými fyrir börn sem hafa orðið til við staðgöngumæðr-
un, því jafnvel þar sem slíkt er ólöglegt eru samt til börn
sem hafa orðið þannig til – og þau hafa sannarlega líka
rétt á að skilja tilvist sína til fullnustu, án þess að vera
sett í annan flokk.