Þjóðmál - 01.06.2017, Blaðsíða 95
ÞJÓÐMÁL sumarhefti 2017 93
Tekur betra við - því er erfitt að svara en
Yeonmi Park lýsir stöðunni með eftirfarandi
hætti:
„Næstum allt flóttafólk í Kína býr við
viðvarandi öryggisleysi. Karlar sem komast
yfir landamærin ráða sig oft í vinnu hjá
bændum fyrir lúsarlaun. Þeir þora ekki að
kvarta vegna þess að bóndinn getur bara
sagt lögreglunni til þeirra og þá verða þeir
handteknir og sendir aftur heim. Kínverska
ríkisstjórnin kærir sig hvorki um flóð af
innflytjendum né ágreining við leiðtogana
í Pyongyang. Norður-Kórea er ekki aðeins
viðskiptaaðili heldur einnig kjarnorkuveldi
rétt við landamærin og auk þess mikil-
vægur stuðpúði á milli Kína og nærveru
Bandaríkjamanna í Suður-Kóreu. Stjórnvöld
í Peking neita að veita fólki frá Norður-
Kóreu stöðu flóttamanna og líta á það
sem ólöglega „efnahagsinnflytjendur“ sem
senda á aftur heim. Við vissum vitaskuld
ekkert um þetta áður en við flýðum. Við
héldum að okkur yrði fagnað. Og sums
staðar var það raunin – en ekki af hálfu
yfirvalda.” (Bls. 131)
Mikil eftirspurn var eftir norðurkóreskum
konum í sveitum Kína vegna þess að sökum
eins barns stefnunnar í Kína voru miklu fleiri
karlar en konur þar. Þær mæðgur sýna mikla
þrautseigju við þessar erfiðu aðstæður og
þrátt fyrir allt reynist auðveldara að eiga við
kínverska glæpamenn en norður-kóreanska
embættismenn.
En Yeonmi Park er með hugann við það eitt
að komast til Suður-Kóreu. Það er fyrir-
heitna landið. Og að lokum tekst annar
ævintýralegur flótti, nú yfir Góbí-eyðimörkina
í Mongólíu.
Fyrirheitna landið - Suður-Kórea
Lokahlutinn fjallar um aðlögun að nýju lífi í
Suður-Kóreu og eins og oftast er þá reynist
margt erfitt í fyrirheitna landinu. Yeonmi Park
fer í skóla en móðir hennar heldur áfram að
leita að systur hennar sem þær urðu viðskilja
við í Norður-Kóreu. Lýðveldið Kórea (Suður-
Kórea) hefur í meira en sex áratugi þróast
óháð lokaða ríkinu í norðri og jafnvel tungu-
málið er orðið öðruvísi. Yeonmi Park líkir
þessu réttilega við tímaferðalag að fara á milli
landanna og líklega þyrfti að meðhöndla
flóttafólkið með áfallastreituröskun, slík var
breytingin. Aðlögunin er því erfið og kannski
ekki síst að læra að hugsa sjálfstætt, en öll
slík hugsun er kerfisbundin barin úr íbúum
Norður-Kóreu. Það var því ekki nema vona að
svona hugsanir leituðu á Yeonmi Park:
„Aldrei hafði hvarflað að mér að frelsi væri
svona erfitt og grimmt. Hingað til hafði
ég alltaf haldið að frelsi þýddi að maður
gæti gengið í gallabuxum og horft á þær
kvikmyndir sem maður vildi sjá án þess að
hafa áhyggjur af því að verða handtekinn.
Nú áttaði ég mig á því að maður þurfti
alltaf að vera að hugsa og það var feikilega
þreytandi. Stundum velti ég fyrir mér hvort
ég væri ekki betur sett í Norður- Kóreu ef
ekki væri fyrir eilífa hungrið. Þar hugsuðu
aðrir fyrir mig og völdu á milli kosta.”
Yeonmi Park naut aðstoðar Maryanne Vollers,
bandarísks rithöfundar og blaðamanns, við
ritun bókarinnar sem er fróðleg og vel rituð.
Frásögnin er lifandi og upplýsandi og aldrei
eins og það sé verið að selja eina hug-
myndafræði frekar en aðra. Það er skilið eftir
fyrir lesandann að draga sínar ályktanir en
staðreyndirnar tala vissulega sínu máli.
Bókin lýsir ótrúlegri lífsreynslu þar sem venju-
legt fólk þarf að berjast við ómanneskjulegt
kerfi. Með lífið að veði situr í lesandanum lengi
eftir lesturinn og er óhætt að mæla sterklega
með henni. Það er lofsvert að bók sem þessi
komi út á íslensku svo skömmu eftir alþjóð-
lega birtingu hennar.
Þýðing Elínar Guðmundsdóttur er lipur og
hnökralaus.
Á næstu opnu má finna brot
úr einum kafla bókarinnar.